VERA1AA01 - Virðing, efling, rökhugsun og atorka I
Áfanginn er ætlaður nýnemum. Nemendur læra ýmis hagnýt atriði er varða skólagöngu þeirra, s.s. skólareglur, tölvukerfi, bókasafn, félagslíf o.fl. Nemendur fá þjálfun sem gagnast þeim í öðru námi við skólann eins og hópastarfi, samskiptum, framkomu og tjáningu. Einnig er fjallað um réttindi þeirra og skyldur sem nemendur og borgarar í lýðræðisríki.
Markmið áfangans eru m.a. að nemendur beri sjálfir ábyrgð á námi sínu og geri sér raunhæfa áætlun um námsferil og samsetningu námsins með tilliti til framtíðaráætlana í námi og starfi. Nemendur fá fræðslu um þá möguleika sem í boði eru hvað varðar námið og læra að halda utanum eigin námsferil. Farið er yfir ábyrga hegðun í skóla og einkalífi. Lögð er áhersla á að verkefni séu unnin og leyst á skapandi hátt.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- Utanumhaldi á eigin námsferli.
- Mögulegum námsleiðum innan skólans.
- Mikilvægi þess að sækja skólann og stunda námið af samviskusemi.
- Mikilvægi gagnrýnnar hugsunar.
- Eigin ábyrgð á samfélagi sínu og umhverfi.
- Réttindum og skyldum sínum sem nemandi og borgari í lýðræðislegu samfélagi.
- Kostum þess að vinna með fjölbreyttum hópi fólks.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- Skipuleggja og halda utan um eigin námsferil.
- Gera framtíðaráætlanir varðandi nám og starf.
- Bregðast við og leita aðstoðar ef eitthvað fer öðruvísi í náminu en ætlað er.
- Afla sér upplýsinga um umhverfi sitt, nærsamfélag og alþjóðasamfélagið.
- Gera sér grein fyrir eigin sjálfsmynd og geta útskýrt tilfinningar sínar og skoðanir á rökstuddan hátt.
- Gera grein fyrir stöðu sinni í samfélaginu með það að markmiði að vera virkur þjóðfélagsþegn.
- Nýta sér skapandi hugsun við úrlausn verkefna.
- Vinna í fjölbreyttum hópi.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- Velja nám við hæfi.
- Taka nýjar ákvarðanir og breyta um stefnu ef svo ber undir.
- Ganga vel um eigur skólans og fara að reglum.
- Skrá úrlausnir sínar skipulega, skiptast á skoðunum við aðra um þær og útskýra hugmyndir sínar og verk á viðeigandi hátt.
- Beita rökhugsun til þess að draga ályktanir og setja fram gagnrýni á skipulegan hátt.
- Geta gert grein fyrir sjónarmiðum sínum og skoðunum á málefnalegan og rökstuddan hátt.
- Sýna öðrum einstaklingum, skoðunum þeirra og lífstíl virðingu og umburðarlyndi.
Undanfari: Áfangi tekinn á 1. önn.
Námsmat: Símat.