SPÆN2FE05 - Námsferð til Spánar

Spænskuáfangi með námsferð til Spánar þar sem gist verður í 5-7 nætur.
Á önninni fá nemendur innsýn í sögu og menningu tuttugu og tveggja spænskumælandi landa, þar á meðal Spán. Nemendur lesa valdar greinar frá kennara og horfa á fræðsluefni um löndin. Einnig nýta nemendur sér hina ýmsu miðla til að afla sér sjálfir frekari upplýsinga um löndin og því er ætlast til að þeir sýni meira sjálfstæði en fyrr í náminu.
Nemendur vinna í þrjár lotur áður en haldið er út. Í hverri lotu verður lögð sérstök áhersla á lærdóm um sögu og menningu landanna sem tekin eru fyrir hverju sinni. Nemendur læra m.a. um staðsetningu landanna, hefðbunda rétti, tónlist og dans, kurteisisstaðla og ýmislegt annað sem einkennir hvert land. Eins eru einkenni framburðs í löndunum skoðaður, allt gert til að nemendur fái betri tilfinningu fyrir löndunum og staðarháttum.
Þegar til Spánar er komið mæta nemendur í kennslu í spænskuskóla frá mánudegi til föstudags, í 4 klst á dag. Þar gefst kjörið tækifæri til að æfa sig í notkun tungumálsins en markmið ferðarinnar er að nýta þá kunnáttu sem nemendur hafa nú þegar og byggja ofan á þá kunnáttu. Á meðan að á dvölinni stendur kynnast nemendur einnig menningu og sögu Spánar og fara í kynnisferðir um svæðið.
Byggt er markvisst á þeirri kunnáttu sem nemendur hafa nú þegar tileinkað sér ritun í samræmi við þrep A2 í evrópska tungumálarammanum. Unnið er að frekari færni nemenda í lesskilningi, tali, hlustun og ritun. Orðaforði eykst og málfræðiatriði eru æfð. Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur séu færir um að skilja venjulegt talað og ritað mál almenns eðlis.
Nemendur kynnast betur menningu spænskumælandi landa. Áhersla er lögð á aukinn orðaforða og lesskilning og að þeir geti tjáð sig af meiri lipurð bæði munnlega og skriflega. Nemendur eru þjálfaðir í að geta lesið sér til gagns og ánægju og aflað sér upplýsinga á spænsku á netinu. Einnig er stuðlað að að nemendur geri sér grein fyrir eigin ábyrgð í tungumálanámi og átti sig á mikilvægi eigins frumkvæðis og vinnu. 

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • Orðaforða sem nauðsynlegur er til að mæta markmiðum áfangans.
  • Grundvallarþætti spænska málkerfisins menningu, samskiptavenjum og siðum spænskumælandi landa og þjóðanna þar sem tungumálið er talað sem móðurmál/fyrsta mál.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Greina talað mál um kunnugleg efni og geta fylgt fyrirmælum og greint aðalatriði frá aukaatriðum.
  • Lesa og greina margskonar gerðir texta og vinna úr þeim á mismunandi hátt eftir því hver tilgangur með lestrinum er hverju sinni.
  • Afla sér hagnýtra upplýsinga og taka þátt í samræðum og tjá sig um ólík umræðuefni.
  • Tjá sig um atburði með því að beita nútíð, framtíð og liðinni tíð og halda kynningu á undirbúnu efni með því að beita orðaforða, setningagerð og framburði á sem réttastan hátt.
  • Skrifa samfelldan texta um efni ýmis konar efni, draga ályktanir og tjá eigin skoðanir.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Hlusta á og greina talað mál um um efni sem hann hefur aflað sér þekkingar á sem og eigin skoðanir og persónulega reynslu.
  • Rökstyðja og bera saman notkun á setningum.
  • Leggja grunn að samræðum þannig að hann rökstyðji, spyrji og svari spurningum um kunnug málefni.
  • Draga ályktanir og nota orðasambönd og setningar á sem réttastan hátt til þess að segja frá.
  • Skipuleggja frásögn og rökstyðja orðaval í mismunandi tegundum texta og geta dregið ályktanir.
  • Skrifa texta um sjálfan sig og umhverfi sitt eða annað efni sem hann hefur aflað sér þekkingar á.

Undanfari: SPÆN1AC05.

Námsmat: Sjá kennsluáætlun.