Netöryggiskeppni Íslands, Gagnaglíman, er nú haldin í fimmta sinn sem hluti af samsvarandi árlegum netöryggiskeppnum annarra ríkja Evrópu. Keppnin hefur heppnast vel undanfarin ár og stefnt er að því að senda íslenskt lið í Netöryggiskeppni Evrópu (European Cyber Security Challenge, ECSC) haldin verður í Tórínó, Ítalíu, 8. - 11. október.
Í ár höfum við opnað Hakkaraskólann, sem er æfingarvettvangur þar sem nemendur geta kynnt sér grunnatriði netöryggis. Á þessum æfingarvettvangi leysa nemendur gagnvirk verkefni, sem öll tengjast netöryggi, og mörg hver líkja eftir raunverulegum öryggisgöllum sem upp hafa komið í gegnum tíðina. Verkefnin reyna jafnt á skapandi hugsun sem og rökhugsun, en lögð er sérstök áhersla á að framsetning efnisins sé skemmtileg. Æfingarvettvangurinn er opin öllum, en þeir þáttakendur 25 ára og yngri og hafa náð 1.000 stigum fyrir 11. maí verður boðið að taka þátt í Landskeppni Gagnaglímunnar, sem haldin verður laugardaginn 25. maí. Að landskeppni lokinni verður valið úr hópi þeirra sem stóðu sig best í sérstakan keppnishóp til frekari þjálfunar og stefnt er að því að velja úr þeim hópi 10 manns í landslið Íslands til þátttöku í netöryggiskeppninni á Ítalíu.
Netöryggiskeppnin er haldin að frumkvæði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins en Gagnaglímufélag Íslands sér um framkvæmd keppninnar. Markmið keppninnar er að efla áhuga ungmenna á netöryggi og þeim spennandi möguleikum sem þar er að finna.
Við viljum því fara þess á leit að meðfylgjandi auglýsingu verði dreift til nemenda eða gerð þeim aðgengileg með viðeigandi hætti, t.d. með því að prenta hana og setja á auglýsingatöflu (auglýsingin í PDF-skjalinu er vigruð og á að þola stækkun í prentun án þess að gæði rýrni).
Vefsetur netöryggiskeppninnar í ár (þar sem ítarlegar upplýsingar er að finna):
https://gagnagliman.is
Hægt er að nálgast æfingarvettvanginn hér:
https://skoli.ggc.tf
Kynning á netöryggiskeppninni frá fyrri árum og úrslitum hennar:
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/06/08/Samfelag-og-samskipti-gagnaglimukappa-efld-med-Netoryggiskeppni-Islands-/
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/06/02/Sigurvegarar-kryndir-i-Netoryggiskeppni-Islands-2022/
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/07/06/Verdlaun-afhent-i-Netoryggiskeppni-Islands/
Nánari upplýsingar um netöryggiskeppnina og grunn hennar veitir Gagnaglímufélag Íslands (ggfi@ggfi.is).