FÉLA2BA05 - Einstaklingur og samfélag

Í þessum byrjunaráfanga er fjallað um grunneiningar samfélagsins og þær skoðaðar af sjónarhorni félagsvísinda. Fjallað er um samfélagið í ljósi þeirra áhrifa sem það hefur á einstaklinginn og líf hans. Lögð er áhersla á að nemendur verði læsir á umhverfi sitt svo að þeir verði færir um að taka virkan þátt í samfélagslegum umræðum og mynda sér skoðanir á meðvitaðan og gagnrýninn hátt. Nemendur kynna sér félagslega þætti sem stýra hegðun og athöfnum einstaklingsins. Mikilvægt er að nemendur öðlist skilning á uppbyggingu og skipulagi eigin samfélags og annarra. Í áfanganum öðlast nemendur þekkingu á lýðræði, mannréttindum og jafnrétti út frá samspili manns og umhverfis í anda sjálfbærni.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • Algengum hugtökum sem notuð eru í félagsfræði og skyldum greinum.
  • Félagsmótun og hvernig hún hefur áhrif á líf hvers og eins.
  • Mikilvægum innviðum samfélagsins, svo sem fjölskyldu, trúarbragða, vinnumarkaðar og stjórnkerfis.
  • Hvernig samfélagið mótar einstaklinginn og hvernig einstaklingurinn mótar samfélagið.

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • Fjalla um ólíka afmarkaða þætti samfélagsins í ræðu og riti.
  • Beita aðferðum félagsfræðinnar við greiningu og túlkun upplýsinga.
  • Tjá sig um samspil félagsmótunar og einstaklings.
  • Beita skapandi hugsun og vinna á sjálfstæðan og ábyrgan hátt.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • Yfirfæra þekkingu sína á félagsmótun og hvernig hún hefur áhrif á líf einstaklings sem er metið með verkefnum og prófum.
  • Taka virkan og ábyrgan þátt í lýðræðislegu samfélagi sem er metið með verkefnum.
  • Bera saman hugtök og hugmyndafræði til að mynda sér sértæka skoðun á helstu innviðum samfélagsins sem er metið með verkefnum og prófum.
  • Draga ályktanir um eigið samfélag og geta borið það saman við aðrar samfélagsgerðir sem er metið með verkefnum og prófum.

Undanfari: Enginn. 

Námsmat: Símat.