UMHV2BA05 - Umhverfisfræði

Áfanginn er ætlaður nemendum af öllum námsbrautum og lögð megináhersla á áhrif mannsins á umhverfi jarðar og lausnamiðaða nálgun á hin ýmsu viðfangsefni umhverfisfræðinnar. Umhverfisfræði sem fræðigrein er kynnt fyrir nemendum, helstu hugtök og kenningar, saga og þróun og fjallað sérstaklega um veigamikil viðfangsefni umhverfismála í heiminum í dag; loftslagsmál, veðurfarsbreytingar, ástand lofts, vatns, hafs og lífríkis, sorp og úrgangsmál, dýr í útrýmingarhættu og áhrif mannsins á þessa þætti. Nemendur eru sérstaklega efldir til að leita hagnýtra lausna og sjá tækifæri sem felast í endurnýtingu, endurvinnslu, endurnýtanlegri orku, sjálfbærri þróun, umhverfisstjórnun og alþjóðlegu samstarfi. Með gagnrýna hugsun að leiðarljósi taka nemendur afstöðu til umhverfistengdra hugtaka og málefna og tengja við sitt nærsamfélag og eigin lífsstíl s.s. neyslusamfélagið og þáttöku sinni í því.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skiling á:

  • Þverfaglegum hugtökum og kenningum umhverfisfræðinnar og mikilvægi fræðigreinarinnar í dag.
  • Áhrifum athafna mannsins á umhverfi sitt.
  • Loftslagi og veðurfarskerfum jarðar.
  • Endurnýtingu og endurvinnslu.
  • Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.
  • Alþjóðlegri samvinnu í umhverfismálum, alþjóðasamtökum og samningum.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Leita sér áreiðanlegra upplýsinga og lesa fræðilega texta tengdum umhverfismálum.
  • Taka þátt í umræðu um hugtök og viðfangsefni umhverfisfræðinnar.
  • Mynda sér upplýsta skoðun á ýmsum viðfangsefnum umhverfisfræðinnar og velta fyrir sér ólíkum sjónarmiðum og lausnum.
  • Greina orsakir vaxandi hnattrænna vandamála er varða umhverfið.

Nemandi skal geta hagnýtt sér þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Draga úr ágangi á náttúruauðlindir með vistvænni lifnaðarháttum.
  • Stunda áframhaldandi nám í umhverfisfræðum.
  • Taka ábyrga og rökstudda afstöðu til ýmissa umhverfismála.
  • Nota helstu hugtök fræðanna í faglegri rökræðu um málefni umhverfisins og geta gert grein fyrir ábyrgð sinni á eigin athöfnum og áhrifum þeirra á umhverfið.

Undanfari: Áfangi tekinn á 1. - 2. önn.

Námsmat: Símat.