STE-010 Jafnréttisstefna

JAFNRÉTTISSTEFNA MENNTASKÓLANS Í KÓPAVOGI

Menntaskólinn í Kópavogi setur sér eftirfarandi jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008, með áorðnum breytingum; einnig lögum um jafnlaunavottun 56/2017 og meðf. reglugerð.

18. gr. Vinnumarkaður.

  • Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa [25 eða fleiri] 1) starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína.

23. gr. Menntun og skólastarf.

  • Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.
  • Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
  • Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu piltar og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.

28. gr. Bann við mismunun í skólum og á uppeldisstofnunum.

  • Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum er hvers konar mismunun á grundvelli kyns óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.

 

Menntaskólinn í Kópavogi starfar samkvæmt grunnþáttum menntunar og einn þeirra er jafnrétti.

Skólinn hefur hlotið jafnréttisverðlaun Kópavogs og áhersla er lögð á að standa undir þeirri nafnbót að kallast jafnréttisskóli.

Með jafnréttisstefnu Menntaskólans í Kópavogi vilja stjórnendur skólans stuðla að jafnrétti á öllum sviðum og leggja áherslu á mikilvægi þess að allt starfsfólk fái notið hæfileika sinna til fulls. Halda skal sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllu starfi innan skólans. Í stefnumótun og ákvarðanatöku á öllum sviðum skólans skal unnið með kynjasamþættingu* í huga.

Hvers kyns mismunun sem byggð er á aldri, búsetu, fötlun, kyni, kynhneigð, kynvitund, lífsskoðunum, menningu, stétt, trúarbrögðum eða þjóðerni er óheimil, í hvaða formi sem hún kann að birtast og skal vinna markvisst gegn slíkri mismunun.

Kynbundið ofbeldi eða áreitni** er ekki liðið.

Jafnréttisstefnu Menntaskólans í Kópavogi er fylgt eftir með jafnréttisáætlun.

*Kynjasamþætting snýst um að gæta að hvaða áhrif öll stefnumótun eða ákvarðanataka hefur á konur og karla innan stofnunarinnar.

**Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.

Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður.

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun nær til allrar starfsemi skólans. Stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála. Gæðastjóri er sá fulltrúi stjórnenda sem ber ábyrgð á innleiðingu á jafnlaunakerfinu (IST-085:2012). Stjórnendur skuldbinda sig til þess að fylgja lögum sem varða jafnan rétt kynja til launa fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Þeir sjá um að halda uppi stöðugum umbótum sem varða jöfnun á kynbundnum launamun fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf innan hvers stéttarfélags. Ef kynjabundin ójöfnuður launa kemur upp ber að bregðast við því skv. umbótaferlum skólans og fylgja verkferli „Úrbætur áhættugreining“ . Að jafnaði skal þess gætt að óútskýrður kynbundinn launamunur sé ekki meira en 3%.

Jafnréttisnefnd

Innan Menntaskólans í Kópavogi skal starfa jafnréttisnefnd sem er skipuð til tveggja ára í senn. Í jafnréttisnefnd skulu sitja eigi færri en þrír einstaklingar, þar af einn fulltrúi nemenda. Einn meðlima skal leiða nefndina og vera jafnréttisfulltrúi skólans. Jafnréttisnefnd á að hafa það hlutverk að fylgjast með stöðu jafnréttismála í skólanum. Hún ber ábyrgð á að markvisst sé verið að vinna eftir jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun skólans.

Jafnréttisnefnd mótar stefnu og áætlanir skólans í jafnréttismálum. Þegar tímaramma aðgerðaáætlunar er lokið metur nefndin árangur eftir fyrirframgefnum markmiðum í samráði við stjórnendur. Nefndin tekur saman tölur um stöðu kynja í skólanum s.s. kynjahlutfall kennara/starfsfólks og kortleggur hvernig staða jafnréttismála er í skólanum. Niðurstöður eru birtar í ársskýrslu skólans.

Jafnréttisnefnd sér einnig um að endurskoða jafnréttisstefnu og áætlun skólans. Jafnréttisfulltrúi kallar jafnréttisnefnd á fundi. Jafnréttisfulltrúi hefur einnig það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir nemendafélagið og starfsfólk sem leitar til hans.

Menntaskólinn í Kópavogi sem vinnustaður

Þættir sem litið er til eru: ráðningar, ráðningarkjör, starfsaðstæður, starfsframi, verkefni og ábyrgð, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, einelti*** og kynferðisleg áreitni.

***Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda viðkomandi ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Ráðningar

Hafa skal öll kyn í huga þegar störf eru auglýst og leitast við að halda hlutfalli kynjanna eins jöfnu og frekast er unnt. Skal sérstaklega hvetja þau sem tilheyra því kyni sem hallar á til þess að sækja um störf sbr. 26. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Gæta skal jafnréttissjónarmiða til jafns við önnur sjónarmið við ráðningar í skólanum.

Ráðningakjör

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu viðmið við ákvörðun launa vera skýr og öllum ljós. Þess skal gætt að starfsfólki séu greidd rétt laun og að þau njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf. Þetta á einnig við um lífeyri, orlof og veikindarétt.

