Skólanefnd
Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningum sveitarstjórna og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn.
Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt, einn tilnefndur af kennarafundi, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði, til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
Listi yfir skipaða fulltrúa í skólanefnd er birtur á heimasíðu skólans mk.is. Fundargerðir skólanefndar eru birtar á heimasíðu skólans mk.is.
Hlutverk skólanefndar
Hlutverk skólanefndar er skilgreint í 5. grein laga um framhaldsskóla nr. 92/2008.
Hlutverk skólanefndar er að:
- marka áherslur í starfi skólans og stuðla að sem bestri þjónustu við íbúa á starfssvæði skólans og tengslum hans við atvinnu-, félags- og menningarlíf,
- vera skólameistara til samráðs um námsframboð skóla,
- staðfesta skólanámskrá að fenginni umsögn almenns skólafundar og fylgjast með framkvæmd hennar,
- veita skólameistara umsögn um árlega starfs- og fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgjast með framkvæmd hennar,
- vera skólameistara til samráðs um fjárhæð þeirra gjalda sem skólameistari ákveður skv. 45. gr. framhaldsskólalaga og reglurgerðar nr. 614 frá 7. júlí 2009 um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla,
- vera skólameistara til samráðs um samninga sem viðkomandi skóli gerir,
- vera skólameistara til samráðs um starfsmannamál,
- veita ráðherra umsögn um umsækjendur um stöðu skólameistara.
Skólaráð
Skólaráð er kosið við upphaf hvers skólaárs.
Í skólaráði sitja tveir fulltrúar kennara, tveir fulltrúar nemenda, skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Skólameistri er oddviti skólaráðs og stýrir fundum þess.
Skólameistari boðar til funda. Skólaráð starfar á starfstíma skóla, en heimilt er að kalla það saman á öðrum tíma beri brýna nauðsyn til.
Hlutverk skólaráðs
Skólaráð starfar skv. lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 7. grein.
Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Menntamálaráðuneyti er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti.