Afrekssvið MK

Athugið að til að umsókn sé tekin gild þarf að berast umsókn á menntagatt.is ásamt umsókn hér að neðan og meðmæli þjálfara.

Nemendur sem hafa áhuga á Afrekssviði MK sækja um hér

Meðmæli þjálfara

Skilyrði fyrir þátttöku er að nemandi sé að æfa íþrótt í skipulögðu íþróttastarfi undir handleiðslu þjálfara, með það markmið að ná árangri í greininni.

Leyfisbeiðni

Spurningar og svör um leyfi

Afrekssvið Menntaskólans í Kópavogi býður upp á kröfuhart nám með sveigjanleika fyrir metnaðarfullt íþróttafólk. Afrekssviðið var stofnað þann 11. apríl 2019 af Menntaskólanum í Kópavogi, Breiðablik, Gerplu og Handknattleiksfélagi Kópavogs og er unnið í nánu samstarfi við þessi félög ásamt Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Afreksviðið er opið íþróttafólki úr öllum íþróttafélögum og er sniðið að því sem er talið henta hverjum einstaklingi.

Nemendur á afrekssviði skrá sig á bóknámsbraut á afrekssviði. Nám þeirra inniheldur kjarnafög úr náttúrufræði, félagsfræði eða viðskiptafræðibrautum ásamt því að stór hluti valáfanga fer undir áfanga á afrekssviði. Nemendur á framhaldsskólabraut og opinni braut geta einnig skráð sig á afrekssvið.

Fagstjóri: Daði Rafnsson

Netfang: dadi.rafnsson@mk.is

Hér má sjá nemendur sem hafa lokið afrekssviði 

Tvöfaldur ávinningur - Dual career nám fyrir íþróttafólk  

Afrekssvið Menntaskólans í Kópavogi horfir til kenninga og leiðbeininga í “dual career” fræðum við uppbyggingu sviðsins. Segja má að íþróttafólk fái tvöfaldan ávinning af því að stunda nám sem tekur tillit til íþróttaiðkunnar þeirra. Það getur stefnt hátt í íþróttinni og um leið og það stundar nám sem gefur því aukin tækifæri og gerir það að heilsteyptari manneskjum.

Við gerum okkur grein fyrir því að ferill hvers íþróttamanns eða konu er einstakur og að það er okkar að gefa öllum þeim sem sýna metnað tækifæri á að þroskast og þróast. Á sviðinu eru nemendur sem eru nú þegar afreksfólk í sínu fagi og aðrir sem eiga enn eftir að ná markmiðum sínum. Það sem mestu máli skiptir er að tileinka sér siði og venjur sem einkennir afreksíþróttafólk. 

Eitt helsta markmið afrekssviðsins er að gera nemendur sviðsins bæra um að afla sér upplýsinga um og taka ábyrgð á þáttum sem gera þau að öflugra íþróttafólki. Við vinnum mikið með 5C hugmyndafræði Chris Harwood sem snýr að skuldbindingu, samskiptum, einbeitingu, sjálfsstjórn og sjálfstrausti.

Afrekssviðið er aðili að European Dual Career Network og hefur leiðbeiningar Evrópusambandsins um dual career nám að leiðarljósi við uppbyggingu sviðsins. 

Inntökuskilyrði 

  • Nemendur verða að hafa lokið grunnskólaprófi
  • Nemendur eru virkir iðkendur í íþróttafélagi og stundi íþróttina af metnaði
  • Meðmæli frá íþróttafélagi viðkomandi
  • Samþykki um vímuefnalausan lífsstíl

Nemendur á afrekssviði greiða hefðbundin skólagjöld og að auki 46.500 á önn. Aukagreiðslan er vegna umjsónar, þjálfunar, ráðgjafar, aðkeyptra fyrirlesara, fyrirbyggjandi æfingar í samstarfi við sjúkraþjálfara, íþróttafatnaðar o.fl.  

