Síðasti kennsludagur annarinnar er miðvikudagurinn 30. apríl. Þann dag hefst kennsla klukkan 10:15 vegna Kópamessu sem er hátíðarmorgunverður útskriftarnemenda og starfsfólks. Lokapróf verða haldin 5. - 9. maí og sjúkrapróf mánudaginn 12. maí. Það er mikilvægt að kynna sér prófareglurnar mjög vel en þær má finna á heimasíðunni. Skrifleg próf eru aðgengileg í lesara (Read Speaker) á Moodle í gegnum LockDown Browser. Nemendur sem vilja nýta sér það þurfa að mæta með tölvu og heyrnartól sem tengjast við tölvuna.
Próftaflan er aðgengileg í INNU og á heimasíðunni. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um fyrirkomulag prófa, sjúkrapróf, forföll og annað sem við biðjum ykkur að skoða vandlega. Athugið að veikindi og forföll á prófdegi þarf að tilkynna samdægurs með símtali á skrifstofuna, ekki er hægt að skrá veikindi í gegnum INNU á prófatímabili. Ekki þarf að skila læknisvottorði en skráning í sjúkrapróf kostar 2.000 kr.
Á próftöflunni kemur einnig fram hvort um rafræn próf (tölvupróf) er að ræða. Nemendur koma með eigin tölvu í próf og þurfa þær að vera í lagi, fullhlaðnar og með LockDown Browser uppsettan. Stærðfræðipróf eru leyst á blaði en nemendur mega nota GeoGebra sem hjálpartæki og koma því með tölvu með sér í þau próf. Einnig þarf að koma með skriffæri og vasareikni.
Á nemendaborðum má vera með skriffæri, strokleður og þau hjálpargögn sem tilgreind eru á forsíðu prófa. Úlpur, símar, snjallúr, pennaveski, töskur og annað sem nemandi má ekki hafa með sér í próf er sett á merkt borð í prófstofu. Við mælum með að nemendur setji verðmæti í skápana sína því skólinn tekur ekki ábyrgð á eigum nemenda.
Einkunnir og námsárangur
Lokað verður fyrir einkunnir í INNU meðan á prófatíma stendur og opnað aftur eftir síðasta próf. Þeir nemendur sem falla í áfanga fara sjálfkrafa í áfangann aftur þ.e. ef hann er kenndur á næstu önn. Nemanda er einungis heimilt að sitja sama áfanga þrisvar. Þrífall getur varðað brottvikningu úr skólanum.
Prófsýning verður í skólanum fimmtudaginn 15. maí frá kl. 11:30 til 12:30. Nemendur eru hvattir til að koma í skólann og skoða sín lokapróf og verkefni. Þar gefst einnig tækifæri til að hitta umsjónarkennara, námsráðgjafa, áfangastjóra eða námsstjóra til að endurskoða val haustannar ef nemendur hafa fallið í áfanga.