MK í 2. sæti í Stofnun ársins 2024

Val á Stofnun ársins var tilkynnt í gær og lenti Menntaskólinn í Kópavogi í öðru sæti í flokki stórra ríkisstofnana með 90 starfsmenn eða fleiri. Skólinn fékk jafnframt titilinn Fyrirmyndarstofnun 2024.

Stofnun ársins er umfangsmikið verkefni sem Sameyki vinnur í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Reykjavíkurborg og fjölmargar opinberar stofnanir og vinnustaði. Könnunin nær til um 35.000 einstaklinga á opinberum vinnumarkaði og er markmið hennar að varpa ljósi á vinnustaði sem skara fram úr í stjórnun mannauðs og skapa framúrskarandi starfsumhverfi.

„Við erum afar stolt af þessum árangri. Þetta er viðurkenning á því frábæra starfi sem unnið er í MK á hverjum degi,“ segir Guðríður Hrund skólameistari. „Við munum halda áfram að leggja okkur fram um að skapa jákvætt, hvetjandi og metnaðarfullt starfsumhverfi fyrir alla sem starfa í skólanum“.

Menntaskólinn í Kópavogi þakkar öllum starfsmönnum sínum fyrir frábært starf og þetta dýrmæta framlag til skólans og samfélagsins. Þessi viðurkenning er sönnun þess að MK er leiðandi vinnustaður þar sem vel er haldið utan um mannauðinn og starfsfólk finnur fyrir metnaði og virðingu. Hjartað slær svo sannarlega í MK.