Í áfanganum er fjallað um grundavallarhugtök og lykilatriði erfðafræðinnar, auk þess sem komið er inn á sögu erfðafræðinnar og stöðu hennar innan náttúruvísinda. Umfjöllunaratriði áfangans eru m.a. kjarnsýrur, litningar, gen, frumuskiptingar, afritun, umritun, próteinmyndun, kynfrumumyndun, æviskeið frumu, arfmynstur, ættartöflur og kynákvörðun. Uppbygging og starfsemi litninga er skoðuð og hlutverk þeirra. Breytingum erfðaefnis, genastökkbreytingum og litningabreytingum er lýst. Grunnatriðum stofnerfðafræðinnar eru gerð skil þar sem fjallað er um tíðni og jafnvægi gena í ólíkum stofnum lífvera og hugsanlegar orsakir tíðnibreytinga. Helstu aðferðir sem beitt er innan erfðarannsókna eru kynntar ásamt nýjustu rannsóknaaðferðum í erfða- og líftækni. Fjallað er um arfgenga sjúkdóma, erfðabreyttar lífverur og nýjustu hugmyndir í genalækningum.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- Almennum og sértækum efnisatriðum og hugtökum áfangans.
- Arfgengi einkenna.
- Uppbyggingu og hlutverki erfðarefnis lífveru.
- Samhengi milli litninga, próteina og almennrar líkamsstarfsemi lífveru.
- Samhengi milli umhverfis og tíðni gena.
- Ólíkum stökkbreytingum og geri sér grein fyrir áhrifum þeirra á lífverur.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- Miðla af þekkingu sinni á erfðum lífvera skriflega, með teikningum, skýringarmyndum og með þátttöku í umræðum.
- Miðla og ræða ólíka þætti erfðafræðinnar, svo sem frumuerfðafræði, sameindaerfðafræði og stofnerfðafræði.
- Lesa úr og túlka ættartöflur.
- Framkvæma einfaldar rannsóknir í erfðafræði.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- Geta kynnt sér umfjöllun um erfðafræðileg málefni og tekið þátt í umræðum þar að lútandi.
- Færa rök fyrir samspili erfða og þróunar.
- Skilja arfgengi sjúkdóma.
- Rökræða siðfræðileg álitamál innan erfðafræðinnar og erfðatækninnar.
- Taka rökstudda og siðferðilega afstöðu til erfðatækninnar og geta rætt umdeild mál er hana varðar.
Undanfari: LÍFF2BA05.
Námsmat: Lokapróf og verkefnavinna. Lokapróf gildir 50%.