Hlutverk og stefnur

STE-001 Saga skólans

Tvö bindi hafa verið gefin út af sögu skólans:
Saga Menntaskólans í Kópavogi 1973-1983, útg. MK 1997
Saga Menntaskólans í Kópavogi 1983-1993, útg. MK 1995

Ágrip af sögu skólans
Menntaskólinn í Kópavogi var settur í fyrsta sinn 22. september 1973 af Ingólfi A. Þorkelssyni, skólameistara. Í fyrstu fór starfsemi skólans fram í viðbyggingu við Kópavogsskóla og voru nemendur alls 125 talsins í sex bekkjardeildum en kennt var eftir bekkjarkerfi. Árið 1982 var kennslukerfinu breytt og tekið upp svokallað kjarnakerfi sem var millileið milli bekkjakerfis og áfangakerfis og MK varð því menntaskóli með fjölbrautarsniði. Haustið 1995 var kennslukerfinu breytt í hreint áfangakerfi.

Menntaskólinn í Kópavogi var til húsa í Kópavogsskóla fyrstu tíu árin en árið 1983 var starfsemi hans flutt í Víghólaskóla. Á vordögum 1991 hófust byggingaframkvæmdir við skólann og var fyrri hluti tekinn í notkun haustið 1993 þ.e. skrifstofuálma og húsnæði fyrir nýtt bókasafn. Þremur árum síðar var risið glæsilegt verknámshús fyrir hótel- og matvælagreinar og hófst kennsla í því haustið 1996. Árið 2002 var tekin sú ákvörðun að rífa norðurálmu skólans og byggja í hennar stað nýtt tveggja hæða bóknámshús með fyrirlestrarsal, auk sérbúinnar kennsluaðstöðu fyrir sérdeild skólans. Á 30 ára afmæli skólans 2003 var ný norðurálma tekin í notkun. Á 40 ára afmæli skólans árið 2013 var nýtt upplýsingatækniver tekið í notkun í austurhúsi skólans þar sem áður hafði verið hátíðarsalur.

Við stofnun Menntaskólans í Kópavogi árið 1973 var gefin út fyrsta skólanámskrá hans, Leiðarvísir 1. útgáfa 1973, en skólanámskrá tekur til allra þátta skólastarfsins og er í senn stefnuskrá skólans og starfsáætlun. Skólanámskrá byggir á Aðalnámskrá framhaldsskóla og greinir frá því með hvaða hætti MK hyggst ná þeim markmiðum sem aðalnámskrá setur framhaldsskólum. Skólanámskrá hefur verið gefin út með reglubundnum hætti síðan. Vegleg útgáfa af skólanámskrá kom út árið 2001 en frá þeim tíma hefur námskráin verið á rafrænu formi og birt á heimasíðu skólans. Árlega gaf skólinn út Kverið með skóla- og prófareglum, starfsmannalista, skóladagatali o.fl. en með tilkomu heimasíðu MK fóru slíkar upplýsingar þangað.

Frá stofnun skólans var lögð áhersla á öfluga kennslu á bóknámsbrautum til stúdentsprófs í félagsgreinum, raungreinum, viðskiptagreinum og tungumálum en frá og með skólaárinu 1982-1983 hófst einnig kennsla í fornámsdeild fyrir þá nemendur sem ekki náðu tilskyldum árangri á grunnskólaprófi. Lögð var áhersla á stuðning í námi og samstarf við foreldra. Allar götur síðan hefur skólinn lagt áherslu á kennslu fyrir breiðan hóp nemenda og með nýrri skólanámskrá haustið 2010 var tilraunakennd ný braut fyrir sama nemendahóp undir nafninu framhaldsskólabraut.

Kennsla hófst í ferðagreinum við MK haustið 1987 og fyrstu leiðsögumennirnir voru útskrifaðir frá skólanum vorið 1992. Kennsla hófst í verknámsdeildum skólans á hótel- og matvælasviði haustið 1996 í glæsilegum kennslurýmum. Boðið var upp á fjórar iðngreinar til lokaprófs og sveinsprófs þ.e. í bakstri, framreiðslu, kjötiðn og matreiðslu. Á sama tíma var einnig boðið upp á brautir fyrir matartækna og matsveina í fyrsta sinn innan skólans. Þá hófst kennsla á almennri braut matvælagreina sem síðar var breytt í grunnnám matvæla- og ferðagreina. Skólinn fékk heimild menntamálaráðherra haustið 1997 til að bjóða nám fyrir iðnsveina til meistararéttinda í matvælagreinum, nánar tiltekið í matreiðslu, framreiðslu, bakaraiðn og kjötiðn. Haustið 2007 hóf skólinn kennslu í hótelstjórnun í samstarfi við hinn virta hótelskóla í Sviss César Ritz. Kennsla stóð yfir til ársins 2013 en námið var skilgreint sem fyrsta árið til BA-háskólagráðu í stjórnun á sviði hótela, veitingahúsa og ferðaþjónustufyrirtækja.

Haustið 1999 hófst kennsla í sérdeild fyrir einhverfa nemendur við skólann en í aðalnámskrá var lögð áhersla á að nemendur með sérþarfir gætu stundað nám við hæfi innan framhaldsskólans. Kennslan fór í fyrstu fram utan skólans en með nýrri kennsluálmu sem tekin var í notkun haustið 2003 fluttist kennslan í sérhannað rými innan skólans.

Með tilkomu námsframboðs í verknámi og bóknámi var merki skólans endurnýjað í þrjár súlur, undir einum hatti, á traustum grunni. Nýtt merki skólans átti að tákna þau þrjú svið sem skólinn starfar á, þ.e. bóknámssvið, ferðamálasvið og hótel- og matvælasvið en skólinn er kjarnaskóli í ferðagreinum og hótel- og matvælagreinum.

Ingólfur A. Þorkelsson lét af störfum sem skólameistari árið 1993 og við af honum tók Margrét Friðriksdóttir, skólameistari. Helgi Kristjánsson aðstoðarskólameistari gegndi starfi skólameistara skólaárið 2004-2005 í námsleyfi Margrétar Friðriksdóttur. Margrét var skólameistari MK til vorsins 2019 þegar núverandi skólameistari tók við, Guðríður Eldey Arnardóttir.

Árið 2001 setti skólinn sér metnaðarfulla stefnu um fartölvuvæðingu og að upplýsingatækni væri notuð sem verkfæri í allri kennslu. Skólaárið 2001-2002 var unnið að uppsetningu á þráðlausu netkerfi í skólahúsnæðinu og öllum nýnemum á bóknámsbrautum var gert að hafa yfir að ráða fartölvu í námi sínu.

Menntaskólanum í Kópavogi hlotnaðist sá heiður að hljóta Jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2007 fyrstur framhaldsskóla. Í framhaldi af viðurkenningunni efndi skólinn til jafnréttisviku á vorönn 2008 undir yfirskriftinni Jafnrétti-mannréttindi. Æ síðan hefur skólinn tileinkað eina viku á vorönn jafnréttismálum með fjölbreyttri dagskrá um málaflokkinn. Þá var skólanum veitt viðurkenning árið 2013 frá umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogsbæjar, vegna „Framlags til umhverfismála“ og var það skólanum hvatning til áframhaldandi starfs á því sviði. Árlega eru haldnir umhverfisdagar í septembermánuði með fjölbreyttri dagskrá um umhverfismál.

Mikill metnaður hefur verið í Menntaskólanum í Kópavogi við vinnu að innra mati og gæðastjórnun og 15. desember 2009 fékk skólinn vottun á gæðastjórnunarkerfi skv. ISO 9001 alþjóðastaðli. Við innleiðinguna þarf skólinn að sýna fram á getu sína til að bjóða kennslu og menntun sem ávallt uppfyllir kröfur laga og reglugerða ásamt væntingum viðskipavina sem eru nemendur okkar. Menntamálaráðuneytið veitti skólanum þróunarstyrk til að fullvinna gæðakerfið en Vottun hf., sem er viðurkenndur úttektaraðili á ISO-gæðakerfum tekur starfið út tvisvar á ári.

Það hefur oft verið þröngt setinn bekkurinn í MK og fór nemendafjöldinn hæst í 1563 árið 2008. Nemendur í MK eru í dag rúmlega 900, sem stunda nám á þremur sviðum þ.e. bóknámssviði, leiðsögn og hótel- og matvælasviði. Menntaskólinn í Kópavogi hefur alla tíð borið gæfu til þess að tapa ekki sjónar á mannauðnum og alltaf hefur starfað við skólann hæfileikaríkt fólk sem sinnir störfum sínum af áhuga og eldmóði.

Frá árinu 2019 hefur afreksíþróttafólki verið boðið upp á sérhæft nám samhliða almennu bóknámi. Afreksíþróttabraut er í formlegu samstarfi við stóru íþróttafélögin í Kópavogi, Breiðablok, Gerplu og HK ásamt formlegu samstarfi við GKG.

Stjórnendur stefna að því að í Menntaskólanum í Kópavogi verði áfram boðið, jöfnum höndum, metnaðarfullt bóknám og verknám og að námsframboð þróist enn frekar á þeim sviðum í takt við þarfir atvinnulífsins og nemenda á hverjum tíma.

STE-002 Stefna MK

Stefna Menntaskólans í Kópavogi er að veita nemendum möguleika til menntunar og þroska á þeirra forsendum í framsæknum skóla. Skólinn kappkostar að bjóða hagnýtt og fjölbreytt nám sem undirbýr nemendur fyrir störf í atvinnulífinu eða frekara nám.

Menntaskólinn í Kópavogi leggur áherslu á þekkingu, þroska, þróun og þátttöku í allri starfsemi skólans með hag nemenda og starfsmanna að leiðarljósi.

STE-003 Hlutverk MK

Þekking – þroski - þróun - þátttaka

Menntaskólinn í Kópavogi starfar samkvæmt lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla undir yfirstjórn menntamálaráðherra. Skipulag yfirstjórnar skólans skv. 1. grein reglugerðar um starfslið og skipulag framhaldsskóla nr. 1100/2007 er skilgreint í skipuriti skólans og skólasamningi menntamálaráðuneytis og Menntaskólans í Kópavogi.

Hlutverk skólans er kennsla til stúdentsprófs á bóknámsbrautum, kennsla á iðn- og verknámsbrautum, einkum í matvælagreinum, og kennsla ferðamálagreina í dagskóla og kvöldskóla, allt með áfanga- og fjölbrautasniði.

Skólinn stuðlar að alhliða þroska nemenda og menntun í samræmi við 2. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla.

Í skólastarfinu skal búa nemendur undir störf og frekara nám, efla færni þeirra í íslensku máli, auka með þeim ábyrgðarkennd og víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi, þjálfa þá í öguðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til stöðugrar þekkingarleitar. Allt starf skólans endurspeglar hina sex grunnþætti náms; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun.

Í skólanámskrá mótar skólinn stefnu sína og markmið skólastarfsins, skipulag skólans og reglur, námsbrautir og áfangalýsingar.

