Nám og líðan í MK á tímum Covid-19 – Nemendakönnun framkvæmd í nóvember.

Könnun um nám og líðan í MK á tímum Covid-19 var lögð fyrir nemendur okkar aðra vikuna í nóvember. Könnunin var opin í rúma viku á netinu og gátu allir nemendur dagskólans tekið þátt. 368 svör bárust og var svarhlutfallið 38%. Spurningar voru 50 talsins og komu m.a. inn á líðan nemenda, breytt kennslufyrirkomulag vegna covid, virkni í námi og félagslíf. Dreifing eftir kyni og aldri var frekar jöfn en þó var nýnemahópurinn okkar hlutfallslega fjölmennastur af þeim sem tóku þátt.

Niðurstöður voru mun jákvæðari en við áttum von á bæði varðandi líðan nemenda sem og breytt kennslufyrirkomulag vegna covid. Um 67% nemenda sagðist líða mjög vel eða vel og tæp 8% líða illa eða mjög illa. 25% svaraði hvorki vel né illa. Þegar við greinum niðurstöður út frá aldri koma nýnemarnir okkar talsvert betur út en eldri nemendur. Tæp 76% nýnema segjast líða mjög vel eða vel á meðan hlutfallið er einungis um 53% hjá nemendum fæddum 2002. Rúmlega 1% nýnema segjast líða illa en hlutfallið hjá nemendum fæddum 2002 er tæplega 14%. Þessi munur á líðan eftir aldri kemur fram í fleiri spurningum þannig að eldri nemendur virðast vera að kljást við meiri vanlíðan en yngri nemendur vegna covid.

Við sjáum einnig mun á líðan nemenda eftir kyni og virðist stelpur vera að glíma við meiri vanlíðan en strákar vegna ástandsins. Um 46% stúlkna sagðist hafa liðið frekar illa eða illa andlega eftir að covid byrjaði en hlutfallið hjá strákunum er 30%. Ef við skoðum þá sem líður mjög vel er hlutfallið 28% hjá stelpum en 47% hjá strákum. Stelpur eru að skora hærra þegar kemur að streitu, kvíða eða vanlíðan heldur en strákar. Varðandi breytt kennslufyrirkomulag vegna covid eru stelpurnar hins vegar ánægðari en strákarnir og vilja frekar fylgja stundatöflunni í fjarnámi.

Við framkvæmdum þessa könnun til að fá vísbendingar um líðan nemenda á þessum óvissutímum og hvernig best sé að haga kennslufyrirkomulagi vorannar. Svarhlutfall er ekki nægilega hátt til að hægt sé að alhæfa út frá niðurstöðum en gefur okkur samt hugmynd um það sem er í gangi hjá okkar nemendahópi. Við sjáum að okkar niðurstöður ríma ágætlega við það sem er að koma fram í könnunum í öðrum skólum og í samfélaginu almennt. Við þurfum sérstaklega að passa upp á stelpurnar okkar á þessum covid tímum og einnig gefa niðurstöður til kynna að eldri nemendur séu að glíma við meiri vanlíðan en yngri nemendur.