ÍSLE2BB05 - Goðafræði, málsaga og ritun

Grunnþættir: Læsi, sköpun. Í áfanganum er lögð áhersla á menningararfinn, bæði bókmenntir og sögu tungumálsins og orðaforðans. Kennd verður meðferð heimilda og haldið áfram með byggingu ritgerða. Nemendur þjálfaðir í ritun og endursögn stuttra texta og í að flytja verkefni munnlega í tímum. Unnið með orðaforða íslenskunnar, málvöndun og málstefnu. Gylfaginning, Skáldskaparmál og Völuspá eru lesin í áfanganum ásamt völdum vísum úr Hávamálum. Unnið er með textana á margvíslegan hátt og þeir tengdir nútímanum. Frumkvæði, ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð eru höfð að leiðarljósi.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • Bókmenntum og heimsmynd miðalda.
  • Málsögu og sögu orðaforðans.
  • Byggingu ritgerða og meðferð heimilda.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Draga saman og nýta upplýsingar úr ýmiss konar heimildum og flétta saman við eigin viðhorf og ályktanir á heiðarlegan hátt.
  • Nýta heimildir á réttan hátt við eigin ritsmíðar.
  • Flytja af öryggi ræður, endursagnir, lýsingar og kynningar á tilteknum málefnum.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Tengja nútímaverk við fornan menningararf, menningarheim og eigin veruleika.
  • Skrifa heimildaritgerð.
  • Skilja og ræða mikilvægi tungumáls fyrir samfélag og þjóðir.

Undanfari: ÍSLE2BA05.