STE-004 Leiðarljós MK

Í Menntaskólanum í Kópavogi er lögð áhersla á þekkingu, þroska, þróun og þátttöku í allri starfsemi skólans með hag nemenda og starfsmanna að leiðarljósi.

Menntaskólinn í Kópavogi er menntaskóli í víðasta skilningi, skóli bóklegra og verklegra mennta. Hlutverk skólans er kennsla til stúdentsprófs á bóknámsbrautum, kennsla á iðn- og verknámsbrautum, einkum í matvælagreinum og kennsla ferðamálagreina í dagskóla og kvöldskóla, allt með áfanga- og fjölbrautasniði.

Leiðarljós menntaskólans í Kópavogi eru:

    • Leiðbeina nemendum af festu án þess að teyma þá.
    • Gefa nemendum sýn til allra átta.
    • Kenna nemendum að hugsa fremur en innræta þeim hvað þeir eigi að hugsa.
    • Vera nemendum til fyrirmyndar um fornar dyggðir, iðjusemi, árvekni og stundvísi.
    • Leggja áherslu á hvort tveggja þekkingu og þróun.
    • Hvetja nemendur til virkrar þátttöku í nær- og fjærsamfélagi.
    • Koma hverjum og einum til nokkurs þroska.

 STE-006 Skólanefnd

Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningum sveitarstjórna og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt, einn tilnefndur af kennarafundi, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði, til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar. Listi yfir skipaða fulltrúa í skólanefnd er birtur á heimasíðu skólans mk.is. Fundargerðir skólanefndar eru birtar á heimasíðu skólans mk.is.

Hlutverk skólanefndar

Hlutverk skólanefndar er skilgreint í 5. grein laga um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Hlutverk skólanefndar er að:

    • marka áherslur í starfi skólans og stuðla að sem bestri þjónustu við íbúa á starfssvæði skólans og tengslum hans við atvinnu-, félags- og menningarlíf,
    • vera skólameistara til samráðs um námsframboð skóla,
    • staðfesta skólanámskrá að fenginni umsögn almenns skólafundar og fylgjast með framkvæmd hennar,
    • veita skólameistara umsögn um árlega starfs- og fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgjast með framkvæmd hennar,
    • vera skólameistara til samráðs um fjárhæð þeirra gjalda sem skólameistari ákveður skv. 45. gr. framhaldsskólalaga og reglurgerðar nr. 614 frá 7. júlí 2009 um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla,
    • vera skólameistara til samráðs um samninga sem viðkomandi skóli gerir,
    • vera skólameistara til samráðs um starfsmannamál,
    • veita ráðherra umsögn um umsækjendur um stöðu skólameistara.

Skólaráð

Skólaráð er kosið við upphaf hvers skólaárs. Í skólaráði sitja tveir fulltrúar kennara, tveir fulltrúar nemenda, skólameistari, aðstoðarskólameistari og áfangastjóri. Skólameistri er oddviti skólaráðs og stýrir fundum þess. Skólameistari boðar til funda. Skólaráð starfar á starfstíma skóla, en heimilt er að kalla það saman á öðrum tíma beri brýna nauðsyn til.

Hlutverk skólaráðs

Skólaráð starfar skv. lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 7. grein. Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Menntamálaráðuneyti er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti.

STE-007 Heilsustefna

Heilsan er þín dýrmætasta eign

Menntaskólinn í Kópavogi er heilsueflandi framhaldsskóli og vinnur samkvæmt markmiðum Landlæknisembættisins. Heilsuefling er sameiginlegt verkefni allra í MK; nemenda, starfsmanna og stjórnenda. Stefna skólans er að bæta heilsu og líðan þeirra sem starfa og nema við skólann. Skólinn mun bjóða upp á vinnuaðstöðu, fræðslu og aðstæður sem auka vitund um gildi bættrar heilsu. Jafnframt er lögð áhersla á að hver og einn geri sér grein fyrir ábyrgð á eigin heilsu. Með heilsustefnu á sviði heilsueflingar og forvarna vill skólinn hafa áhrif á allar daglegar venjur og starf í skólanum og stuðla þannig að betri líðan og auknum árangri í námi og starfi.

Það eru markmið Menntaskólans í Kópavogi að:

  • Bjóða nemendum og starfsmönnum hollan og góðan mat í mötuneyti skólans í samræmi við handbók um mataræði í framhaldsskólum.
  • Stuðla að aukinni neyslu á hollum mat og auknum skilningi á mikilvægi þess að nemendur og starfsmenn tileinki sér hollar matarvenjur.
  • Hvetja til aukinnar hreyfingar meðal nemenda og starfsmanna og að þeir leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni. Efla meðvitund um gildi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu til framtíðar.
  • Hlúa að andlegri heilsu nemenda og starfsmanna í skólastarfinu til að efla góðan starfsanda og stuðla að jákvæðum skólabrag. Vinna með geðorðin 10 í skólastarfinu.
  • Stuðla að aukinni meðvitund um gildi heilsuræktar í sem víðustum skilningi. Leggja áherslu á að nemendum og starfsfólki skólans líði vel í starfi og leik og taki upplýsta ákvörðun um hvaða lífsstíl þeir velja sér.

STE-008 Gæðastefna

Stefna Menntaskólans í Kópavogi í gæðamálum

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 kafla VII mat og eftirlit með gæðum eiga framhaldsskólar að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á. Menntamálaráðuneytið gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd framhaldsskólalaga, aðalnámskrár framhaldsskóla og annarra þátta skólastarfs. Ytri úttekt á framhaldsskóla skal fara fram eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og unnin af óháðum aðilum.

Skv. 40 grein laga eru markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla,
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum

Í Menntaskólanum í Kópavogi er lögð áhersla á þekkingu, þroska, þróun og þátttöku í allri starfsemi skólans með hag nemenda og starfsmanna að leiðarljósi.

Til þess að stuðla sem best að því að markmið laga um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs náist hafa verið innleidd gæðakerfi í MK, starfandi er gæðaráð og gæðastjóri sem ber ábyrgð á þeim umbótaverkefnum sem í gangi eru hverju sinni.

Gæðaráð

Gæðaráð samanstendur af stjórnendum og gæðastjóra. Meðal verkefna gæðaráðs er að sjá til þess að skólastarfinu sé sett stefna og unnið sé eftir verkferlum gæðakerfa.

Gæðastjóri

Við skólann starfar gæðastjóri sjá starfslýsingu STL-008 sem sér um innleiðingu, skipulag, framkvæmd og skjalfestingu í gæðahandbók skólans og viðhald gæðakerfa skólans. Hann skipuleggur innra eftirlit og ytri úttektir og veitir upplýsingar um kerfin.

Gæðakerfi Menntaskólans í Kópavogi

MK styðst við tvö mismunandi gæðakerfi. Annars vegar GÁMES gæðakerfi fyrir hótel- og matvælasvið skólans og hinsvegar ISO 9001 gæðakerfi fyrir alla almenna starfsemi MK og kennslu í dagskóla. Farið hefur fram grunnfræðsla innan skólans um gæðastjórnun og gæðaeftirlit og leitast er við að tengja gæðavinnu og innra mat skólans.

Handbækur

Innan skólans eru notaðar gæðahandbækur annars vegar gæðahandbók ISO 9001 kerfisins sem vistuð er á rafrænu formi á innra neti skólans og gæðahandbók GÁMES-kerfisins.

STE-009 Forvarnarstefna

Forvarnarstarf á að vera hluti af daglegu starfi sérhvers framhaldsskóla. Menntaskólinn í Kópavogi vill stuðla að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri lífssýn nemenda sinna. Hann leggur því ríka áherslu á vímuvarnir með öflugu fræðslustarfi, sem unnið er undir stjórn forvarnarfulltrúa, með dyggum stuðningi allra forráðamanna og kennara skólans.

Forvarnarstefna MK beinist að eftirfarandi atriðum:

  • Að fá nemendur til að taka ábyrga afstöðu og ákvarðanir varðandi lífsstíl.
  • Að fyrirbyggja neyslu skaðlegra vímuefna.
  • Að stuðla að heilbrigðu viðhorfi til eigin lífs.
  • Að vera virk og fyrirbyggjandi.
  • Að vera jákvæð og heilsteypt.
  • Að efla sjálfstraust og sjálfsmynd.

Markmiðið með forvörnum skólans er:

  • að stuðla að heilbrigði og lífsgleði nemenda MK í námi og leik.
  • að efla heilbrigt félagslíf.
  • að stuðla að fræðslu um leiðir til til heilbrigðs lífs.
  • að hafa til taks upplýsingar um forvarnir og meðferð ungs fólks.
  • að hafa gott samstarf við aðila utan og innan skólans.

Í Menntaskólanum í Kópavogi koma námsráðgjafar einnig að forvörnum. Námsráðgjafar hafa skýra verkferla í viðbrögðum við einelti, móttöku nemenda af erlendum uppruna sem og nemenda með heyrnaskerðingu.

 STE-010 Jafnréttisstefna

JAFNRÉTTISSTEFNA MENNTASKÓLANS Í KÓPAVOGI

Menntaskólinn í Kópavogi setur sér eftirfarandi jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008, með áorðnum breytingum; einnig lögum um jafnlaunavottun 56/2017 og meðf. reglugerð.

18. gr. Vinnumarkaður.

  • Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa [25 eða fleiri] 1) starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína.

23. gr. Menntun og skólastarf.

  • Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.
  • Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
  • Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu piltar og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.

28. gr. Bann við mismunun í skólum og á uppeldisstofnunum.

  • Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum er hvers konar mismunun á grundvelli kyns óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.

Menntaskólinn í Kópavogi starfar samkvæmt grunnþáttum menntunar og einn þeirra er jafnrétti.

Skólinn hefur hlotið jafnréttisverðlaun Kópavogs og áhersla er lögð á að standa undir þeirri nafnbót að kallast jafnréttisskóli.

Með jafnréttisstefnu Menntaskólans í Kópavogi vilja stjórnendur skólans stuðla að jafnrétti á öllum sviðum og leggja áherslu á mikilvægi þess að allt starfsfólk fái notið hæfileika sinna til fulls. Halda skal sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllu starfi innan skólans. Í stefnumótun og ákvarðanatöku á öllum sviðum skólans skal unnið með kynjasamþættingu* í huga.

Hvers kyns mismunun sem byggð er á aldri, búsetu, fötlun, kyni, kynhneigð, kynvitund, lífsskoðunum, menningu, stétt, trúarbrögðum eða þjóðerni er óheimil, í hvaða formi sem hún kann að birtast og skal vinna markvisst gegn slíkri mismunun.

Kynbundið ofbeldi eða áreitni** er ekki liðið.

Jafnréttisstefnu Menntaskólans í Kópavogi er fylgt eftir með jafnréttisáætlun.

*Kynjasamþætting snýst um að gæta að hvaða áhrif öll stefnumótun eða ákvarðanataka hefur á konur og karla innan stofnunarinnar.

**Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.

Kynbundin áreitni er hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður.

