SAGA2BC05 - Íþróttasaga

Fáir viðburðir vekja eins miklar tilfinningar, áhuga og ástríðu og íþróttaviðburðir. Þrír og hálfur milljarður manna, eða um helmingur mannkyns, horfir á heimsmeistaramót karla í knattspyrnu í beinni útsendingu. Litlu færri horfa á Ólympíuleika. Engir aðrir viðburðir sameina íbúa jarðar á viðlíka hátt. Þessi óviðjafnanlegi áhugi skapar hins vegar mikla hagsmuni; fjárhagslega, stjórnmálalega, félagslega, menningarlega svo dæmi séu tekin. Íþróttir í dag eru enda ekki bara leikur því íþróttaviðburðir fléttast saman við marga helstu atburði mannkynssögunnar.
Í áfanganum munu nemendur læra hvernig íþróttir og samfélagsmál hafa skarast síðan fjöldaíþróttir komu fram á sjónarsviðið fyrir um 150 árum. Skoðað verður bæði hvernig stjórnmálamenn hafa notfært sér íþróttir til að afla sér vinsælda en líka hvernig minnihlutahópar hafa mótmælt og vakið athygli á baráttu sinni í gegnum íþróttir. Skoðað verður hvernig hugtök eins og stjórnmál, þjóðernishyggja, stéttabarátta, saga, kyn og kynþættir hafa áhrif á vinsælar íþróttir og öfugt. Tekin verða nokkur dæmi um þekkta íþróttaviðburði og krufið hvernig samfélagsmál hafa haft áhrif á þá og öfugt.

Nemandi skal öðlast þekkingu og skilning á:

  • Helstu atburðum mannkynssögu á tímabilinu og hvernig þeir fléttast saman við íþróttaviðburði.
  • Hvernig íþróttir urðu að mikilvægum þætti alþýðumenningar á 19. öld.
  • Hvernig atvinnumennska, lyfjamisnotkun, sjónvarps- og styrktarsamningar hafa haft áhrif á íþróttir.
  • Hvernig andóf og mótmæli hafa fundið sér farveg í gegnum íþróttir.
  • Hvernig íþróttir eiga þátt í því að skapa sjálfsmynd einstaklinga, þjóða og annara hópa.
  • Hvernig stjórnmálamenn, allt frá einræðisherrum til lýðræðislega kjörinna fulltrúa, nota íþróttir til að bæta ímynd sína.

Nemandi skal öðlast leikni í að:

  • Greina hvernig alþýðumenning og stjórnmál skarast.
  • Skilja hvers vegna íþróttir skilgreina fólk eftir stétt og stöðu.
  • Sjá hvernig íþróttir geta sameinað fólk og sundrað því.
  • Skilja hvernig stjórnmál, samfélag og tíðarandi hverju sinni kemur fram í íþróttum og öfugt.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Miðla þekkingu með fjölbreyttum hætti.
  • Greina og túlka helstu atburði í sögu íþrótta sem og stjórnmálalega og menningarlega þýðingu þeirra.
  • Meta á gagnrýninn hátt samband alþýðumenningar og stjórnmála og hvernig menning nýttar sem farvegur andófs og hugmyndafræði.
  • Greina áhrif stjórnmála á íþróttahreyfinguna.
  • Greina á gagnrýninn hátt málefni samtímans í íþróttum svo sem lyfjamisnotkun, persónuleg áhrif íþróttamanna og markaðsvæðingu íþrótta.

Undanfari: Enginn.

Námsmat: Símat.