Samstarfsverkefnið er styrkt af sjóðnum Institutional Cooperation Project within the Programme EEA and Norway Grants – EEA Scholarship. Aðalmarkmið sjóðsins er að efla alþjóðasamstarf, en það heyrir undir EEA og Iceland, Lichterstein og Norway Grants.
Helsta markmið heimsóknarinnar, til Teplice, var að móta endanlega þá samvinnu sem við erum að fara í og ákveða hvaða verkefni við ætlum að vinna. Kennarar skólanna tveggja kynntust vel í þessari verkefnavinnu og fengu stærðfræðikennararnir frá Íslandi að skoða skólann og fylgjast með kennslu í stærðfræði og raungreinum. Tveir þeirra héldu erindi fyrir nemendur skólans og kynntu þeim landið, þjóðina og skólann okkar. Nemendur fengu að smakka alls konar mat og sælgæti frá Íslandi og vakti kynningin mikla ánægju. Næsta vor koma síðan raungreinakennarar frá Gymnasium Teplice í heimsókn til okkar til að ljúka samstarfsverkefninu.
Fyrsta samstarfsverkefni skólanna tveggja (MK og GT) fór fram veturinn 2009 –2010. Var það raungreinatengt verkefni sem skoðaði vistkerfi og hvaða áhrif nútímalifnaðarhættir hafa á umhverfi okkar. Verkefnið fékk nafnið ESEI - Education, Sciences and Environment Interactively. Kennararnir skoðuðu rafmagns- og jarðvarmaorkuver á Íslandi og kolavinnslu- og kjarnorkuver í Tékklandi. Afrakstur þess verkefnis var að kennarar í Teplice settu upp vísindasafn í sínum skóla en við kennararnir hér í MK komum á fót umhverfisviku þar sem fengnir voru vísindamenn frá Háskóla Íslands til að vera með erindi og kynna rannsóknir á afleiðingum hlýnunar jarðar. Unnið var að hugmyndum um að bæta nærumhverfið og komu aðilar frá SORPU til að kynna fyrir nemendum hvað felst í sorpi og hvernig hægt er að flokka sorp. Í dag er umhverfisvika árlegur liður í skólastarfi MK og fer hún ávallt fram í kringum Dag íslenskrar náttúru (16. september). Flokkun sorps er stundað í skólanum og umgengni nemenda og kennara til fyrirmyndar enda hafa erlendir gestir ávallt orð á því hve skólinn er snyrtilegur en allir nemendur og starfsmenn skólans ganga á inniskóm í skólanum.
Annað samstarfsverkefni þessarra tveggja skóla fékk nafnið TIME, Technologies in Modern Education. Verkefnið stóð yfir kennsluárið 2015 – 2016. Markmið þeirrar samvinnu var að búa til verkefni úr ýmsum greinum náttúruvísinda sem hjálpa nemendum að öðlast betri skilning á mismunandi þáttum sem tengjast hagnýtri tækni og vísindum. Lögð var áhersla á notkun heppilegra tölvuforrita í kennslu og voru meðal annars hannaðir námsvefir á netinu fyrir nemendur og eru nú þessir námsvefir t.d. notaðir í kennslu í stærðfræði fyrir nemendur í byrjunaráföngum. Gerð var tilraun með opna kennslustofu þar sem nemendur kynntu land og þjóð fyrir hvort öðrum gegnum skype og fjarkennslubúnað. Kennarar verkefnisins hönnuðu vef þar sem hægt er að skoða verkefni í hinum ýmsu raungreinum og einnig hægt að fræðast um samstarfið milli skólanna, sjá vefsíðu verkefnisins http://time.pro-idea.cz/is/kynning
Verkefnið sem nú er hafið milli skólanna, fjallar um skólaþróun og breytingar í raungreinakennslu með tilliti til aukinnar áherslu á nútíma tækninotkun. Við munum hanna verkefni sem m.a. er ætlað að auka skilning á gróðurhúsaloftslagsbreytingum og hvernig hægt er að fylgjast með breytingum á lands- og loftslagi með hjálp stærðfræðinnar. Kennarar hanna raunhæf verkefni fyrir nemendur sem lögð verða fyrir á næstu vorönn. Jafnframt vinna þeir kennsluleiðbeiningar fyrir kennara og skrifa skýrslu um hvernig til tókst í kennslunni. Stærðfræðikennarar í MK hafa undanfarið ár verið að þróa breytt vinnulag í kennslunni. Þeir hafa allir snertiskjái í kennslustofunum og nýta sér stærðfræðiforrit eins og t.d. Excel, GeoGebru og Desmos við kennsluna. Nemendur fá að nota þessi forrit í námi sínu og eiga að tileinka sér þau sem hjálpartæki. Kennarar leggja áherslu á virkni nemenda í kennslustundum og vinna nemendur yfirleitt hópavinnu standandi og nýta sér tússtöflur sem komið hefur verið upp í stofunum. Þar vinna þeir þrír og þrír saman að lausn verkefna en sú hugmynd er sótt til kennsluaðferðarinnar "Thinking classroom", sem útleggst á íslensku sem Hugsandi skólastofa, og hvetur nemendur til að hjálpast að við leit sína að lausnum. Kennari gengur á milli nemenda, hvetur þá og örvar í þekkingarleit.
Stærðfræðikennarar hlakka til að takast á við verkefnið og horfa fram á spennandi tíma.