Gert er ráð fyrir að útskrift frá skólanum verði með eftirfarandi hætti:
Útskrifað verður frá Digraneskirkju kl 14:00 þann 29. maí
A. Verði engar takmarkanir á samkomuhaldi verður útskriftarathöfn með hefðbundnu sniði. Nemendur mæta í skólann kl 12:00 í hefðbundna hópmyndatöku og hefst athöfnin í framhaldinu kl 14:00.
B. Verði enn takmarkanir á stærri samkomum, mæta einungis útskriftarefni til hefðbundinnar athafnar sem verður streymt. Þá geta aðstandendur fylgst með athöfninni beint yfir netið, eða horft á upptökur síðar sama dag. Myndataka fer fram á staðnum við lok athafnar.
C. Verði takmarkanir á samkomuhaldi þrengri en sem nemur fjölda útskriftarnemenda verður athöfnin alfarið send út á netinu kl 14:00 á útskriftardegi. Mættir verða þá einungis lykilstarfsmenn skólans, formaður skólanefndar og nemendur sem hljóta viðurkenningar fyrir námsárangur. Fulltrúar útskriftarnemenda sem halda ræður gera það á staðnum og skólameistari slítur skólanum formlega. Athöfnin verður stutt og henni verður streymt. Með þeim hætti geta útskriftarnemendur og aðstandendur horft á athöfnina í beinni útsendingu. Eða ef betur hentar, horft á upptöku síðar sama dag.
Útskriftarskírteini verði þá tilbúin til afhendingar 26. maí og geti nemendur nálgast þau á skrifstofu skólans fram að útskriftardegi. Nemendur verða hvattir til að setja upp húfu meðal ættingja og vina skv. forskrift vefútsendingar og senda skólanum fallega mynd sem verður hluti af mósaíkmynd útskriftarnemenda vorið 2020.
Ég vona að með þessari ráðstöfun takist okkur að gera þennan stóra dag eins litríkan og eftirminnilegan og hann á skilið að vera. Við vonum það besta, en verði leið C eina færa leiðin þetta vorið reynir á hugmyndaauðgi okkar allra, frumleika og jákvæðni.
Kveðja,
Guðríður Eldey Arnardóttir
Skólameistari Menntaskólans í Kópavogi