FJÖL2BA05 - Fjölmiðlar og menning

Áfanginn er inngangur og kynning á fjölmiðlum. Fjallað verður um helstu tegundir nútímafjölmiðlunar: blöð og tímarit, ljósvakamiðla, netmiðla og samfélagsmiðla. Kannað verður hvað einkennir boðskipti innan þeirra og þau borin saman, bæði í sögulegu og fræðilegu samhengi. Einnig verður farið í sögu nútímamenningar og nemendur kynna sér ýmsar tegundir afþreyingarmenningar sem fjölmiðlar hafa skapað. Fjallað verður um fréttaflutning í nútímasamfélagi og hvernig fjölmiðlar og fréttastofur meðhöndla fréttir og vinna fréttir auk þess sem fjallað verður um falsfréttir. Þess er ætlast að nemendur fylgist nokkuð með þeim atburðum sem eru að gerast á líðandi stundu í gegnum fréttamiðla. Ennfremur er fjallað um kenningar og rannsóknir varðandi áhrif fjölmiðla og samfélagsmiðla og þátt þeirra í lífi einstaklinga og á þróun og tíðarandann í samfélaginu.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • Kenningum og rannsóknum um áhrif og hlutverk fjölmiðla og samfélagsmiðla.
  • Helstu atriðum í sögu fjölmiðla á Íslandi í grófum dráttum.
  • Afþreyingarmenningu.
  • Því hvernig fjölmiðlar og fréttastofur starfa við öflun, vinnslu og dreifingu á fréttum.
  • Því helsta sem er að gerast í samfélaginu.
  • Menningu annarra landa með því að fylgjast með fréttum reglulega.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Taka þátt í umræðu um það sem er efst á baugi í samfélaginu hverju sinni.
  • Skrifa fréttatexta á góðu íslensku máli.
  • Tjá sig munnlega með því að kynna eigin verk á glærum.
  • Gera grein fyrir sögu afþreyingarmenningar og almennum tíðaranda í þjóðfélaginu á hverjum tíma.
  • Gera grein fyrir áhrifum fjölmiðla og samfélagsmiðla.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Líta á áhrif og hlutverk fjölmiðla með gagnrýnum augum.
  • Bera saman frásagnarstíl netmiðla og hefðbundinna fjölmiðla.
  • Rökstyðja áhrifamátt fjölmiðla við þróun afþreyingarmenningar sem er metið með kynningu á eigin glærusýningu.
  • Bera saman ólík form afþreyingarmenningar.
  • Setja saman og skapa auðlæsan og skiljanlegan fréttatexta sem er metið með skrifum á fréttagreinum.
  • Kunna að taka fjölmiðlaviðtöl.

Undanfari: Enginn.

Námsmat: Símat.