Bóknám í MK

Í Menntaskólanum í Kópavogi eru fjórar brautir til stúdentsprófs ásamt framhaldsskólabrú og starfsbraut fyrir nemendur á einhverfurófi. Við skólann er einnig starfrækt öflugt afreksíþróttasvið.

Félags- og hugvísindabraut

Á félags- og hugvísindabraut er áhersla lögð á félagsfræði, sögu, sálfræði og fjölmiðlafræði. Brautin býður upp á gott almennt nám auk víðtækrar þekkingar á sviði félags- og hugvísinda.

Stúdentspróf af félags- og hugvísindabraut er góður undirbúningur fyrir frekara nám í mannvísindum, félagsfræði, sálfræði, sögu, stjórnmálafræði, fjölmiðlafræði, mannfræði, lögfræði, félagsráðgjöf og uppeldis- og kennslufræði.

Opin braut

Á opinni braut er áhersla lögð á að byggja upp almennan sterkan þekkingargrunn þar sem kjarnagreinar eru í fyrirrúmi. Nemendur hafa ákveðið frjálsræði við samsetningu síns náms og geta þar með aðlagað námið að eigin áhugasviði og þörfum.

Brautinni lýkur með stúdentsprófi þar sem nemandinn hefur sett saman nám sem veitir honum réttan undirbúning undir það framhaldsnám sem hann hyggst leggja stund á.

Raungreinabraut

Á raungreinabraut er áhersla lögð á eðlisfræði, efnafræði, líffræði, jarðfræði og stærðfræði. Brautin býður upp á gott almennt nám auk víðtækrar þekkingar á sviði náttúru-, raunvísindagreina og stærðfræði þar sem nemendur fá þjálfun í fræðilegum starfsaðferðum.

Stúdentspróf af raungreinabraut er góður undirbúningur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum, náttúru- og raunvísindum, umhverfisvísindum, stærðfræði og tæknigreinum.

Viðskipta- og hagfræðabraut

Á viðskipta- og hagfræðabraut er áhersla lögð á bókfærslu, hagfræði, alþjóðaviðskipti og íslenskt viðskiptalíf í víðum skilningi. Brautin býður upp á gott almennt nám auk víðtækrar þekkingar á sviði viðskipta- og hagfræðigreina þar sem nemendur öðlast innsýn í fræðilegar starfsaðferðir.

Stúdentspróf af viðskipta- og hagfræðabraut er góður undirbúningur fyrir frekara nám í alþjóðaviðskiptum, viðskiptafræði, markaðsfræði, hagfræði og lögfræði.

Framhaldsskólabrú

Þessari braut er ætlað að búa nemendur sem ekki hafa náð tilskyldum árangri á grunnskólaprófi undir frekara nám eða atvinnulífið.

Framhaldsskólabrú er þriggja anna nám þar sem áhersla er lögð á kjarnagreinarnar dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði auk kynjafræðis, fjármála-, heilsu og umhverfislæsis o.fl. Nemendur á framhaldsskólabrú eiga góðan aðgang að öflugu umsjónarkerfi með miklu samráði við forráðamenn. Nemendur fá mikinn stuðning við námið, eru í fámennum bekkjum, fá góða endurgjöf og traust aðhald.

Starfsbraut fyrir nemendur á einhverfurófi

Starfsbrauti er ætluð nemendum sem hafa notið verulegrar sérkennslu í grunnskóla, fengið kennslu í námsveri, sérdeild eða sérskóla. Námið er fyrir nemendur sem ekki geta nýtt sér almenn námstilboð framhaldsskóla en þurfa sérhæft einstaklingsmiðað nám er mætir færni þeirra og áhuga.

Námið hefur það að markmiði að stuðla að því að nemendur fái tækifæri til að spreyta sig í fjölbreyttum viðfangsefnum í bók- og verklegu námi. Markvisst er unnið að því að auka sjálfstæði og sjálfsábyrgð nemenda með því að gera þá meðvitaðri um eigin persónu, félagsleg samskipti og umhverfið.