Nemendur MK á Njáluslóðum

Það voru vaskir og hressir nemendur úr Menntaskólanum í Kópavogi sem fóru á söguslóðir Njáls sögu þann 8. apríl. Um var að ræða nemendur sem hafa verið að lesa Njáls sögu síðustu vikur og stefnan sett á að skoða helstu sögusvið þessarar mögnuðustu sögu Íslandssögunnar. Þrír kennarar fóru með 47 nemendur og fjótlega tók Soffía íslenskukennari við keflinu og jós úr sínum viskubrunni við mikinn fögnuð rútufarþega.

Í byrjun ferðar var smá súld en þegar yfir heiðina var komið lét sólin sjá sig og fengum við frábært veður alla ferðina. Fyrsta stopp var við Gunnarsstein þar sem Gunnar ásamt bræðrum sínum Kolskeggi og Hirti háðu einn svakalegasta bardaga íslenskra bókmennta fyrr og síðar. Þeir bræður börðust þrír við 30 manna lið Þorgeirs Starkarðssonar. Í bardaganum dóu 14 af liði Þorgeirs en Hjörtur féll.

Þar næst var haldið til torfbæjarins á Keldum en það er eini torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurland og sá elsti. Þar bjó Ingjaldur en hann er bróðir Hróðnýjar sem átti launsoninn Höskuld með Njáli hinum vitra. Á leiðinni upp að Keldum var rifjuð upp sagan af Merði Valgarðssyni á Hofi, Otkeli á Kirkjubæ og Skammkeli sem voru allir miklir óvinir Gunnars á Hlíðarenda. Hér má líkja sögunni við þá Dalton bræður sem voru hver öðrum heimskari og Lukku Láki þeirra mesti óvinur.

Hlíðarendi var næsti viðkomustaður og þar fengu nemendur að kynnast anda Gunnars og af hverju hann sneri aftur. „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“ Var þessi ákvörðun banabiti Gunnars, kappans mikla sem að lokum féll fyrir ofurefli í 77. kafla Njáls sögu.

Að lokum var haldið að Stóra – Dímon og gengu nokkrir nemendur upp hólinn og sáu stórkostleg útsýni til allra átta. Þar kom einnig við sögu hundurinn Bjartur sem heillaði alla upp úr skónum. Sá kauði rölti af næsta bæ og vakti mikla kátínu. Það var hamingjusamur hópur sem hélt heim á leið til Kópavogs og allir tilbúnir í lokaátökin og klára önnina með pompi og prakt!