SPÆN2BD05 - Spænska í ferðaþjónustu

Nemendur læra spænskan orðaforða tengdan ferðaþjónustu, þ.e.a.s. orðaforða sem notaður er í kringum flug, hótel, fararstjórn, ferðaskrifstofur og ráðstefnur en einnig veitingastaði og bari. Nemendur fá innsýn í spænska ferðaþjónustugeirann, en þar er ferðaþjónustan mikilvægur hlekkur í atvinnulífinu.
Nemendur kynnast áhugaverðum ferðamannastöðum á Spáni og læra um mismunandi tegundir af ferðamennsku (turismo rural, turismo cultural, turismo gastronómico, turismo de naturaleza, turismo de negocios, ...). Þeir fá einnig frekari innsýn í menningu Spánverja og venjur því mikilvægt er að hafa skilning á þjóð, venjum og kurteisisstöðlum þegar unnið er með spænskumælandi fólki / tekið er á móti spænskumælandi ferðamönnum.
Áfanginn er hugsaður fyrir nemendur sem hafa áhuga á að vinna við ferðaþjónustu hér á landi en getur einnig verið upplagður stökkpallur fyrir þá sem ætla að halda til Spánar á vit ævintýranna eftir menntaskóla og hafa mögulega áhuga á að vinna þar í ferðaþjónustu. Eins hentar áfanginn þeim sem vilja bæta framburð, skilning og tal á tungumálinu og fá dýpri þekkingu á menningu og venjum þessa lands.
Í áfanganum er lögð minni áhersla á en meiri áhersla á framburð, tal, ritun, hlustun og skilning. Áfanganum er skipt niður í nokkrar lotur og stuðst verður við símat yfir önnina. Nemendur vinna því ýmiss konar verkefni þar sem áhersla er lögð á skilning og tal á tungumálinu, aukinn orðaforða, skilning á atvinnulífi í ferðaþjónustu og dýpri skilning á menningu Spánar.  

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • Orðaforða sem nauðsynlegur er til að mæta markmiðum áfangans.
  • Talaðri spænsku (samræður og fyrirspurnir við ímyndaðar aðstæður í ferðamennsku).
  • Lærðum orðaforða til að tjá sig á tungumálinu í samræðum eða þegar gefa þarf fyrirmæli.
  • Menningu, samskiptavenjum og siðum Spánar.
  • Helstu ferðamannastöðum Spánar og ólíkar tegundir ferðamennsku.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Greina talað mál um efni tengdu ferðaþjónustu og geta fylgt fyrirmælum og greint aðalatriði frá aukaatriðum.
  • Lesa og greina margs konar gerðir texta og vinna úr þeim á mismunandi hátt eftir því hver tilgangur með lestrinum er hverju sinni.
  • Afla sér hagnýtra upplýsinga og taka þátt í samræðum og tjá sig um ólík umræðuefni sem tengjast ferðaþjónustu.
  • Geta óundirbúið tekið þátt í samræðum um efnið.
  • Skrifa samfelldan texta um ýmis konar efni, draga ályktanir og tjá eigin skoðanir.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Geta tekið að sér störf í ferðaþjónustu þar sem spænskukunnáttu er krafist.
  • Geta nýtt þekkingu og orðaforða til að takast á við flestar aðstæður sem geta komið upp á ferðalagi um spænskumælandi svæði.
  • Leggja grunn að samræðum þannig að hann rökstyðji, spyrji og svari spurningum um kunnug málefni sem tengjast ferðaþjónustu.
  • Skipuleggja frásögn og rökstyðja orðaval í mismunandi tegundum texta og geta dregið ályktanir.
  • Skrifa texta um málefni ferðaþjónustu. 

Undanfari: SPÆN1AC05.

Námsmat: Símat.