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun nær til allrar starfsemi skólans. Stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála. Gæðastjóri er sá fulltrúi stjórnenda sem ber ábyrgð á innleiðingu á jafnlaunakerfinu (IST-085:2012). Stjórnendur skuldbinda sig til þess að fylgja lögum sem varða jafnan rétt kynja til launa fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Þeir sjá um að halda uppi stöðugum umbótum sem varða jöfnun á kynbundnum launamun fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf innan hvers stéttarfélags. Ef kynjabundin ójöfnuður launa kemur upp ber að bregðast við því skv. umbótaferlum skólans og fylgja verkferli „Úrbætur áhættugreining“ . Að jafnaði skal þess gætt að óútskýrður kynbundinn launamunur sé ekki meira en 3%.

Jafnréttisnefnd

Innan Menntaskólans í Kópavogi skal starfa jafnréttisnefnd sem er skipuð til tveggja ára í senn. Í jafnréttisnefnd skulu sitja eigi færri en þrír einstaklingar, þar af einn fulltrúi nemenda. Einn meðlima skal leiða nefndina og vera jafnréttisfulltrúi skólans. Jafnréttisnefnd á að hafa það hlutverk að fylgjast með stöðu jafnréttismála í skólanum. Hún ber ábyrgð á að markvisst sé verið að vinna eftir jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun skólans.

Jafnréttisnefnd mótar stefnu og áætlanir skólans í jafnréttismálum. Þegar tímaramma aðgerðaáætlunar er lokið metur nefndin árangur eftir fyrirframgefnum markmiðum í samráði við stjórnendur. Nefndin tekur saman tölur um stöðu kynja í skólanum s.s. kynjahlutfall kennara/starfsfólks og kortleggur hvernig staða jafnréttismála er í skólanum. Niðurstöður eru birtar í ársskýrslu skólans.

Jafnréttisnefnd sér einnig um að endurskoða jafnréttisstefnu og áætlun skólans. Jafnréttisfulltrúi kallar jafnréttisnefnd á fundi. Jafnréttisfulltrúi hefur einnig það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir nemendafélagið og starfsfólk sem leitar til hans.

Menntaskólinn í Kópavogi sem vinnustaður

Þættir sem litið er til eru: ráðningar, ráðningarkjör, starfsaðstæður, starfsframi, verkefni og ábyrgð, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, einelti*** og kynferðisleg áreitni.

***Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda viðkomandi ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Ráðningar

Hafa skal öll kyn í huga þegar störf eru auglýst og leitast við að halda hlutfalli kynjanna eins jöfnu og frekast er unnt. Skal sérstaklega hvetja þau sem tilheyra því kyni sem hallar á til þess að sækja um störf sbr. 26. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Gæta skal jafnréttissjónarmiða til jafns við önnur sjónarmið við ráðningar í skólanum.

Ráðningakjör

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu viðmið við ákvörðun launa vera skýr og öllum ljós. Þess skal gætt að starfsfólki séu greidd rétt laun og að þau njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf. Þetta á einnig við um lífeyri, orlof og veikindarétt.

Við ákvörðun launa er unnið skv. jafnlaunastaðli ÍST-85:2012 sem er grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja í skólanum.

Skólameistari fer yfir ráðningarkjör með starfsfólki í starfsmannaviðtölum.

Starfsaðstæður

Leitast er við að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, s.s. vegna óska um töku fæðingar- og foreldraorlofs eftir því sem starfstími og skipulag kennslu leyfir. Skólastjórnendur hvetji starfsfólk til að nýta sér fæðingarorlof. Eins eru foreldrar hvattir til að skipta með sér heimaveru vegna veikinda barna sinna. Ekki skal líta á það sem mismunun að tekið sé tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar.

Starfsframi, verkefni og ábyrgð

Öll kyn skulu hafa jafna möguleika á starfsframa innan skólans. Gæta skal jafnréttissjónarmiða við skiptingu verkefna og deilingu ábyrgðar meðal starfsfólks. Við skipan í nefndir og ráð skal gæta þess að kynjahlutfall sé sem jafnast sé því viðkomið.

Starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Öll skulu hafa jafna möguleika á að þróa sig áfram í starfi. Gæta skal jafnréttissjónarmiða þegar starfsfólk sækist eftir að bæta sig í starfi.

Einelti og kynferðisleg áreitni

Auka skal fræðslu um einelti, kynbundna- og kynferðislega áreitni til að stuðla að því að allt starfsfólk sé meðvitað um slík málefni og geti greint slík mál og brugðist við þeim. Í verklagsreglu VKL-404 Úrbætur/áhættugreining og á verkefnablaði GAT-008 er lýsing á verklagi við úrvinnslu mála.

Menntaskólinn í Kópavogi sem menntastofnun

Þættir sem litið er til eru; jafnrétti í skólastarfi, fræðsla, einelti og kynferðisleg áreitni.

Jafnrétti í skólastarfi

Nauðsynlegt er að starfsfólk gefi gott fordæmi, að það sé fyrirmyndir og stuðli að jafnrétti í orði og verki. Í skólastofunni er mikilvægt að kennari leggi fyrir fjölbreyttar gerðir verkefna sem höfða til mismunandi nemendahópa. Kennarinn verður að vera meðvitaður um þann fjölbreytileika sem kann að vera til staðar í nemendahópnum og að allir séu virkjaðir í náminu. Hvetja skal nemendur til dáða á sviðum sem eru utan hefðbundinna kynhlutverka.

Skólinn á að vera vettvangur fyrir nemendur til þess að prófa sig áfram á ólíkum sviðum. Í námsgreinum þar sem kynjunum gengur almennt misvel að tileinka sér námsefnið skal markvisst reynt að nota aðferðir og efni til að hvetja alla nemendur til dáða. Kennarar bera ábyrgð á að nota námsefni sem er samið af og fjallar um einstaklinga með fjölbreytilegan bakgrunn og endurspegla fjölbreytileika nemendahópsins. Ekki skal ganga út frá því að allir nemendur séu gagnkynhneigðir eða hafi allir kynvitund sem fellur að tvískiptingunni í karla og konur. Kennarar skulu vera vakandi fyrir því hvort halli á nemendur út frá kyni varðandi framkomu í þeirra garð, s.s. hvort stúlkur og piltar séu spurð álíka oft og þeim kennt af jafnmikilli dýpt og sérhæfingu. Starfsfólk skal reglulega fá fræðslufundi og námskeið sem snerta jafnréttismál.

Í námi, félagsstarfi og framkomu fyrir hönd skólans á öllum vettvangi skal ávallt gæta þess að kynjahlutföll séu sem jöfnust.

Fræðsla fyrir nemendur

Nemendur skulu fá fræðslu um jafnrétti kynjanna. Í þeirri fræðslu skal leggja áherslu á styrkleika, skyldur og réttindi allra nemenda. Hluti af jafnréttisfræðslu skólans á að taka fyrir mismunun byggðri á aldri, búsetu, fötlun, kyni, kynhneigð, kynvitund, lífsskoðunum, menningu, stétt, trúarbrögðum eða þjóðerni. Nemendur fá þjálfun í að vinna gegn hvers konar misrétti.

Fjallað er um jafnrétti í ýmsum áföngum innan skólans en einnig skal öllum nemendum skylt að taka áfanga í kynjafræði.

Einelti og kynferðisleg áreitni

Auka skal fræðslu um einelti, kynbundna- og kynferðislega áreitni til að stuðla að því að allir nemendur séu meðvitaðir um slík málefni og geti greint slík mál og brugðist við þeim.

Telji nemandi að jafnrétti sé brotið eða farið á svig við reglur skólans skal leitað til skólameistara, jafnréttisfulltrúa, námsráðgjafa eða starfsfólks sem finna málinu farveg.

Aðgerðabundin jafnréttisáætlun

Samþykkt af skólameistara Menntaskólans í Kópavogi þann 15. júní 2020

STE-011 Menntastefna

Menntaskólinn í Kópavogi var stofnaður 1973 og er skóli bóklegra og verklegra mennta. Gildi skólans eru þekking, þroski, þróun, þátttaka og allt nám og starf í MK skal taka mið af því. Mikilvægt er að hverjum nemanda verði komið til aukins þroska og honum leiðbeint til skilnings og hæfni. Það er yfirlýst markmið að skólinn haldi forystu sinni varðandi þróun í upplýsingatækni, árangursríkum kennsluháttum og gæðamálum. Kennsla í MK miði alltaf að því að nemandi sé virkur þátttakandi í náminu og að tekið sé mið af sex grunnþáttum menntastefnu aðalnámskrár framhaldsskóla 2012, þ.e. læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, sköpun, heilbrigði og velferð.

Markmið MK er að brautskrá nemendur sem geta tekist á við fjölbreytileg viðfangsefni og hafa tamið sér góð vinnubrögð í námi og starfi. Þeir hafi eflt manngildi sitt, beri virðingu hver fyrir öðrum og geti lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

Kennarar MK gegni lykilhlutverki í þróun og stefnumótun varðandi inntak og uppbyggingu náms, efli áhuga og metnað nemenda sinna og stuðli að trú þeirra á eigin möguleikum og námsgetu. Kennsluhættir og námsmat sé fjölbreytt og í sífelldri endurskoðun og þróun. Kennarar leggi áherslu á fagmennsku og frumkvæði, gagnrýna hugsun og þrautalausnir í námi og kennslu. Þeir geri kröfur til nemenda um aga, virðingu og ástundun en sýni ávallt sanngirni. Efla skal samskiptahæfileika nemenda, félagsfærni og samstarfsgetu, veita þeim tækifæri til forystu og ábyrgðar og svigrúm til sköpunar með fjölbreyttum viðfangsefnum og margvíslegum miðlum. Kennurum MK ber að stuðla að almennu læsi og lífsleikni, heilbrigði og velferð í víðum skilningi og leiðbeina nemendum til jafnréttis, samfélagsvitundar, umhverfisverndar og sjálfbærni.

Nemendur MK geri alltaf sitt besta og leggi rækt við hæfileika sína. Þeir séu virkir í náminu, læri sjálfstæð vinnubrögð, stundi skólann af alúð og áhuga og axli ábyrgð á námi sínu, framkomu og samskiptum. Nemendur geti aflað sér almennrar menntunar á helstu meginsviðum menningar, umhverfis og samfélags og tileinki sér grunnþætti menntstefnu aðalnámskrár. Þeir læri að taka virkan þátt í samfélaginu, vinna með öðrum, fjalla um álitamál og leysa úr ágreiningi, hugsa á gagnrýninn hátt, útskýra og miðla, horfa til framtíðar og láta gott af sér leiða. Nemendur læri að lifa í anda lýðræðis og jafnréttis, stuðla að eigin heilbrigði og velferð og temji sér virðingu fyrir sjálfum sér og samferðamönnum sínum, náttúru landsins og nánasta umhverfi. Þeir hafi trú á eigin getu og hæfileikum til að beita námshæfni sinni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan hátt.