Við ákvörðun launa er unnið skv. jafnlaunastaðli ÍST-85:2012 sem er grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja í skólanum.

Skólameistari fer yfir ráðningarkjör með starfsfólki í starfsmannaviðtölum.

Starfsaðstæður

Leitast er við að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, s.s. vegna óska um töku fæðingar- og foreldraorlofs eftir því sem starfstími og skipulag kennslu leyfir. Skólastjórnendur hvetji starfsfólk til að nýta sér fæðingarorlof. Eins eru foreldrar hvattir til að skipta með sér heimaveru vegna veikinda barna sinna. Ekki skal líta á það sem mismunun að tekið sé tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar.

Starfsframi, verkefni og ábyrgð

Öll kyn skulu hafa jafna möguleika á starfsframa innan skólans. Gæta skal jafnréttissjónarmiða við skiptingu verkefna og deilingu ábyrgðar meðal starfsfólks. Við skipan í nefndir og ráð skal gæta þess að kynjahlutfall sé sem jafnast sé því viðkomið.

Starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Öll skulu hafa jafna möguleika á að þróa sig áfram í starfi. Gæta skal jafnréttissjónarmiða þegar starfsfólk sækist eftir að bæta sig í starfi.

Einelti og kynferðisleg áreitni

Auka skal fræðslu um einelti, kynbundna- og kynferðislega áreitni til að stuðla að því að allt starfsfólk sé meðvitað um slík málefni og geti greint slík mál og brugðist við þeim. Í verklagsreglu VKL-404 Úrbætur/áhættugreining og á verkefnablaði GAT-008 er lýsing á verklagi við úrvinnslu mála.

Menntaskólinn í Kópavogi sem menntastofnun

Þættir sem litið er til eru; jafnrétti í skólastarfi, fræðsla, einelti og kynferðisleg áreitni.

Jafnrétti í skólastarfi

Nauðsynlegt er að starfsfólk gefi gott fordæmi, að það sé fyrirmyndir og stuðli að jafnrétti í orði og verki. Í skólastofunni er mikilvægt að kennari leggi fyrir fjölbreyttar gerðir verkefna sem höfða til mismunandi nemendahópa. Kennarinn verður að vera meðvitaður um þann fjölbreytileika sem kann að vera til staðar í nemendahópnum og að allir séu virkjaðir í náminu. Hvetja skal nemendur til dáða á sviðum sem eru utan hefðbundinna kynhlutverka.

Skólinn á að vera vettvangur fyrir nemendur til þess að prófa sig áfram á ólíkum sviðum. Í námsgreinum þar sem kynjunum gengur almennt misvel að tileinka sér námsefnið skal markvisst reynt að nota aðferðir og efni til að hvetja alla nemendur til dáða. Kennarar bera ábyrgð á að nota námsefni sem er samið af og fjallar um einstaklinga með fjölbreytilegan bakgrunn og endurspegla fjölbreytileika nemendahópsins. Ekki skal ganga út frá því að allir nemendur séu gagnkynhneigðir eða hafi allir kynvitund sem fellur að tvískiptingunni í karla og konur. Kennarar skulu vera vakandi fyrir því hvort halli á nemendur út frá kyni varðandi framkomu í þeirra garð, s.s. hvort stúlkur og piltar séu spurð álíka oft og þeim kennt af jafnmikilli dýpt og sérhæfingu. Starfsfólk skal reglulega fá fræðslufundi og námskeið sem snerta jafnréttismál.

Í námi, félagsstarfi og framkomu fyrir hönd skólans á öllum vettvangi skal ávallt gæta þess að kynjahlutföll séu sem jöfnust.

Fræðsla fyrir nemendur

Nemendur skulu fá fræðslu um jafnrétti kynjanna. Í þeirri fræðslu skal leggja áherslu á styrkleika, skyldur og réttindi allra nemenda. Hluti af jafnréttisfræðslu skólans á að taka fyrir mismunun byggðri á aldri, búsetu, fötlun, kyni, kynhneigð, kynvitund, lífsskoðunum, menningu, stétt, trúarbrögðum eða þjóðerni. Nemendur fá þjálfun í að vinna gegn hvers konar misrétti.

Fjallað er um jafnrétti í ýmsum áföngum innan skólans en einnig skal öllum nemendum skylt að taka áfanga í kynjafræði.

Einelti og kynferðisleg áreitni

Auka skal fræðslu um einelti, kynbundna- og kynferðislega áreitni til að stuðla að því að allir nemendur séu meðvitaðir um slík málefni og geti greint slík mál og brugðist við þeim.

Telji nemandi að jafnrétti sé brotið eða farið á svig við reglur skólans skal leitað til skólameistara, jafnréttisfulltrúa, námsráðgjafa eða starfsfólks sem finna málinu farveg.

Aðgerðabundin jafnréttisáætlun

Samþykkt af skólameistara Menntaskólans í Kópavogi þann 15. júní 2020

Síðast uppfært 12. mars 2024