Mobility for Education about Energy and Ecology

Logo samstarfsskóla

Nemendur í áfanganum Orka3CA (Mobility for Education about Energy and Ecology) hér í MK eru í samstarfi við nemendur í menntaskólanum í Teplice í Tékklandi og nemendur frá Numedal í Noregi. Í lok mars mun hópur frá skólanum í Teplice koma til Íslands og er undirbúningur fyrir heimsóknina í fullum gangi. Nemendur hafa unnið í hópum og aflað upplýsinga og gert kynningar á íslensku og ensku um orkuframleiðslu og orkunotkun hér á Íslandi og einnig munu þau kynna Ísland, náttúruna og menninguna þegar þau heimsækja Tékkland eftir páskana.

Svo nemendur frá skólunum tveimur gætu kynnst betur áður en hópurinn kemur til Íslands var skipulagður Skype fundur þar sem hver og einn kynnti sig í stuttu máli á ensku. Nemendur höfðu undirbúið sig fyrirfram og gekk kynningin að óskum. Hins vegar áttu nemendur MK erfitt með að læra tékknesku nöfnin og sama má segja um tékkana að þeim fannst íslensku nöfnin frekar flókin!