Þann 18. júlí síðastliðinn komu raungreinakennarar frá menntaskólann Gymnasium Teplice í Tékklandi í heimsókn til okkar stærðfræðikennara MK. Var þessi heimsókn lokaheimsókn fjórða samstarfsverkefnis þessara tveggja skóla. Samstarfsverkefnið heitir Stafræn hæfni til menntunar eða DCE4.0 - Digital Competences for Education 4.0.
Samstarfsverkefnið er styrkt af sjóðnum Institutional Cooperation Project within the Programme EEA and Norway Grants – EEA Scholarship. Aðalmarkmið sjóðsins er að efla alþjóðasamstarf, en það heyrir undir EEA og Iceland, Lichterstein og Norway Grants.
Helsta markmið heimsóknarinnar, til Íslands, var að ljúka endanlega samvinnu skólanna og kynna verkefnin sem við lögðum fyrir nemendur síðastliðinn vetur ásamt því að fara yfir hvernig til tókst með samstarfið. Við náðum að halda áætlun að mestu, en að sjálfssögðu setti COVID 19 nokkrar hömlur á framkvæmdir eins og að leggja verkefnin fyrir nemendur.
Verkefnið hjá okkur stærðfræðikennurum í MK var skólaþróunarverkefni í kennslu með tilliti til aukinnar áherslu á nútíma tækninotkun. Við bjuggum til raunhæf verkefni fyrir nemendur og lögðum flest verkefnin fyrir á seinustu vorönn. Við unnum kennsluleiðbeiningar fyrir kennara og skrifuðum um hvernig til tókst í kennslunni. Stærðfræðikennarar í MK unnu að því síðasta skólaár að þróa breytt vinnulag í kennslunni. Allir voru kennararnir með snertiskjái í kennslustofunum og nýttu sér stærðfræðiforrit eins og t.d. Excel, GeoGebru og Desmos við kennsluna. Nemendur fengu að nota þessi forrit í námi sínu sem hjálpartæki. Kennararnir lögðu áherslu á virkni nemenda í kennslustundum og nemendur unnu yfirleitt hópavinnu og nýttu sér standandi tússtöflur sem voru í kennslustofunum. Oft unnu þeir 3 saman að lausn verkefna en sú hugmynd er sótt til kennsluaðferðarinnar "Thinking classroom", sem útleggst á íslensku sem Hugsandi skólastofa, og hvetur nemendur til að hjálpast að við leit sína að lausnum verkefna. Hlutverk kennarans er þá að ganga á milli nemenda, hvetja þá og örva í þekkingarleit sinni. Verkefnið heppnaðist vel í alla staði og erum við ánægð og þakklát fyrir að hafa tekið þátt í því.