Stjórnendur MK hafi skýra framtíðarsýn varðandi starfsemi skólans sem birt er í skólanámskrá og eiga að vera leiðtogar sem hvetja starfsfólk til dáða. Þeir hafi forystu um farsæla, sanngjarna og faglega stjórnun, gagnsæja ákvarðanatöku, jafnræði og góða nýtingu mannauðsins, efli samstöðu og samvinnu starfsmannahópsins og sýni honum umhyggju. Þeir hvetji kennara til ígrundunar og framfara og styðji þá í að ná markmiðum sínum. Stjórnendur séu aðgengilegir, taki nýjum tækifærum opnum örmum og viðhaldi góðum tengslum við nærumhverfi sitt. Þeir stuðli að góðu samstarfi við forráðamenn nemenda með greiðu upplýsingaflæði. Stjórnendur hafi vakandi auga með árangri skólans, frammistöðu nemenda, mælanlegum viðmiðum og haldi gildum skólans hátt á lofti. Þeir leggi ríka áherslu á að efla skólabrag og skólamenningu MK, skapa nemendum og starfsfólki góða vinnuaðstöðu og aðlaðandi umhverfi og stuðla að velferð þeirra í skólanum.

STE-012 Starfsmannastefna

MK eftirsóknarverður vinnustaður

Starfsmannastefnan er viljayfirlýsing stjórnenda skólans til þess að gera MK að góðum vinnustað þar sem gott og skapandi starf er unnið af áhugasömu, samstilltu, vel menntuðu og ábyrgðarfullu fólki í anda jafnréttis.

Starfsmannastefna skólans miðar að því að tryggja starfsmönnum hans góð starfsskilyrði og aðstæður til þess að dafna í starfi. Stefnt er að því að það þyki eftirsóknarvert að stafa við Menntaskólann í Kópavogi vegna þess skólabrags sem þar ríkir.

Markmiðið með stefnunni er að stuðla að því að Menntaskólinn í Kópavogi gegni hlutverki sínu s.s. kveðið er á um lögum um framhaldsskóla og uppfylli réttmætar væntingar sem gerðar eru til skólans og starfsmanna hans.

Til þess að svo megi verða þarf skólinn að hafa á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem eru tilbúnir til þess að leggja honum til starfskrafta sína og vinna að einhug að þeirri stefnu, sem stjórnendur marka, hvað varðar kennslu, fræðslu og þjónustustarfsemi.

Þeir þurfa einnig að verða tilbúnir til þess að bregðast við síbreytilegum þörfum nemenda og þjóðfélagsins.

Stefnt er að því að allir kennarar skólans séu með kennsluréttindi og aðrir starfsmenn með sérhæfingu á sínu sviði. Allir kennarar og aðrir starfsmenn skólans eru valdir af kostgæfni á þann hátt að menntun þeirra og hæfileikar nýtist markmiðum skólans sem best.

Menntaskólinn í Kópavogi ætlast til þess af starfsmönnum sínum að þeir sýni

  • alúð og góða fyrirmynd í starfi.
  • vilja og hæfni til samstarfs.
  • frumkvæði og sjálfstæði.
  • skilning og ábyrgð.
  • sveigjanleika og aðlögunarhæfni.
  • hver öðrum virðingu og taki ekki þátt í einelti eða kynferðislegri áreitni.

Á sama hátt ætlast starfsmenn skólans til þess að

  • starfslýsingar og skyldur séu skýrar.
  • þeim sé veitt tækifæri til þess að dafna í starfi m.a. með aukinni ábyrgð, endurmenntun og góðum vinnuanda.
  • þeim sé sýnt traust, tillitssemi og hreinskilni.
  • þeir fái að leggja sitt af mörkum til að félagslegt vinnuuhverfi sé gott. Þannig verði ekki liðið að starfsmenn verði fyrir eða taki þátt í einelti og kynferðilega áreitni.
  • þeir fái tækifæri til þess að taka þátt í ákvaðanatöku um málefni sem varða störf þeirra sérstaklega.
  • starfsöryggi þeirra og launamál séu eins trygg og hægt er.
  • gætt sé jafnræðis í launum óháð kyni.

STE-013 Umhverfis- og loftslagsstefna

GÖNGUM HREINT TIL VERKS!

Menntaskólinn í Kópavogi leitast við í öllu starfi sínu að sinna umbótum í umhverfis- og loftlagsmálum.

Stefna skólans er að stuðla að vistvænum lífsstíl nemenda og starfsfólks, með öflugri og reglulegri fræðslu, með góðu fordæmi þegar litið er til orkunotkunar, stuðla að heilbrigðum lífstíl, úrgangslosun, endurnýtingu, endurvinnslu og öðrum aðgerðum sem draga úr kolefnisspori nemenda og starfsfólks.

Þeirri stefnu mun skólinn framfylgja með eftirfarandi markmiðum:

  • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) að lágmarki um 45% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019 með því að samtvinna umhverfis- og loftslagsmál við alla aðra starfsemi skólans.
  • Fylgja lögum og reglugerðum varðandi umhverfismál sem tengjast sérsviði skólans.
  • Tryggja að öryggismál innan skólans séu til fyrirmyndar.
  • Fara eftir alþjóðlegum stöðlum ISO 14000 varðandi umhverfismál.
  • Lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með sjálfbærni að leiðarljósi.
  • Efla komandi kynslóðir með menntun og fræðslu til nemenda og starfsfólks á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Leiðir að markmiðunum:

Innkaup

Við innkaup á vörum skal leitast við að velja þá tegund sem telst ekki skaðleg umhverfinu, þ.e. er umhverfisvæn.

Reynt skal eftir megni að velja vöru sem er merkt með viðurkenndu umhverfismerki, s.s. merki Evrópusambandsins eða norræna umhverfismerkinu (Svaninum), eða sambærilegu.

Ræsting skólahúsnæðis

Ræsting skólahúsnæðis fer fram samkvæmt kröfum GÁMES en þær eru byggðar á reglugerð um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla nr. 522/1994.

Flokkun og endurnýting

Starfsfólk skólans er meðvitað um að náttúruauðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar. Í samræmi við umhverfisstefnu skólans, sem byggir á þeirri sýn að endurnýting sé svarið við þverrandi uppsprettu náttúrulegra hráefna, mun fullkomnu flokkunarkerfi verða komið á.

Pappír – umbúðir

Beint er til starfsfólks að það lesi vel yfir texta á tölvuskjá og prenti skjöl helst ekki út. Þar sem því verður við komið skal reyna að fara yfir verkefni og próf rafrænt og prenta helst ekkert út nema nauðsynleg skjöl. Skulu öll skjöl þá prófarkalesin fyrir útprentun.

Öllum endurvinnanlegum pappír er safnað saman í sérstaklega merkta kassa á ljósritunarherbergjum og hann er endurnýttur eins og kostur er, annars er hann sendur til endurvinnslu.

Öllum dósum og endurvinnanlegum drykkjaumbúðum sem til falla í skólanum er safnað saman á einn stað og þær sendar til Endurvinnslunnar.

Allur pappír og umbúðir merktar skólanum skulu vera úr endurvinnanlegu efni.

Einnota drykkjarmál eru ekki notuð á vegum skólans.

Allt sorp er flokkað (pappír, plast, líffrænt og óflokkað (úrgangur til urðunar)) eða endurunnið og er reynt að draga úr efnis- og orkunotkun.

Matarsóun

Allra leiða skal leitað til að draga úr matarsóun. Kennarar og nemendur skólans skuli setja áætlun í upphafi kennslu verklegra áfanga þar sem unnið er með hráefni og hafa að markmiði að henda ekki matvælum og nýta að fullu.

Í mötuneyti nemenda vigta nemendur matinn sinn og greiða fyrir samkvæmt vigt.

Vélar – orkunýting

Í lok hvers starfsdags skal gengið úr skugga um að slökkt hafi verið á öllum ljósritunarvélum, prenturum og öðrum slíkum tækjum. Líta ber til orkunotkunar í sambandi við tölvur og hafa í huga við innkaup að velja þær sem nota lágmarksorku í hvíld, þ.e. 35 wött. Leitast skal við að nota orkusparandi rafmagnstæki og ljós eins og kostur er.

Alla lýsingu skólans skal færa yfir í led-perur og skal liggja fyrir áætlun um þá endurnýjun í samráði við Fasteignir ríkisins.

Vinnuaðstaða

Vinnuaðstaða starfsfólks skal vera eins góð og hægt er og gengið úr skugga um að lýsing sé innan réttra marka.

Húsakynni og lóð

Lögð er áhersla á að umgengi á lóð og um húsakynni skólans sé til fyrirmyndar. Sjá skólareglur. Sumarið 2022 skal setja upp skýli fyrir reiðhjól og hlaupahjól á lóð skólans og um leið hverja starfsfólk og nemendur til að nýta sér þá samgöngumáta.

Öryggismál

Kennsla í öryggismálum fer fram í öllum verklegum áföngum skólans. Auk þess eru haldnar tilskildar öryggisæfingar s.s. brunaæfingar samkvæmt lögum og reglugerðum. Í skólanum er öryggistrúnaðarráð.

Fræðsla

Menntaskólinn í Kópavogi leggur áherslu á að umhverfis- og loftslagsmál séu eitt af megin markmiðunum í námskrá skólans. Umhverfisfræði er skyldugrein fyrir alla nemendur í bæði bóknámi og verknámi, og er mikilvægi þess að virða umhverfið og ganga vel um náttúruna skyldi dregið fram í sem flestum áföngum skólans.

Lögð er áhersla á að samtvinna fræðslu og aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum, bæði innan og utan skólans, til að auka líkur á að allar ákvarðanir teknar séu með sjálfbærni í huga.

Umhverfistengd verkefni

Á hverri önn verður unnið sérstaklega að umhverfis- og loftslagsmálum. Að auki fer fram sérleg úttekt á umhverfi skólans, bæði innan- og utanhúss og gerðar mælanlegar rannsóknir á stöðunni frá önn til annar. Það skal einnig unnið með grænt bókhald og fylgt stefnu um græn skref í ríkisrekstri.

Gildissvið

Umhverfis- og loftslagsstefnu skólans er fylgt eftir með þriggja ára aðgerðaráætlun sem skal endurskoða árlega. Umhverfisstefnan skal ná til allra eininga skólans. Skólameistari er ábyrgur fyrir því að þessari stefnu sé framfylgt og ber öllum starfsmönnum skólans að framfylgja þeirri stefnu í sínu starfi.

Framtíðarsýn

Það er stefna skólans að vera í forystu í umhverfismálum, viðhafa vistvænan lífsstíll og fræða nemendur og starfsfólk um umhverfismál. Aðgerðir skólans munu ávallt taka mið af þeim lögum og reglum sem eiga við á hverjum tíma sem og stefnu stjórnvalda á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Markmið skólans er að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í allri starfsemi sinni og minnka þannig neikvæð áhrif á umhverfið. Skólinn mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að bjóða upp á skýli fyrir hlaupahjól og reiðhjól með hleðslumöguleika fyrir rafmagnshjól. Skólinn mun draga úr losun úrgangs með því að nota markvissa flokkun, með minni sóun og markvissari endurnýtingu. Með nýju mötuneyti skólans og samvinnu við rekstraraðila mötuneytis verður unnt að draga úr matarsóun og lágmarka kolefnisspor. Einnig mun skólinn draga úr orkunotkun með markvissum orkusparnaðaraðgerðum, nota orkusparandi ljósaperur og ljósastýringar. Skólinn mun kolefnisjafna ferðir sínar á vegum skólans og stefnir að því að ná fram kolefnishlutleysi fyrir árið 2030 og þar með stuðla að því að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð.

