DANB1FB00 - Danska 2 á framhaldsskólabraut

Þetta er grunnáfangi 2 í dönsku. Orðaforðinn er aðeins flóknari en í áfanganum á undan. Farið verður meira í undantekningar í málfræði. Nemendur æfa sig í málfræði og nota hana í ritun. Færniþættirnir fjórir verða þjálfaðir áfram með efni sem hentar nemendum á A1 og leitast verður við að þyngja efnið aðeins. Nemendur lesa lengri texta sem þó eru á auðveldu máli. Þeir hlusta á efni um kunnuglega hluti og skrá athugasemdir hjá sér. Nemendur rita lengri texta og þjálfast enn betur í að nota orðabækur sér til stuðnings. Þeir segja frá efni sem þeim er tengt eða er kunnuglegt og þjálfast líka í samræðum um einfalt efni á dönsku.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • þeim orðaforða sem nauðsynlegur er til að mæta hæfniviðmiðum þrepsins
  • grunnreglum í danskri málfræði auk algengustu undantekninga
  • hvernig netorðabækur nýtast honum í námi

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • lesa einfalda texta á eigin áhugasviði eða texta um kunnugleg efni
  • skilja innihald talaðs máls um kunnugleg efni þegar talað er skýrt og áheyrilega
  • taka undirbúinn þátt í einföldum samræðum um efni sem hann þekkir
  • skrifa samfelldan texta um efni sem hann hefur kynnt sér eða hefur áhuga á
  • fara eftir grundvallarreglum sem gilda um ritað mál og beita réttri málfræði eftir bestu getu
  • nota upplýsingatækni og hjálpargögn í tungumálanámi

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • greina einfaldar upplýsingar í mæltu máli ef talað er skýrt og áheyrilega
  • fylgjast með frásögnum í fjölmiðlum ef efnið er áhugavert
  • lesa stuttar tímarits- eða blaðagreinar
  • tjá sig munnlega um efni sem honum finnst áhugavert og hefur undirbúið sig fyrir
  • skrifa stutta samantekt um málefni sem hann hefur kynnt sér