Hér má nálgast upplýsingar fréttarinnar í prentvænni útgáfu
Til að fylgja reglum sóttvarnalæknis um fjöldatakmarkanir og fjarlægð á milli fólks er miðað við að nám bóknámsnemenda í Menntaskólanum í Kópavogi fari að mestu fram sem fjarnám með reglulegri staðbundinni kennslu innan veggja skólans.
Enn er unnið að frekari útfærslu þessa skipulags og þá aðallega að því að skipta skólanum upp í sóttvarnarhólf svo skólastarfið geti farið fram innan lögboðinna sóttvarna. Teikning af skólanum og nákvæm útfærsla á hólfaskiptingu mun liggja fyrir á föstudag og þurfa nemendur að velja sér inngang í skólann miðað við þá skiptingu.
Með því að skipta skólanum upp í smærri 100 manna sóttvarnarrými er lokað fyrir flæði á milli nemenda nema rétt á meðan þau færa sig á milli rýma. Það þýðir að sameiginleg rými skólans eru lokuð og einungis er leyft að ganga á milli rýma með tryggða 1 m fjarlægð á milli nemenda. Nemendur mega ekki safnast saman í sameiginleg rými sem verða lokuð.
Mötuneyti skólans verður lokað fyrir nemendur fyrstu vikur haustannar þar til samkomuheimildir verða rýmkaðar.
Nemendum skólans hefur nú verið skipt í tvennt út frá fyrsta staf í fornafni.
Nemendur með nafn sem byrjar á A til og með H tilheyra Hópi A og mæta í fyrstu kennsluviku og áfram allar vikur frá skólabyrjun sem liggja á oddatölu. Nemendur með nafn sem byrjar á I til Ö mæta í viku 2 og áfram þær vikur sem liggja á sléttum tölum. Öndverður hópur verður í fjarnámi á meðan. Þannig mæta allir nemendur í sjálfu sér í allar sínar kennslustundir, annað hvort í staðnámi eða fjarnámi.
Mætingar verða skráðar hjá öllum alltaf – hvort sem nemandinn sækir kennslustund í skólanum eða við tölvuna heima.
Dæmi:
Haraldur Haraldsson tilheyrir hópi A og mætir þá í viku 1 dagana 24. til 28. ágúst
Ingibjörg Ingudóttir er þannig í hópi B og mætir þá í viku 2 dagana 31. ágúst til 4. september
Svona gengur þetta koll af kolli miðað við óbreyttar forsendur.
En nemendur mæta ekki í allar kennslustundir þá viku sem þau geta mætt í skólann. Þau mæta EINUNGIS í tvöföldu tímana í hverjum áfanga. Aðra tíma vikunnar eru þau í fjarnámi sem þau sinna skv. stundatöflu.
Dæmi:
Jón Jónuson mætir í viku 2: 31. ágúst til 4. september (Hann er í Hópi B)
Mætingar hans eru því á eftirfarandi dögum:
Mánudag er hann í tvöföldum tíma í læsi kl 13:00
Þriðjudag er mæting í íslensku kl 8:15 og áfram í jarðfræði kl 10:25, hvort tveggja tvöfaldir tímar.
Miðvikudag er mæting í tvöfaldan tíma í stærðfræði kl 8:15 og svo læsi kl 10:25
Fimmtudag: enginn tvöfaldur tími og því engin mæting í skólann
Föstudag: mæting kl 8:15 í tvöfaldan tíma í dönsku og tvöfaldan tíma í ensku
Þess á milli er nemandinn við tölvu í fjarnámi.
Allt fjarnám fer fram í gegnum Teams og Moodle. Microsoft Teams er hluti af Office 365 pakkanum og notum við Teams til samskipta, bæði fyrir rafrænar kennslustundir og fyrir smáskilaboð.
Nemendur eiga að vera skráðir inn í sinn áfanga á Teams skv. stundatöflu alla daga. Kennarar setja nánar upp fyrirkomulag fjarnámsins innan þessa ramma.
