Þann 7. janúar gengu nemendur og starfsfólk starfsbrautar fyrir einhverfa nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi fyrstu míluna.
Mílan er verkefni sem heitir The Daily Mile og kemur frá Skotlandi. Um 5000 skólar víðs vegar um heiminn eru þátttakendur í verkefninu. Starfsbrautin í Menntaskólanum í Kópavogi er fyrsta starfsbrautin sem tekur þátt í þessu verkefni. Daglega fara nemendur og starfsfólk brautarinnar og ganga 1,6 km eða því sem nemur einni mílu. Til gamans má geta þess að núna í maí erum nemendur og starfsfólk búin að ganga því sem nemur hálfum hring í kringum landið eða um 700 kílómetra.
Rannsóknir hafa sýnt fram á mikinn ávinning fyrir alla með þessari einföldu leið. Má þar nefna betri líðan, aukið sjálfstraust, betri einbeitingu, betri samskipti, minni streitu og kvíða og aukið úthald og þrautseigja. Auk þess er þetta öflug leið til að bregðast við kyrrsetu og yfirþyngd. Það er til mikils að vinna og við erum nú þegar farin að sjá mikinn árangur efir að hafa farið af stað með þetta verkefni.
Nánari upplýsingar um The Daily Mile má finna á vefnum https://thedailymile.co.uk/