Í skólanum er lögð áhersla á að fræðsla í umhverfis- og loftslagsmálum sé hluti af kjarnastarfsemi skólans og með þessari fræðslu verður mikilvægi loftslags- og umhverfismála miðlað áfram til komandi kynslóða. Hugarfarsbreyting tengd sjálfbærni og grænum lífstíl er nauðsynleg og skólinn mun leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

Eftirfylgni:

Menntaskólinn í Kópavogi hefur haldið grænt bókhald frá árinu 2019 þar sem helstu umhverfisþættir starfseminnar eru teknir saman. Niðurstöður þess bókhalds eru notaðar til að móta umhverfisstefnu skólans og sem grundvöllur að aðgerðaráætlun skólans til þriggja ára í senn. Umhverfisnefnd skólans hefur það hlutverk að rýna umhverfismarkmið skólans árlega, uppfæra eftir þörfum og vera umhverfisfulltrúa til fulltingis um eftirlit með framgangi umhverfis- og loftslagsstefnu skólans.

Allir starfsmenn og nemendur skólans skulu í hvívetna fylgja stefnu skólans í umhverfis- og loftslagsmálum.

Lög og reglur

  • Umhverfis- og loftslagsstefna Menntaskólans í Kópavogi styður stefnu skólans og gildandi lög og reglugerðir hverju sinni.
  • Lög nr. 70/2012 ásamt síðari breytingum (Lög um loftslagsmál)
  • Lög nr. 98/2020 (Lög um breytingu á lögum nr. 70/2012)
  • Lög nr. 55/2002 (Lög um meðhöndlun úrgangs)
  • Upplýsingalög, nr. 140/2012
  • Efnalög, nr. 61/2013
  • Lög nr.92/2008 (Lög um framhaldsskóla)
  • Aðalnámskrá framhaldsskóla
  • Reglugerð um fráveitur og skolp nr. 798/1999 ásamt breytingum í reglugerð 450/2009
  • Reglugerð um meðhöndlun úrgangs nr. 737/2003 ásamt áorðnum breytingum.
  • Parísarsamkomulagið.

STE-014 Vinnuverndarstefna

Starfsöryggi fyrir alla

Stjórnendur Menntaskólans í Kópavogi leitast við að stuðla að starfsöryggi allra sem í skólanum starfa. Þeir vilja tryggja að húsnæði skólans, búnaður og umhverfi fullnægi kröfum og fyrirmælum laga og reglna um öryggi, heilnæmi og vinnuvernd. Í því sambandi líta stjórnendur einkum til eftirfarandi þátta:

Umhverfi sé bjart, rúmgott með réttu hita- og rakastigi. Hávaða- og loftmengun lítil og búnaður, s.s. stólar og borð af réttri stærð.

Í Menntaskólanum í Kópavogi er starfrækt öryggisnefnd skv. lögum nr. 46/1980.

Nefndin er skipuð fjórum fulltrúum. Aðstoðarskólameistari er formaður nefndarinnar, áfangastjóri verknáms og tveir starfsmenn kosnir á skólafundi til tveggja ára í senn. Umsjónarmaður fasteigna er starfsmaður nefndarinnar.

Öryggisnefnd heldur gerðarbók samkvæmt ákvæði reglugerðar nr. 920 frá 2006.

Gerðabók

Öryggisnefnd skal halda gerðabók. Til bókar skal færa þau atriði sem tekin eru upp í nefndinni svo og allar ákvarðanir.

Starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins skal heimill aðgangur að gerðabókum öryggisnefnda en þeir eru bundnir þagnarskyldu skv. 83. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

Annar fulltrúi kennara er ritari nefndarinnar.

Hlutverk öryggisnefndar er að skipuleggja og hafa eftirlit með úrbótum varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Í því felst að starfsumhverfi sé með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Öryggisnefnd starfar í samráði við Vinnueftirlit ríkisins og skal ágreiningsmálum vísað þangað til umsagnar.

Starfsmaður sem verður var við ágalla eða vanbúnað, sem leitt gæti til skerts öryggis, lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta, sem hann getur ekki sjálfur bætt úr, skal umsvifalaust tilkynna það öryggisnefnd.

STE-015 Siðareglur

Sérhver starfsmaður Menntaskólans í Kópavogi

  • Rækir starf sitt án manngreinarálits og leitast við að byggja upp gagnkvæmt traust.
  • Gætir fyllsta trúnaðar um persónuleg málefni starfsmanna og nemenda, sem hann verður áskynja um í starfi sínu og geta haft neikvæð áhrif á viðkomandi einstakling með umfjöllun.
  • Virðir hæfni, ábyrgð og skyldur annarra starfsmanna og treystir fag- og verkþekkingu þeirra
  • Forðast með óviðeigandi hátterni eða orðavali að lítillækka annan starfsmann eða nemanda eða áreita á hvern þann hátt sem honum er mótfallið.

Sáttmáli um samskipti

  • Sýnum traust og trúnað og verum traustsins verð
  • Hlustum á skoðanir og virðum tilfinningar annarra
  • Hrósum hvert öðru
  • Sýnum hvert öðru kurteisi og virðingu
  • Sýnum jákvæðni í framkomu og samskiptum
  • Tökum ábyrgð á eigin orðum og gjörðum og gerum ráð fyrir því sama frá öðrum
  • Tökum ekki þátt í einelti, þöggun eða fýlustjórnun
  • Sýnum gott og vinalegt viðmót með því að bjóða góðan daginn, heilsa, kveðja og þakka fyrir
  • Sýnum hvert öðru tillitssemi, umburðarlyndi og nærgætni
  • Setjum gagnrýni og ábendingar fram á uppbyggilegan hátt

Í öllu starfi sínu vilja stjórnendur Menntaskólans í Kópavogi stefna að góðum og nútímalegum stjórnunarháttum. Þeir leitast við að hafa samráð við starfsfólk um málefni vinnustaðarins er það varðar og beita sér fyrir virku upplýsingastreymi. Ábyrgð og vald stjórnenda gagnvart starfsmönnum skal vera vel skilgreint og starfsmönnum ljóst.

STE-016 Upplýsingatæknistefna

Stefna Menntaskólans í Kópavogi í upplýsingatækni 2019-2021

Markmið Menntaskólans í Kópavogi er að nýta upplýsingatæknina sem verkfæri í starfi skólans til að þróa framsækna kennsluhætti og námsaðferðir og efla þannig nám og kennslu. Skólinn leggur áherslu á að allir nemendur fái tækifæri til að tileinka sér nauðsynlega tölvufærni og upplýsingalæsi til að afla sér upplýsinga, þekkingar og getu til að vinna úr upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Færni í notkun tölva og meðferð upplýsinga er sjálfsögð krafa á vinnumarkaðnum og Menntaskólinn í Kópavogi vill undirbúa nemendur sína til starfa í alþjóðlegu þekkingar- og upplýsingasamfélagi framtíðarinnar. Menntaskólinn í Kópavogi vill sýna frumkvæði og forystu um nýtingu upplýsingatækni til að stuðla að bættum árangri, betra námi og kennslu, betri þjónustu og aukinni skilvirkni.

Menntaskólinn í Kópavogi tekur mið af stefnu menntamálaráðuneytisins „Áræði með ábyrgð“, um upplýsingatækni í menntun, menningu og vísindum, stefnu ríkisstjórnarinnar „Netríkið Ísland“ um upplýsingasamfélagið 2008-2012.

LEIÐIR

Námsumhverfi

  • Menntaskólinn í Kópavogi vill stuðla að því að allir nemendur skólans hafi tölvufærni og upplýsingalæsi þannig að þeir geti nýtt sér upplýsingatækni í daglegu námi sínu.
  • Skólinn leggur áherslu á að kennarar búi yfir færni til að nýta sér upplýsingatækni í starfi sínu. Til að mæta hraðri þróun tækninnar verður kennurum í MK áfram tryggð þjálfun, ráðgjöf og stuðningur við að tileinka sér nýjungar í hugbúnaði og tölvutækni, m.a. með námskeiðum, vinnustofum og þjónustuveri.
  • Skólinn býður nemendum og kennurum upp á rafrænt námsstjórnunarkerfi þar sem allar upplýsingar eru aðgengilegar.
  • Lögð verður áhersla á kennslufræði tölvustudds náms, s.s. með áherslu á verkefnamiðað nám með rafrænum skilum, bæði einstaklings- og hópverkefni, lausnaleit á netinu, sjálfstæð og öguð vinnubrögð t.d. í ritvinnslu, gagnrýna þekkingaröflun nemenda á netinu og aukna samvinnu.
  • Stefnt skal að því að allt kennsluefni þar með talið útgefnar kennslubækur verði á rafrænu formi eins og kostur er. Nemendum stendur til boða fjölbreytilegt úrval námsefnis og verkefna á rafrænu formi sem hægt er að sníða að námsframvindu, getu og áhuga hvers og eins.
  • Stefnt skal að sem minnstri pappírsnotkun innan skólans og áhersla lögð á að verkefni og námsefni sé á rafrænu formi.
  • Lögð verði áhersla á að nýta upplýsingatækni við námsmat og gætt verði að fjölbreytileika í rafrænu námsmati og samtengingu við viðurkennda próffræði.

Þjónusta

  • Skólinn leggur áherslu á öfluga kerfisstjórn og að bjóða á hverjum tíma fljótvirka og örugga tækniþjónustu fyrir starfsmenn og nemendur.
  • Skólinn nýtir sameiginlegt nemendaskráningarkerfi INNU, heldur úti heimasíðu og miðlar upplýsingum til nemenda, foreldra og starfsmanna.
  • Skólinn nýtir skýjalausnir við þjónustu eins og t.d. Microsoft OneDrive og einnig er tölvupóstur starfsmanna hýstur hjá Microsoft. Sami möguleiki stendur einnig öllum nemendum til boða.

