Framkvæmd lokaprófa

Ágæti nemandi,

Það þarf ekki að taka það fram að það eru skrítnir tímar hjá okkur og ótrúlegar breytingar hafa átt sér stað á stuttum tíma. Við höfum þurft að bregðast við fyrirmælum frá yfirvöldum með mjög skömmum fyrirvara og ótrúlegt hvað skólastarfið hefur gengið að mestu áfallalaust.

Nú liggur fyrir að samkomubann sem miðar við 50 manns í sama rými dugar okkur ekki til að halda úti hefðbundnum lokaprófum og því höldum við fyrri áætlun sem ykkur var kynnt fyrir páska, að öll lokapróf eru rafræn heimapróf og fara fram í Moodle.  Í prófunum þurfa nemendur að hafa aðgang að tölvu og í einhverjum tilvikum snjallsíma til að taka mynd af úrlaunum sínum og senda til kennara. Kennarar einstakra áfanga munu senda nemendum fyrirkomulag lokaprófa þegar nær dregur. Kennarar verða til staðar fyrir nemendur meðan á prófi stendur og tölvuþjónustan verður einnig tiltæk ef eitthvað kemur upp á.

Próftafla vorannar verður hins vegar óbreytt að mestu (sjá heimasíðu MK). Próf munu áfram hefjast fimmtudaginn 7. maí og standa til miðvikudagsins 13. maí og prófatímabilin verða áfram þrjú á hverjum degi, kl. 8:30, 11:00 og 13:30.

Ákveðið hefur verið að bæta einum auka sjúkraprófsdegi við, þannig að þeir verða tveir að þessu sinni. Sá fyrri verður fimmtudaginn 14. maí og þá verða sjúkrapróf í þeim prófum sem fara fram fimmtudag, föstudag og próf kl. 8:30 og 11:00 á mánudag. Seinni sjúkraprófsdagurinn verður föstudaginn 15. maí og þá í prófum sem fara fram mánudag kl. 13:30 og þriðjudag og miðvikudag. Endurtektarpróf verður eftir sem áður mánudaginn 18. maí kl. 8:30.

Eins og alltaf þegar prófum er raðað í próftöflu í áfangaskóla er óhjákvæmilegt að prófin raðist óheppilega þétt fyrir einhverja nemendur og að þeir þurfi jafnvel að taka tvö próf á sama degi og jafnvel á sama tíma. Áfangastjóri bóknáms mun hringja í þá nemendur og þeim verður boðið að færa próf yfir á sjúkraprófsdag. Aðrir nemendur geta eins og áður óskað eftir að færa próf yfir á sjúkraprófsdag með því að senda póst á áfangastjóra á netfangið Helene.pedersen@mk.is.  

Veikindi þurfa nemendur/forráðamenn að tilkynna á skrifstofu skólans áður en próf hefst.

Að lokum hvet ég ykkur til að sinna náminu vel og vera virk á þeim miðlum sem eru notaðir í hverju fagi fyrir sig.

Kveðja góð,

Helene H. Pedersen, áfangastjóri bóknáms