Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði í stúdentsnám

Almenn skilyrði til þess að hefja nám til stúdentsprófs eru að umsækjandi hafi fengið einkunnina A, B+ eða B í ensku, íslensku og stærðfræði við lok grunnskóla. Hafi umsækjandi einkunn undir því viðmiði (C+) getur viðkomandi innritast á stúdentsbraut en tekur áfanga á fyrsta þrepi í viðkomandi grein-/um. Reikna má með að námstími verði þá lengri en þrjú ár þar sem áfangar á fyrsta þrepi í kjarnagreinum teljast ekki til stúdentsprófs.

Inntökuskilyrði á framhaldsskólabrú

Umsækjandi með einkunnina C og D í ensku, íslensku og stærðfræði innritast á framhaldsskólabrú. Umsækjandi á framhaldsskólabrú getur einnig verið á afreksíþróttasviði skólans.

Inntökuskilyrði á afrekssvið

Skilyrði til þess að innritast á afreksíþróttasvið er að umsækjandi sé að æfa íþrótt í skipulögðu íþróttastarfi undir handleiðslu þjálfara. Meðmæli frá þjálfara þurfa að fylgja umsókn.

Umsækjendur skrá sig á bóknámsbraut með afrekssviði. Dæmi:

  • Íþróttaafrekssvið félags og hugvísindabraut AFFH
  • Íþróttaafrekssvið opin braut AFOP
  • Íþróttaafrekssvið raungreinabraut AFRG
  • Íþróttaafrekssvið viðskipta- og hagfræðabraut AFVH
  • Íþróttaafrekssvið framhaldsskólabrú ABRÚ

Inntökuskilyrði í grunndeild matvæla- og ferðagreina.

Umsækjendur skulu hafa lokið grunnskólaprófi eða ígildi þess. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum, þarf umsækjandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þeim greinum. Hafi umsækjandi einkunn undir því viðmiði (C+) getur hann innritast í grunndeild matvæla- og ferðagreina en tekur áfanga á fyrsta þrepi í viðkomandi grein/um.

Inntökuskilyrði í matvælanám (bakstur, framreiðslu, matreiðslu, kjötiðn)

Umsækjendur skulu hafa lokið grunnskólaprófi eða ígildi þess. Til að hefja nám á brautinni þurfa umsækjendur að vera á námssamningi í viðkomandi iðngrein. Til að hefja nám á 2. hæfniþrepi í kjarnagreinum, þarf umsækjandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða lokið fyrsta þreps áfanga í þeim greinum. Hafi umsækjandi einkunn undir því viðmiði getur hann innritast í iðnnám en tekur áfanga á fyrsta þrepi í viðkomandi grein/um.

Inntökuskilyrði á starfsbraut fyrir nemendur á einhverfurófi

Starfsbrautin er ætluð nemendum sem hafa notið verulegrar sérkennslu í grunnskóla, fengið kennslu í námsveri, sérdeild eða sérskóla. Námið er ætlað nemendum sem ekki geta nýtt sér almenn námstilboð framhaldsskóla en þurfa sérhæft einstaklingsmiðað nám er mætir færni þeirra og áhuga.

Úrvinnsla á umsóknum nýnema (grunnskólanemenda)

Menntamálastofnun hefur sett fram töflu sem auðveldar skólum að reikna út stigafjölda fyrir hvern og einn umsækjanda, sbr. mynd hér að neðan.

Þetta er eingöngu gert til að flýta fyrir úrvinnslu umsókna. Athugið að frá og með innritun vorið 2024 verður tvöfalt vægi á einkunnum í íslensku og stærðfræði.

Skólinn innritar 250 nýnema (þ.e. nemendur sem koma beint úr grunnskóla) á hverju hausti. Þar af innritast 166 nemendur á stúdentsprófsbrautir, 36 nemendur á framhaldsskólabrú og 48 nemendur í grunndeild matvæla- og ferðagreina. Af þessum 250 nemendum eru u.þ.b. 90 nemendur teknir inn á afreksíþróttasvið.

Val úr stórum hópi umsækjenda byggir að mestu á samanburði einkunna þar sem þær eru umreiknaðar í stig, sbr. mynd hér að ofan. Umsækjendur með flestu stigin í ensku, íslensku og stærðfræði eru í forgangi.

Dæmi um umsækjanda með einkunnirnar:

  • Enska A = gefur 4 stig = 4
  • Íslenska B+ = gefur 3,75 stig (tvöfalt vægi) = 7,5
  • Stærðfræði B = gefur 3 stig (tvöfalt vægi) = 6
  • Þessi umsækjandi er þá með 17,5 stig

Komi til þess að velja þurfi á milli umsækjenda ganga þeir fyrir:

  1. sem hafa flest stig í Norðurlandamáli, náttúrufræði og samfélagsfræði
  2. sem búa í nærumhverfi skólans

Úrvinnsla á umsóknum á afreksíþróttasvið:

Á hverju hausti eru u.þ.b. 90 nemendur innritaðir á afreksíþróttasvið.

Val á umsækjendum á afreksíþróttasvið byggir á einkunnum sbr. inntökuskilyrði á stúdentsbrautir auk meðmæla frá þjálfara/íþróttafélagi sem staðfesta framúrskarandi árangur í þeirri íþróttagrein sem viðkomandi stundar.

Ef meðmæli vantar er umsókn á afreksíþróttasvið ekki tekin til umfjöllunar. Umsækjandi gæti hins vegar verið tekinn til greina á aðrar námsbrautir.

Síðast uppfært 22. október 2024