Nemendur afbrotafræði í MK hafa undanfarnar vikur verið að læra um réttarvörslukerfið á Íslandi og þá sem vinna innan þess. Á þriðjudaginn fengu þau heimsókn frá Unnari lögreglumanni sem fræddi þau um starf lögreglumanns sem sinnir útköllum. Unnar ræddi meðal annars um það hvers konar verkefnum lögreglumenn þurfa að sinna, hvaða menntun og kröfur eru gerðar til lögreglumanna og sýndi þeim þann búnað sem lögreglumenn bera í störfum sínum. Nemendur voru mjög áhugasamir um störf lögreglunnar og voru duglegir að spyrja fjölbreyttra spurninga. Á fimmtudag heimsóttu svo nemendur Landsrétt í Kópavogi þar sem þau hittu Áslaugu Björk Ingólfsdóttur og Orra Heimisson aðstoðarmenn dómara. Nemendur fengu fræðslu um Landrétt, meðferð sakamála í dómnum og fengu einnig að skoða stærsta dómsalinn í réttinum.