Helstu kostir afrekssviðsins

Öflugt utanumhald frá fagstjóra, kennurum, áfangastjóra, námsráðgjöfum, forvarnarfulltrúa og þjálfurum sem aðstoða nemendur við að sníða námið að eigin þörfum og veita úrræði ef eitthvað kemur upp á. Nemendur á afrekssviði hafa til að mynda tvo umsjónarkennara sem þeir geta leitað til 

Leyfi frá skóla er ávallt veitt óski þjálfari eða félag viðkomandi eftir því svo fremi sem nemandi sýni viðunandi námsframvindu 

Fjórar kennslustundir í viku í verklegu og bóklegu námi tengdum íþróttum á afrekssviði

Viðburðir, fyrirlestrar frá sérfræðingum, verkefni sem tengjast íþróttaiðkun

Jafningjastuðningur frá öðrum nemendum á afrekssviði

Námstími

Námstími til stúdentsprófs er þrjú ár og þarf nemandi að ljúka 33-34 einingum á önn til að ljúka á þeim tíma. Nemendur á afrekssviði fá 5 einingar á önn í sex annir fyrir þáttöku á sviðinu.

Algengar spurningar um afrekssviðið

Hvernig sendi ég meðmælabréfið?  

Meðmælabréfið sendist á fagstjóra Afrekssviðs, Daða Rafnsson í netfangið dadi.rafnsson@mk.is  Í því skal koma fram hvaða íþrótt nemandi stundar, í hvaða félagi og að hverju viðkomandi er að stefna með því að sækja um Afrekssvið MK. Einnig skulu fylgja ummæli frá þjálfara um viðkomandi.

Þarf að æfa með íþróttafélagi í Kópavogi til að fá inngöngu?

 Nei

Þarf ég að vera með lágmarks meðaleinkunn úr grunnskóla?  

Ekki er gerð krafa um lágmarks meðaleinkunn. Mörg dæmi eru um að nemendur á Afrekssviði hefji nám á framhaldsskólabraut.  

Þarf ég að hafa náð afreksárangri í minni íþrótt til að fá inngöngu? 

Ekki er gerð krafa um afreksárangur í íþróttum fyrir framhaldsskóla, en ætlast er til að nemendur nálgist íþrótt sína og nám með hugarfar afreksfólks að markmiði. 

Er námið í MK krefjandi? 

Nemendur frá Afrekssviði hafa fengið inngöngu í suma af mest krefjandi háskólum í heimi.  

Hvað þýðir sveigjanleiki?  

Við hjálpum þér að stilla upp námshraða sem hentar þér. Einnig geta nemendur Afrekssviðs fengið leyfi frá skólanum til íþróttaiðkunnar að uppfylltum skilyrðum. 

Hver eru skilyrðin fyrir leyfi frá skóla? 

Íþróttafélög og sérsambönd geta óskað eftir leyfi fyrir nemendur Afrekssviðs. Þeim ber að tilkynna ástæðu og lengd tíma frá skóla. Nemendur bera ábyrgð á því að upplýsa kennara sína og gera ráðstafanir í samvinnu við þá um hvernig haga skal verkefnaskilum. Foreldrar og nemendur geta ekki sótt sjálf um leyfi vegna íþróttaiðkunnar, en geta sótt um annars konar leyfi eins og aðrir nemendur skólans til skólaskrifstofu.  

Eru gerðar meiri kröfur til nemenda Afrekssviðs en annarra nemenda um hegðun?  

Nemendur Afrekssviðs lúta sömu reglum og aðrir nemendur varðandi agavandamál eða eignaspjöll og eru þau tekin fyrir af stjórnendum skólans. Alvarleg og endurtekin óæskileg hegðun nemanda, þar á meðal með því að beita aðra ofbeldi, kynþáttahatri, einelti eða niðurlægingu getur leitt til brottvísunar af sviðinu. Nemendur sem neyta áfengis, tóbaks og vímuefna eru ólíklegir til að ná árangri í sinni íþrótt og verði nemandi uppvís að því að brjóta landslög og reglur skólans hvað þau varðar getur það leitt til brottvísunar af sviðinu. Falli nemandi Afrekssviðs á lyfjaprófi er viðkomandi umsvifalaust vísað af Afrekssviði.

Síðast uppfært 21. maí 2024