Tæki og hugbúnaður

  • Skólinn mun leitast við að hafa vél- og hugbúnað af bestu gerð á hverjum tíma þannig að ætíð sé hægt að nýta fullkomnustu tækni við kennslu og miðlun upplýsinga.
  • Skólinn vill nýta sér þau tækifæri sem upplýsingatæknin býður upp á, leggur áherslu á að allir nemendur hafi yfir fartölvu að ráða og nýti hana í öllum námsgreinum.
  • Skólinn býður nemendum og kennurum upp á rafrænt námsstjórnunarkerfi sem er notað í öllum kenndum áföngum í MK.
  • Skólinn nýtir sameiginlegan gagnagrunn framhaldsskóla, upplýsingakerfið INNU, til nemendaskráningar.
  • Skólinn mun leitast við að tryggja nemendum og starfsmönnum öruggan og fljótvirkan aðgang að gagnasvæðum og samskiptamiðlum með öflugu háhraðaneti og þráðlausu netkerfi.
  • Skólinn vill tryggja að hugbúnaður sé ætíð valinn með það að markmiði að þjóna nemendum og starfsmönnum á fljótvirkan og öruggan máta. Jafnframt að hugbúnaður sé fjölbreyttur og svari þörfum mismunandi nemendahópa
  • Skólinn mun hafa til taks fartölvur til láns í kennslustofur til að mæta þörfum einstakra nemenda sem vegna sérstakra aðstæðna hafa ekki fartölvu. Ennfremur hafa nemendur aðgang að borðtölvum á bókasafni.
  • Skólinn vill nýta sér þá möguleika og þau tækifærir sem felast í vistun gagna í skýinu þ.e. hjá hýsingaraðila eins og Microsoft. Eins vill skólinn nýta sér hugbúnað sem veittur er í té af aðilum sem bjóða skýjalausnir.

Ábyrgð og öryggi

  • Skólinn vill stuðla að því að nemendur noti tölvutæknina og netið á ábyrgan og öruggan hátt og hindra misnotkun, m.a. með því að loka fyrir aðgengi að ólöglegu og óæskilegu efni á netinu.
  • Skólinn vill tryggja nemendum og starfsmönnum öryggi í miðlun upplýsinga og notkun samskiptatækni, auk þess að gæta fyllsta öryggis hvað varðar varðveislu gagna og búnaðar.

Nýsköpun og árangur

  • Skólinn leggur áherslu á virkt nýsköpunarstarf og tilraunir með nýtingu tækni- og tölvustýrðs búnaðar í verknámi og verklegum áföngum raungreina.
  • Skólinn vill þróa starfshætti sína og kanna ávallt nýjar leiðir í námi og kennslu með aðstoð tölvutækni, m.a. með fjarnámi og dreifnámi þar sem samskipti fara fram í gegnum netið.
  • Skólinn vill kynna nýjustu tækni og möguleika í framsetningu á rafrænu námsefni og rafrænum kennslubókum.
  • Skólinn vinnur markvisst að því að meta notkun og árangur af nýtingu upplýsingatækninnar í skólastarfinu.

STE-018 Starfsáætlun

Í reglugerð um starfstíma nemenda í framhaldsskólum frá mars 2017 kemur fram að kennslu- og námsmatsdagar séu eigi færri en 180. Starfstíminn skiptist í tvær sem næst jafnlangar annir, haustönn og vorönn.

Skólameistari ákveður að höfðu samráði við skólaráð og almennan kennarafund upphaf og lok skólastarfs ár hvert á bilinu 18. ágúst til 31. maí. Hann leggur fram skóladagatal næsta skólaárs í lok hvers skólaárs. Skóladagatalið er birt á heimasíðu skólans www.mk.is.

STE-019 Meðferð mála

Leitast skal við að leysa ágreiningsmál innan skólans. Miðað skal við að umsjónarkennarar og námsráðgjafar séu hafðir með í ráðum við lausn ágreiningsmála sem varða skjólstæðinga þeirra. Ágreiningsmálum sem varða einstaka nemendur og ekki leysast í samskiptum einstaklinga skal vísa til skólaráðs. Veita skal nemendum skriflega áminningu áður en til refsingar kemur nema brotið sé þess eðlis að því verði ekki við komið, svo sem brot á almennum hegningarlögum.

Rísi ágreiningur milli nemenda, kennara og/eða annarra starfsmanna skólans og takist hlutaðeigandi ekki að finna lausn á málinu skal því vísað til skólameistara. Uni málsaðilar ekki niðurstöðum skólameistara má vísa málinu til menntamálaráðuneytis. Telji nemandi eða forráðamenn hans, sé nemandinn yngri en 18 ára, að brotið hafi verið á rétti nemandans, sbr. skólareglur, þannig að ástæða sé til að bera fram kvörtun skulu þeir snúa sér til viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða skólameistara.

Nemandi sem staðinn er að misferli í prófi skal vísa frá prófi og getur hann átt von á brottvikningu úr skóla, tímabundið eða til frambúðar, eftir alvarleika brots. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi. Komi upp ágreiningur milli nemenda og kennara um mat úrlausnar sem ekki tekst að leysa innan skólans skal skólameistari kveða til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina að höfðu samráði við fagstjóra. Úrskurður prófdómara skal gilda.

Á grundvelli reglna um skólasókn er hægt að vísa nemanda úr skóla vegna lélegrar skólasóknar og skal hann þá áður hafa fengið skriflega viðvörun frá viðkomandi umsjónarkennara eða stjórnanda enda hafi verið ljóst að í óefni stefndi. Endanleg brottvikning er á ábyrgð skólameistra og skal hann leita umsagnar skólaráðs áður en til hennar kemur.

STE-020 Stjórnunarhættir

Menntaskólinn í Kópavogi starfar skv. lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla undir yfirstjórn menntamálaráðherra. Skipulag yfirstjórnar skólans er skv. 3. og 6. grein laga um framhaldsskóla og er skilgreint í skólasamningi menntamálaráðuneytis og Menntaskólans í Kópavogi.

Skólameistari veitir skólanum forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi Menntaskólans í Kópavogi og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á að fylgt sé fjárhagsáætlun skólans og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans. Skólameistari skipar staðgengill sinn. Yfirstjórn skólans skipa: Skólameistari, aðstoðarskólameistari, áfangastjóri, skrifstofustjóri og framkvæmdarstjóri Hótel og matvælaskóla Íslands. Stjórn skólans skiptir með sér verkum sbr. skipurit skólans, STE-005.

Stjórnendur ásamt kennslustjóra skipa framkvæmdastjórn skólans; en framkvæmdastjórn ásamt gæðastjóra skipa gæðaráð skólans. Framkvæmdastjórn fundar vikulega um einstök málefni skólans og vilja með því tryggja að stjórnun og stjórnunarákvarðanir verði markvissar og gagnsæjar. Stjórnendur Menntaskólans í Kópavogi vilja í öllu sínu starfi stefna að góðum og nútíma stjórnunarháttum. Þeir leitast við að hafa samráð við starfsfólk um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir virku upplýsingastreymi. Ábyrgð og vald stjórnenda gagnvart starfsmönnum skal vera vel skilgreint og starfsmönnum ljóst.

Menntamálaráðherra skiptar skólanefnd við skólann til fjögurra ára í senn. Skólameistari er framkvæmdastjóri nefndarinnar. Skólanefnd markar áherslur í starfi skólans og er skólameistara til samráðs í samræmi við 5.gr. laga 92/2008.

Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað fulltrúum kennara og nemenda, svo og aðstoðarskólameistra og áfangastjóra í samræmi við 7.gr. laga 92/2008.

STE-021 Innkaupastefna

Hagkvæmni, gæði og gegnsæi

Almenn skilyrði fyrir viðskiptum við Menntaskólann í Kópavogi eru að birgjar/viðskiptamenn séu skilvirkir, hagkvæmir og traustir.

Við stærri innkaup (t.d. á stórtækjum eða tölvum) skal Innkaupadeild viðhafa útboð og leita tilboða til a.m.k. þriðja birgja/framleiðanda/þjónustuaðila, eða gera verðkönnun. Mat á tilboðum/verðkönnun er gert í samráði við skólameistara. Öll innkaup og samskipti við birgja/viðskiptamenn eru í samræmi við verkferla á vottuðu gæðakerfi ISO 9001.

Menntaskólinn í Kópavogi leitast við að gera öll sín innkaup á grundvelli rammasamninga um opinber innkaup sem Ríkiskaup gera.

Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þá tegund sem telst síður skaðleg umhverfinu.

Menntaskólinn í Kópavogi starfar í samræmi við umhverfis- og gæðamarkmið HACCP.

Skipulag og umhverfi innkaupa við Menntaskóla Kópavogs, frá greindri þörf til móttöku á vöru, skal vera rafrænt eins og kostur er.

Til grundvallar öllum reglulegum innkaupum á vöru og þjónustu liggja gátlistar ISO 9001, GAT-011 Birgjamatsyfirlit og GAT-071 Þjónustusamningar. Þessir listar eru yfirfarnir af Innkaupastjóra og Skólameistara einu sinni á ári og skal þá leggja mat á frammistöðu viðkomandi birgis/þjónustuaðila.

Að öðru leyti skal haga innkaupum í samræmi við Innkaupastefnu ríkissins.

STE-022 Alþjóðastefna

Ný menntastefna byggir á sex grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og sköpun. Hugmyndir að baki grunnþáttum eiga að endurspeglast í starfsháttum skólans og samskiptum hans við aðila utan hans. Mikilvirk leið til að virkja ákvæði um grunnþætti í skólastarfi eru ýmis samstarfsverkefni við innlenda sem erlenda aðila. Alla þessa þætti má nýta til að virkja félagsleg og menningarleg tengsl nemenda og kennara við samfélög nær og fjær. Sérstaða skólans á sviði ferðagreina og hótel- og matvælagreina auk bóklegs náms til stúdentspróf gerir það að verkum að alþjóðleg tengsl hafa verið og verða áfram að vera driffjöður í eðlilegri þróun fagnámsins. Þar sem lítið er um tækifæri innanlands til samvinnu og sameiginlegrar þróunar á sérsviðum skólans er alþjóðasamstarf á þeim vettvangi nauðsynlegt til framþróunar.

Markmið

Menntaskólinn í Kópavogi leggur áherslu á að

  • Taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi.
  • Styðja nemendur og starfsfólk til þátttöku í fjölþjóðlegum verkefnum.
  • Byggja upp samstarf við erlenda skóla, einkum innan Evrópu.
  • Efla kynningu á erlendum verkefnum.
  • Kynna skólann á alþjóðlegum vettvangi.

Leiðir

  • Hafa alþjóðafulltrúa starfandi innan skólans.
  • Hvetja starfsfólk og nemendur til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og opna þeim leiðir til þess.
  • Halda reglulegar kynningar á þeim erlendu verkefnum sem unnin hafa verið/eru yfirstandandi innan skólans. Einnig kynna sjóði sem leita má til og möguleika á erlendu samstarfi fyrir starfsfólk skólans.
  • Sækja um styrki til erlendra samskipta eftir áhugasviði starfsfólks, sérsviðum skólans og alþjóðastefnu skólans og markmiðum starfsmenntasviða varðandi starfsnám.
  • Styrkja erlent tengslanet skólans, m.a. með því að auka þátt fagstjóra/kennara einstakra sviða í móttöku erlendra gesta.
  • Meta alþjóðastarf nemenda til eininga. Tengja starfsnám erlendis við ferilbækur iðnnema.

