Útskrift frá Menntaskólanum í Kópavogi verður með óhefðbundnum hætti í þetta sinn. Hún verður í beinni útsendingu frá Digraneskirkju kl. 16:00 þann 18. desember. Nemendur koma fyrir formlegu útskriftina og sækja prófskírteini sín.
Nemendur fá skírteinin afhent milli 13 og 15 í Digraneskirkju. Þeir sem ætla að taka við þeim úr hendi skólameistara og aðstoðarskólameistara þurfa að skrá sig (póstur frá skólameistara). Nemendum verður úthlutaður tími og mæta þeir í sínu fínasta pússi, með húfurnar sínar sem þeir setja upp strax að lokinni móttöku prófskírteinis. Þessum viðburði verður líka streymt á netinu svo fjölskylda og vinir geti fylgst með og samglaðst.
Með skírteinið í fanginu og húfuna á höfðinu halda útskriftarefnin heim og sameinast sínum nánustu við sjónvarpið/tölvuna og fylgjast með hinni formlegu útskriftarathöfn klukkan 16:00. Sú athöfn verður um 40 mín.
Dagskrá verður með hefðbundnu sniði, skólameistari kveður nemendur, formaður skólanefndar ávarpar samkomuna og fulltrúar nemenda í bók- og verknámi halda ræðu og kveðja skólann sinn.
Með þessum hætti tryggjum við að enginn þurfi að sæta sóttkví komi upp smit í hópi útskriftarefna. Allir mæta til kirkju með andlitsgrímu og tryggðir eru tveir metrar á milli allra, allan tímann. En grímuna má taka niður við afhendingu skírteinis og vegna myndatöku.