Menntaskólinn í Kópavogi var settur í fyrsta sinn 22. september 1973 af Ingólfi A. Þorkelssyni, skólameistara. Í fyrstu fór starfsemi skólans fram í viðbyggingu við Kópavogsskóla og voru nemendur alls 125 í sex bekkjadeildum. Árið 1982 var kennslukerfinu breytt og tekið upp svokallað kjarnakerfi sem var millileið milli bekkjakerfis og áfangakerfis og MK varð því menntaskóli með fjölbrautasniði. Haustið 1995 var kennslukerfinu breytt í hreint áfangakerfi og ári seinna hófst kennsla í verknámsdeildum skólans.
Margt hefur breyst í málefnum skólans á þeim 50 árum sem liðin eru frá því að hann hóf göngu sína. Í stað þeirra 125 sem hófu nám í MK eru nú um tífalt fleiri nemendur við nám í bóknámi, matvælanámi, leiðsögunámi og á afrekssviði. Stjórnendur stefna að því að í Menntaskólanum í Kópavogi verði áfram boðið, jöfnum höndum, upp á metnaðarfullt bóknám og verknám og bæta enn við sérhæfingu skólans á þeim sviðum. Einnig að auka námsframboð í takt við þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma. Árið 2019 var afreksvið stofnað en það er hannað fyrir metnaðarfullt íþróttafólk sem vilja krefjandi stúdentsnám en þurfa á að halda sveigjanleika í námi vegna íþróttaiðkunnar sinnar.
Stefna Menntaskólans í Kópavogi er að veita nemendum möguleika til menntunar og þroska á þeirra forsendum í framsæknum skóla. Skólinn kappkostar að bjóða hagnýtt og fjölbreytt nám sem undirbýr nemendur fyrir störf í atvinnulífinu eða frekara nám. Menntaskólinn í Kópavogi leggur áherslu á þekkingu, þroska, þróun og þátttöku í allri starfsemi skólans með hag nemenda og starfsmanna að leiðarljósi. Menntaskólinn í Kópavogi er menntaskóli í víðasta skilningi, skóli bóklegra og verklegra mennta.
Leiðarljós Menntaskólans í Kópavogi eru:
- Leiðbeina nemendum af festu án þess að teyma þá.
- Gefa nemendum sýn til allra átta.
- Kenna nemendum að hugsa fremur en innræta þeim hvað þeir eigi að hugsa.
- Vera nemendum til fyrirmyndar um fornar dyggðir, iðjusemi, árvekni og stundvísi.
- Leggja áherslu á hvort tveggja þekkingu og þróun.
- Hvetja nemendur til virkrar þátttöku í nær- og fjærsamfélagi.
- Koma hverjum og einum til nokkurs þroska.