Menntaskólanum í Kópavogi var slitið í dag, 28. maí, við hátíðlega athöfn í Digraneskirkju.
Alls voru útskrifaðir 57 stúdentar og 9 með lokapróf í bakstri, 11 í framreiðslu og 22 í matreiðslu.
Í ræðu sinni vakti skólameistari, Guðríður Eldey Arnardóttir, athygli á mikilvægi nýrra laga um háskóla þar sem lokapróf í iðngrein hefur nú jafna stöðu og stúdentsprófið sem inntökuviðmið í nám á háskólastigi. „Þetta þýðir það að standi hugur nemenda að loknum grunnskóla til verknáms getur viðkomandi óhræddur klárað sitt fagnám vitandi það að fagprófið hans gildir til jafns við stúdentsprófið.“
Egill Orri Elvarsson, nýstúdent, og Jakob H. P. Burgel Ingvarsson, bakari, fluttu ávörp fyrir hönd útskriftarnema og veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur. Nisarat Sengthong Bjarnadóttir fékk verðlaun fyrir hæsta meðaleinkunn á lokaprófi í matreiðslu. Sá sérstæði viðburður átti sér stað að Sigurbjörg Erla Pétursdóttir Biering varð dúx skólans með meðaleinkunnina 9,89 og tvíburasystir hennar Guðbjörg Viðja varð semidúx með einkunninna 9,70 en árangur Sigurbjargar er sá besti í sögu skólans.