MK eftirsóknarverður vinnustaður
Starfsmannastefnan er viljayfirlýsing stjórnenda skólans til þess að gera MK að góðum vinnustað þar sem gott og skapandi starf er unnið af áhugasömu, samstilltu, vel menntuðu og ábyrgðarfullu fólki í anda jafnréttis.
Starfsmannastefna skólans miðar að því að tryggja starfsmönnum hans góð starfsskilyrði og aðstæður til þess að dafna í starfi. Stefnt er að því að það þyki eftirsóknarvert að stafa við Menntaskólann í Kópavogi vegna þess skólabrags sem þar ríkir.
Markmiðið með stefnunni er að stuðla að því að Menntaskólinn í Kópavogi gegni hlutverki sínu s.s. kveðið er á um lögum um framhaldsskóla og uppfylli réttmætar væntingar sem gerðar eru til skólans og starfsmanna hans.
Til þess að svo megi verða þarf skólinn að hafa á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem eru tilbúnir til þess að leggja honum til starfskrafta sína og vinna að einhug að þeirri stefnu, sem stjórnendur marka, hvað varðar kennslu, fræðslu og þjónustustarfsemi.
Þeir þurfa einnig að verða tilbúnir til þess að bregðast við síbreytilegum þörfum nemenda og þjóðfélagsins.
Stefnt er að því að allir kennarar skólans séu með kennsluréttindi og aðrir starfsmenn með sérhæfingu á sínu sviði. Allir kennarar og aðrir starfsmenn skólans eru valdir af kostgæfni á þann hátt að menntun þeirra og hæfileikar nýtist markmiðum skólans sem best.
Menntaskólinn í Kópavogi ætlast til þess af starfsmönnum sínum að þeir sýni
- alúð og góða fyrirmynd í starfi.
- vilja og hæfni til samstarfs.
- frumkvæði og sjálfstæði.
- skilning og ábyrgð.
- sveigjanleika og aðlögunarhæfni.
- hver öðrum virðingu og taki ekki þátt í einelti eða kynferðislegri áreitni.
Á sama hátt ætlast starfsmenn skólans til þess að
- starfslýsingar og skyldur séu skýrar.
- þeim sé veitt tækifæri til þess að dafna í starfi m.a. með aukinni ábyrgð, endurmenntun og góðum vinnuanda.
- þeim sé sýnt traust, tillitssemi og hreinskilni.
- þeir fái að leggja sitt af mörkum til að félagslegt vinnuuhverfi sé gott. Þannig verði ekki liðið að starfsmenn verði fyrir eða taki þátt í einelti og kynferðilega áreitni.
- þeir fái tækifæri til þess að taka þátt í ákvaðanatöku um málefni sem varða störf þeirra sérstaklega.
- starfsöryggi þeirra og launamál séu eins trygg og hægt er.
- gætt sé jafnræðis í launum óháð kyni.