Bridge:
Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur séu færir um að skilja grunnþætti spilsins sem eru úrspil, spilamat, sagnkerfi og skor.
Úrspil er að spila úr spilunum.
Spilamat er að meta styrk spilanna sem spilari fær í hendur (punktar).
Skor er hvernig úrslit spilsins metast hjá hverju pari.
Sagnkerfi er hvernig parið semur um hvaða samning á að spila.
Nemendur byrja á að spila, tvö pör við hvert borð, læra undirstöður úrspils, trompsamningur eða grandsamningur, að trompa og svína. Í framhaldi verður tekið upp svokallað Minibridge þar sem nemendur kynnast öllum grunnþáttunum nema sagnkerfi. Eftir það kemur svo að sagnkerfinu. Sagnkerfið sem notað verður heitir Standard, vinsælasta kerfið á Íslandi.
Kennslustundir verða fyrst og fremst æfingar þar sem nemendur spila, smá fræðslu fléttað inn í. Þegar á líður munu nemendur fara á nýliðakvöld hjá Bridgesambandi Íslands. Einnig er á dagskrá að hafa mót þar sem nemendur úr öðrum skólum etja kappi. Einnig verður netið notað, þar er um að ræða bridgeforrit sem heitir BridgeBase.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- Grunnreglum spilsins.
- Standard-sagnkerfinu.
- Minibridge.
- Hegðunarreglum.
- Notkun sagnbakka.
- Bridgeforritum á netinu.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- Meta styrk spilahandar (spilamat).
- Gera áætlun um hvernig spilað verður úr spilinu (úrspil).
- Vinna með spilafélaga (samvinna við makker).
- Reikna útreikninga.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- Sýna samvinnu.
- Gera áætlun.
- Vinna skipulega í útspili.
Skák:
Byrjendakennsla í skák. Farið í grunnatriði manntafls svo sem mannganginn, styrkleika mannanna, skákreglur og hvernig skák getur lokið með sigri, tapi eða jafntefli. Farið yfir sögu skákarinnar, heimsmeistara og íslenskra stórmeistara.
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- Uppstillingu og gangi taflmannanna.
- Hvernig skákir geta endað á sex mismunandi vegu.
- Ýmsum aðferðum við að máta andstæðinginn.
- Styrkleika mannanna.
- Algengustu skákbyrjunum.
- Mikilvægi miðborðsins.
- Grunnatriði í endatafli.
- Fléttum og taktík til að ná fram ávinningi.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- Máta andstæðinginn.
- Sýna þolinmæði og forðast afleiki.
- Skrifa skákir.
- Að tefla eftir áætlun, strategíu.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- Tefla sér til ánægju.
- Tefla agað og ná einbeitingu við skákborðið.
- Sýna andstæðingnum virðingu og fara að reglum.
Undanfari: Enginn.