STE-023 Fjölmenningarstefna

Í Menntaskólanum í Kópavogi njóta allir jafnrar virðingar óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, trú, stjórnmálaskoðunum, ætterni, fötlun eða félagslegri stöðu.

Kappkostað er að koma til móts við þarfir nemenda af erlendum uppruna með íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og menningu, aðstoð við heimanám, jafningjastuðningi og öðrum þeim ráðum sem að gagni mega koma til þess að þeim gangi sem best í náminu.

Lögð er áhersla á að styrkur fjölmenningar verði nýttur til góðs fyrir skólasamfélagið.

STE-025 Eineltis- og áreitnistefna

Það er stefna Menntaskólans í Kópavogi að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verða undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum. Í þessari stefnu er orðið áreitni notað yfir kynbundna, kynferðislega og aðra áreitni.+

Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun skólans í baráttunni gegn einelti, áreitni og ofbeldi strax við upphaf starfs. Öryggisnefnd kynnir stefnuna og viðbragðsáætlun á starfsmannafundi á hverju ári.

Ef einelti, áreitni eða ofbeldi kemur upp er strax metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur eftir því sem þörf krefur (atvik tilkynnt á GAT-008, sjá flæðirit). Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir að vandinn haldi áfram.

Skólinn mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti, áreita aðra eða beita ofbeldi. Aðgerðir geta t.d. falist í leiðsögn, skriflegri áminningu og eftir atvikum uppsögn í samræmi við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Gerandi verður ávallt látinn axla ábyrgð.

Um einelti, áreitni og ofbeldi

Einelti, áreitni og ofbeldi eru alvarleg vandamál sem stjórnendum vinnustaða ber að taka á. Afleiðingar þess eru ekki aðeins slæmar fyrir þá sem fyrir því verða heldur einnig fyrir rekstur stofnana eða fyrirtækja. Það hefur margvísleg neikvæð áhrif á líðan starfsmanna, heilsu, starfsánægju, metnað, fjarvistir og félagslegt starfsumhverfi. Hér fyrir neðan verður farið nánar í skilgreiningar á þessum hugtökum.

Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015 skilgreinir einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi á eftirfarandi hátt:

Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynbundin áreitni:

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni:

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Ofbeldi:

Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Dæmi um birtingarform eineltis, áreitni og ofbeldis

Einelti

Starfstengdar athafnir:

  • Athafnir sem varða starf þolandans og möguleika hans á að njóta sín og/eða standa sig í starfi.
  • Verkefnum hlaðið á starfsmann.
  • Starfsmanni ítrekað úthlutuð tilgangslaus verkefni.
  • Starfs-/verkefnatengdum upplýsingum haldið leyndum.
  • Starfsmaður ómaklega hafður undir stöðugu eftirliti.
  • Leitað eftir mistökum hjá starfsmanni og mikið gert úr þeim þegar þau finnast.
  • Verkefni óvænt tekin frá starfsmanni.
  • Grafið undan frammistöðu og/eða faglegri hæfni starfsmanns.

Félagsleg einangrun

  • Starfsmaður markvisst sniðgenginn/útilokaður frá starfshópnum.
  • Samstarfsfélagar heilsa ekki viðkomandi, tala ekki við hann/hana, setjast ekki hjá honum/henni o.s.frv.

Særandi framkoma og niðurlæging

  • Faglegar eða persónulegar svívirðingar.
  • Niðrandi athugasemdir eða aðdróttanir.
  • Endurteknar skammir eða hótanir.
  • Slúður/baktal.
  • Endurtekin stríðni.

Kynferðisleg áreitni

  • Dónalegir brandarar.
  • Kynferðislegar athugasemdir.
  • Augngotur eða gláp.
  • Óviðeigandi snerting eða myndataka.
  • Óviðeigandi athugasemdir um kynferðsleg málefni og útlit.
  • Óvelkomin beiðni um kynferðislegt samband.
  • Óvelkomin samskipti á samfélagsmiðlum.

Kynbundin áreitni og önnur áreitni

  • Óviðeigandi talsmáti eða framkoma sem tengist kyni og kynhneigð fólks.
  • Staðalmyndum viðhaldið endurtekið. T.d. að konur eru ritarar, karlar eru sterkir, ungt fólk viti ekki hluti, eldra fólk skilji ekki tækni í þversögn við þekkingu, reynslu og menntun fólks.
  • Niðurlæging til dæmis vegna aldurs, trúarbragða, fötlunar eða uppruna.

Annað ofbeldi

  • Líkamlegt ofbeldi: árásir, slagsmál, spörk, bit ofl.
  • Andlegt ofbeldi: hótanir, áreitni, valdníðsla, skipulögð niðurlæging o.fl.

Dæmi um afleiðingar eineltis, áreitni og ofbeldis

Áhrif á einstaklinginn

  • Þunglyndi.
  • Álag og streita.
  • Kvíði.
  • Reiði, ótti og öryggisleysi.
  • Dvínandi sjálfstraust.
  • Sektarkennd (þolendur kenna oft sjálfum sér um það hvernig fyrir þeim er komið).
  • Vanmetakennd.
  • Tortryggni og félagsleg einangrun.
  • Líkamleg veikindi:
    • Hjarta- og æðasjúkdómar
    • Höfuð- og magaverkir
    • Svefnraskanir
    • Og fleira.

Áhrif á frammistöðu starfsmanns

  • Óöryggi og skortur á frumkvæði.
  • Dvínandi starfsgeta.
  • Áhugaleysi
  • Skortur á vinnugleði og nýsköpun.

Áhrif eineltis á vinnustaðinn

  • Slæmur starfsandi.
  • Dvínandi hollusta við vinnustað.
  • Lakari afköst.
  • Fjarvistir.
  • Uppsagnir.
  • Samskiptaörðugleikar.
  • Löskuð ímynd vinnustaðar.

 

Viðbragðsáætlun

Viðbrögð

Starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi, eða hafa rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun á vinnustaðnum, skal snúa sér hið fyrsta til skólameistara og tilkynna um atvikið. Ef um alvarlegt ofbeldistilvik er að ræða skal kalla til lögreglu.

Ef skólameistari er gerandi málsins eða sinnir því ekki er lögð áhersla á að starfsmaðurinn snúi sér til öryggistrúnaðarmanns. Ef viðunandi niðurstaða fæst ekki leita málsaðilar til mennta- og menningarmálaráðherra.

Einelti/kynferðisleg áreitni/kynbundin áreitni/ofbeldi þarf að tilkynna skriflega á GAT-008 eyðublaði í gæðahandbók og þá virkjast viðbragðsáætlun MK. Ef tilkynnandi snýr sér beint til yfirmanns (skólameistara/aðst. Skólameistara) skal hann halda utan um málið á GAT-008; skrá þar með skipulögðum hætti allt sem tengist meðferð máls, meðal annars: vitnisburði, atvik, aðgerðir, ákvarðanir og dagsetningar. Meta skal hvort óska skuli eftir undirskrift málaaðila til að staðafesta þann vitnisburð sem komið hefur fram.

Gæta skal þess að vinnuaðstæður þolanda á meðan málsmeðferð stendur séu þannig að hann njóti stuðnings og upplifi sig öruggan á vinnustaðnum. Í sumum tilfellum getur viðkomandi farið í veikindaleyfi fái hann læknisvottorð til þess. Það sama á við um stöðu geranda nema brotið sé þeim mun alvarlegra. Ef gerandi er yfirmaður viðkomandi skal þolanda bjóðast að starfa tímabundið undir stjórn annars yfirmanns.

Öll gögn sem safnað er í málum skulu vera geymd á öruggum stað og einungis þeir sem rannsaka málið hafa aðgang að.

Málsmeðferð

Gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, smáskilaboð eða annað.

Ef einelti, áreitni eða ofbeldi er staðfest að lokinni athugun fær gerandi skriflega áminningu.

Þolanda og geranda er boðinn sálfræðistuðningur eftir því sem við á og þörf krefur.

Fundin er lausn sem m.a. getur falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Málinu er síðan fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum og fylgst með samskiptum þeirra.

Láti gerandi ekki segjast og viðhaldi hegðun sinni leiðir það til uppsagnar hans úr starfi skv. lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Ef skólameistara og/eða öryggistrúnaðarmanni tekst ekki að taka á málum eða ekki tekst að vinna með það innan skólans getur starfsmaður vísað máli sínu til mennta- og menningarmálaráðherra.

Ef ástæður eru margslungnar og vinnustaðurinn undirlagður af því getur þurft að kalla til utanaðkomandi sérfræðiaðstoð.

Eftirfylgni

Nauðsynlegt er að fylgja málinu eftir hvort sem óformleg eða formleg leið er farin. Eftirfylgni felst m.a. í því að:

  • Fylgjast með líðan og félagslegri stöðu geranda og þolanda.
  • Veita geranda og/eða þolanda viðeigandi stuðning og hjálp.
  • Meta árangur inngrips.
  • Endurskoða inngrip ef ástæða þykir til.

Ef könnun máls leiðir í ljós að ekki er um einelti, áreitni eða ofbeldi að ræða þarf samt sem áður að huga að vinnustaðamenningu og samskiptum sem leiddu til þessarar tilkynningar. Aðilum máls getur t.d. verið veittur stuðningur í formi samtala og handleiðslu.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Ábyrgð vinnuveitanda

Stjórnendum ber að sjá til þess að grundvallarreglur samskipta á vinnustaðnum séu virtar.

Líkur á einelti aukast ef skólinn stendur andspænis erfiðleikum eða einhvers konar breytingum, taka á upp nýja tækni, breyta vinnuskipulagi og verkháttum, draga þarf saman seglin og jafnvel segja fólki upp. Þá skiptir jákvæð og kraftmikil vinnustaðarmenning, styrk stjórn og góður undirbúningur sköpum.

Stjórnendur skulu ganga á undan með góðu fordæmi og sýna starfsfólki tillitssemi, virðingu og umburðarlyndi og stuðla að góðum starfsanda, fylgjast með samskiptum starfsfólks og taka á ágreiningsmálum.

Einelti er síendurtekin hegðun á meðan áreitni og ofbeldi eru þess eðlis að eitt atvik er ástæða til tafarlausra aðgerða. Stjórnendur ganga hér einnig á undan með góðu fordæmi og gefa skýr skilaboð þess efnis að áreitni og ofbeldi verði ekki liðið. Þáttur í því er að hafa aldrei slík mál í flimtingum og skapa þannig vinnumenningu að t.d. kynbundið „grín“ og viðhald staðalmynda (hvort sem er vegna aldurs, kyns, trúar eða annars) sé ekki boðlegt.

Stjórnendur tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi með markvissu vinnuverndarstarfi. Það er meðal annars falið í því að skipa öryggisnefnd og sjá til þess að áhættumat sé framkvæmt reglulega. Einn þáttur áhættumats er um félagslega og andlega þætti og eru þeir meðal annars metnir með því að leggja reglulega fyrir starfsmannakönnun. Eins eru starfsmannafundir og starfsmannaviðtöl vettvangur til að koma skoðunum á framfæri. Svo er virkt starfsmannafélag hjá MK sem styður við annað vinnuverndarstarf með samkomum og viðburðum sem stuðla að góðum starfsanda og jákvæðum samskiptum.