Við leggjum áherslu á að nemendur hafi gott aðgengi að náms- og starfsráðgjöfum skólans og er hægt að panta tíma eða leita til þeirra á eftirfarandi netföngum:
Guðrún Helgadóttir gudrun.helgadottir@mk.is
Ingibjörg Þórdís Þórisdóttir thordis.thorisdottir@mk.is
Helga Lind Hjartardóttir helga.lind.hjartardottir@mk.is
Einning er hægt að senda póst á namsradgjof@mk.is . Sá námsráðgjafi sem er laus mun þá hafa samband.
Námsráðgjafar skólans verða á svæðinu alla daga á meðan skólinn starfar og því geta nemendur ávallt leitað til þeirra en nauðsynlegt er þó að bóka viðtal áður en komið er til að tryggja að ekki safnist nemendur fyrir framan á meðan beðið er eftir að hitta námsráðgjafa.
Bókasafn skólans er opið og geta nemendur komið þangað og leitað gagna, fengið aðstoð eða, ef aðstæður eru þannig heima fyrir, sinnt fjarnámi að hluta eða öllu leyti frá bókasafninu. Við hvetjum nemendur eindregið til að nýta sér þessa þjónustu, með þeim fyrirvörum þó að aðsókn fari ekki upp fyrir samkomuheimild á hverjum tíma. Nemendur verða að skrá sig inn á safnið í afgreiðslu bókasafnsins, þetta er auðvitað til að auðvelda smitrakningu komi til þess að nemandi eða starfsmaður skólans sýkist af covid-19.
Mestu máli skiptir að þið hafið samband við okkur í skólanum ef eitthvað er, við erum boðin og búin að aðstoða.
Það er áríðandi að hafa í huga að þótt skipulag haustannar sé sett upp með þessum hætti núna er það von okkar að úr rætist fyrr en síðar og við fáum frekara rými til að taka á móti fleiri nemendum í skólann í fleiri kennslustundir og helst að skólastarf verði með hefðbundnum hætti.
Það er heldur ekki loku fyrir það skotið að við aðlögum og bætum þessa áætlun okkar ef ástæða er til.
Mestu máli skiptir að undirbúa sig fyrir það versta en vonast eftir því besta.
Kennsla skv. stundaskrá, nemendur mæta í allar kennslustundir.
Fyrsta ár: Mætir í alla verklega tíma (VMAT1IB06) en kennsla í bóknámi fylgir A og B skiptingu bóknáms sbr. hér að ofan.
Annað ár: Mætir í alla verklega tíma en bóklegu áföngunum, hráefnisfræði (HRFM2IB05), aðferðarfræði matreiðslu (AÐFE2IB05) og kalda eldhús (Kald1IB03) verður skipt upp í hópa skv. nánara skipulagi.
Þriðja ár: Mætir í alla verklega tíma en bókleg kennsla í eftirréttum (EFRÉ3IB05) verður hópaskipt skv. A og B reglu þar sem helmingur nemenda er á staðnum og helmingur í fjarnámi viku og viku í senn.
Ef einhverjir nemendur á öðru eða þriðja ári í verknámi eru í almennum greinum (íslensku, ensku, stærðfræði, næringarfræði) fylgja þeir skiptingu bóknáms sbr. hér að ofan.
Nemendur á afrekssviði fá skilaboð frá deildarstjóra afrekssvið um hvernig kennslu á sviðinu verður háttað. Daði Rafnsson deildarstjóri: daði.rafnsson@mk.is
Nýnemar athugið – hópstjóri læsis sendir nánari útfærslu á kennslufyrirkomulagi.
Matartækni/matsveinar: Kennt alla daga skv. stundatöflu
Leiðsöguskólinn: Kennt alla daga skv. stundatöflu
Ferðamálaskólinn: Kennt alla daga skv. stundatöflu
Meistaraskólinn: Áfangastjóri verknáms sendir nánari upplýsingar um hvernig kennslu verði háttað í meistaraskólanum
Starfsbraut: Kennsla á starfsbraut skólans er að mestu leyti með hefðbundnum hætti.
Nemendur fá nánari upplýsingar um hvernig fyrirkomulag íþrótta verður eftir helgina.