Tekið er á vandamálum sem upp koma, þ.m.t. ágreiningi, einelti, áreitni og ofbeldi. Viðbrögðin eru markviss og leitað lausna í stað þess að grafa slík mál í þögn. Tekið er á áreitni og ofbeldi tafarlaust og kallað á liðsinni lögreglu ef málum er þannig háttað.

Ábyrgð starfsfólks

Stjórnendur og starfsfólk vinnur saman að því að hlúa að góðu og uppbyggjandi vinnuumhverfi þar sem öllum getur liðið vel. Mikilvægt er að starfsfólk sé upplýst um stefnur skólans og hafi þær og gildi skólans að leiðarljósi í sínu starfi.

Ef starfsmaður telur sig verða vitni að einelti, áreitni eða ofbeldi ber honum að tilkynna það til skólameistara eða öryggistrúnaðarmanns. Ef um alvarlegt ofbeldistilvik er að ræða skal kalla til lögreglu.

Mikilvægt er að allt starfsfólk sýni samkennd og sé vakandi fyrir einelti, áreitni og ofbeldi. Allt starfsfólk á að þekkja og virða stefnu Menntaskólans í Kópavogi gegn einelti, áreitni og ofbeldi og vera meðvitað um hegðun sína og stuðla að því að tekið sé á ágreiningsmálum.

STE-026 Persónuverndarstefna

Menntaskólinn í Kópavogi leggur áherslu á að tryggja að öll meðferð per­sónu­upp­lýs­inga sé í sam­ræmi við ákvæði laga um per­sónu­vernd og meðferð per­sónu­upp­lýs­inga. Markmið per­sónu­vernd­ar­stefn­unnar er að auðvelda ein­stak­lingum að átta sig á hvaða upp­lýs­ingum skólinn safnar, hvers vegna og hvað er gert við þær. Eins er því lýst hver réttur einstaklings er varðandi per­sónu­upp­lýs­ingar og hvert hægt er að leita ef óskað er eftir upp­lýs­ingum eða ef einstaklingi þykir á sér brotið.

Persónuupplýsingar og meðferð þeirra

Þær per­sónu­upp­lýs­ingar sem skráðar eru í Menntaskólanum í Kópavogi hafa allar laga­legan eða þjón­ustu­legan til­gang. Per­sónu­upp­lýs­ingar er varða starfsfólk og nem­endur eru allar til þess gerðar að veita þeim þá þjón­ustu er þeir hafa laga­legan rétt til.

Menntaskólinn í Kópavogi mun gera allt sem í hans valdi er til að tryggja að farið verði með ýtr­ustu gætni með per­sónu­upp­lýs­ingar í skól­anum og að meðferð þeirra sé í sam­ræmi við lög og reglur. Starfs­menn Menntaskólans í Kópavogi eru bundnir þagnareið sem helst þegar starfsmaður hættir störfum og þeim ber skylda til að fara með per­sónu­upp­lýs­ingar sam­kvæmt lögum og reglum. Menntaskólinn í Kópavogi hefur sett sér nokkrar grund­vall­ar­reglur við meðhöndlun persónulegra upplýsinga, þær skulu vera:

  • Löglegar, sanngjarnar og réttar
  • Meðhöndlaðar af trúnaði og tryggðar gegn óheimilum breytingum
  • Vera skráðar í sérstökum tilgangi og ekki síðar notaðar í öðrum óskyldum tilgangi
  • Vistaðar eins lengi og lög um opinber skjalasöfn gera kröfur um
  • Vera uppfærðar og aðgengilegar
  • Persónuupplýsingar eru aðeins notaðar í upprunalegum tilgangi og eru ekki afhentar öðrum nema að beiðni hlutaðeigandi, með ótvíræðu samþykki hans eða að skólanum beri lagaleg skylda til.

Hvað eru persónuupplýsingar?

Per­sónu­upp­lýs­ingar eru hvers kyns upp­lýs­ingar um per­sónu­greindan eða per­sónu­grein­an­legan ein­stak­ling, þ.e. upp­lýs­ingar sem á ein­hvern hátt má tengja við ein­stak­ling.

Hvaða persónuupplýsingar skráir eða geymir Menntaskólinn í Kópavogi?

Til þess að gegna skyldum skólans og geta boðið starfsfólki og nem­endum hans sem besta þjón­ustu þarf að skrá og meðhöndla persónu­legar upp­lýs­ingar bæði raf­rænt og á pappír.

Menntaskólinn í Kópavogi er í sam­starfi við Advania sem er rekstraraðili rafrænna kerfa er varða rekstur skólans (Inna/Oracle). Aðgangi að þessum kerfum er stýrt með per­sónu­legum aðgangi og skal enginn hafa aðgang að per­sónu­upp­lýs­ingum sem ekki hefur til þess heimild. Heim­ildir til aðgangs að upp­lýs­ingum í rafrænum upplýsingakerfum eru ein­skorðaðar við þá ein­stak­linga sem starfs síns vegna þurfa aðgengi að upp­lýs­ingum um starfsfólk eða nem­endur, s.s. skóla­stjórnendur, kenn­ara, námsráðgjafa og þjón­ustuaðila við nem­endur. Þessir aðilar hafa ekki allir sama aðgang, heldur hefur hver og einn aðgang sem viðkomandi þarf til að geta sinnt sinni þjónustu.

Dæmi um per­sónu­upp­lýs­ingar sem Menntaskólinn í Kópavogi skráir eða notar í starf­sem­inni:

  • Nafn og kennitala
  • Heimilisfang
  • Netpóstfang
  • Símanúmer
  • Nöfn forráðamanna
  • Netföng forráðamanna
  • Símanúmer forráðamanna
  • Mætingar
  • Verkefnaskil
  • Einkunnir
  • Upplýsingar um sérþarfir nemanda sem nauðsynlegar eru fyrir skólagöngu hans og nemandi eða forráðamaður lætur skólanum í té
  • Bankaupplýsingar
  • Starfsferilsskrá
  • Sakavottorð starfsmanna

Hvaðan koma upplýsingarnar?

Skráningar upplýsinga í rafræn kerfi

Upp­lýs­ing­arnar koma frá starfsmanni, nem­anda, forráðamanni hans, skóla­stjórnendum, kennara, námsráðgjafa eða öðrum starfs­mönnum skólans sem til þess hafa heimild.

Netpóstur

Tölvu­póstur er varðar beint starfsfólk, nemendur eða starfssemi skólans og sendur er Menntaskólanum í Kópavogi eða starfsmönnum hans vistast til framtíðar í rafrænu skjalakerfi skólans.

Upplýsingar um sérþarfir

Upp­lýs­ingar um sérþarfir nem­anda er nauðsynlegar eru fyrir skólagöngu hans koma frá nem­anda eða forráðamanni hans.

Myndir

Mynd til birt­inga í aug­lýs­inga­efni skólans, á heimsíðu hans eða á sam­fé­lagsmiðlum á vegum hans er aðeins birt að fyr­ir­ liggi heimild frá starfsmanni eða nem­anda og (ef við á) forráðamanni hans. Enda skal á jafn auðveldan hátt og heim­ildin var veitt vera hægt að draga hana til baka. Ætíð skal orðið við beiðni starfsmanns eða nem­anda og (ef við á) forráðamanni hans um að fja­rlægja mynd af heimasíðu eða sam­fé­lagsmiðlum á vegum skólans. Undanþága frá kröfum um heimild til mynd­birt­inga er þegar hóp­mynd er tekin í skól­anum eða á atburðum honum tengdum og enginn einn er fókus mynd­ar­innar. Starfsmaður eða nem­andi eða (ef við á) forráðamaður hans getur þó farið fram á að slíkar myndir verði fjarlægðar af vef skólans eða sam­fé­lagsmiðlum á hans vegum án þess að gefa upp ástæðu þess.

Tilgangur með skráningu persónuupplýsinga

Þær per­sónu­upp­lýs­ingar sem skráðar eru í Menntaskólanum í Kópavogi hafa allar laga­legan eða þjón­ustu­legan til­gang.

Afhending upplýsinga til þriðja aðila

Menntaskólinn í Kópavogi afhendir ekki þriðja aðila upp­lýs­ingar nema honum beri lagaleg skylda til, þess hafi verið óskað og fyr­ir­fram hafi verið gefið óyggj­andi samþykki fyrir því. Slíkt samþykki skal vera hægt að aft­ur­kalla á eins auðveldan hátt og samþykkið var gefið.

Hver er réttur einstaklingins?

  • Einstaklingur hefur rétt til þess að fá allar þær persónulegu upplýsingar sem um hann eru skráðar hvort sem þær upplýsingar eru á rafrænu eða pappírsformi, hvaðan upplýsingarnar koma og til hvers þær eru notaðar
  • Einstaklingur hefur rétt til að krefjast þess að rangar eða ófullkomnar skráningar verði leiðréttar
  • Mikilvægt er að einstaklingur geri sér grein fyrir því að ekki er heimilt að eyða nokkru skjali í skjalasafni Menntaskólans í Kópavogi nema með heimild þjóðskjalavarðar

Varðveislutími

Þar sem Menntaskólinn í Kópavogi er afhendingarskyldur aðili á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn er skólanum óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali sem fellur undir gildissvið laganna, nema með heimild þjóðskjalavarðar. Almennt eru þær persónuupplýsingar sem skólinn vinnur því afhentar Þjóðskjalasafni að þrjátíu árum liðnum.

Persónuverndarfulltrúi

Hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu er starf­andi per­sónu­vernd­ar­full­trúi sem hefur það hlut­verk að sinna persónuverndarmálum og aðstoða framhaldsskólana við þau mál. Tengiliður Menntaskólans í Kópavogi við persónuverndarfulltrúann er skrifstofustjóri skólans.

Eftirlitsaðili

Per­sónu­vernd annast eft­irlit með fram­kvæmd laga um per­sónu­vernd, reglugerða og sérákvæða í lögum sem fjalla um vinnslu per­sónu­upp­lýs­inga. Sér­hver skráður ein­stak­lingur eða full­trúi hans hefur rétt til að leggja fram kvörtun hjá Per­sónu­vernd ef hann telur að vinnsla per­sónu­upp­lýs­inga um hann brjóti í bága við lög eða reglugerð. Per­sónu­vernd úrskurðar um hvort brot hafi átt sér stað. Frekari upp­lýs­ingar um per­sónu­vernd er að finna á vef stofn­un­ar­innar, personuvernd.is

Endurskoðun

Menntaskólinn í Kópavogi getur frá einum tíma til annars breytt persónuverndarstefnu þessari í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum og reglugerðum eða vegna breytinga á því hvernig skólinn vinnur með persónuupplýsingar. Verði gerðar breytingar á stefnunni verður slíkt kynnt á heimasíðu skólans. Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á stefnunni taka gildi eftir að uppfærð útgáfa hefur verið birt.

Síðast uppfært 18. febrúar 2025