Moodle - MKnet

Inna - upplýsingakerfi skóla

Póstur kennara

ForsíðaSkólinnHlutverk og stefnurSTE-010 Jafnréttisstefna

STE-010 Jafnréttisstefna

1 JAFNRÉTTISSTEFNA

Menntaskólinn í Kópavogi setur sér eftirfarandi jafnréttisstefnu sem byggð er á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008, með áorðnum breytingum; einnig lögum um jafnlaunavottun 56/2017 og meðf. reglugerð.

Markmið jafnréttisstefnu er að tryggja að fyllsta jafnréttis kynjanna sé gætt í hvívetna í skólanum og að bæði nemendur og starfsfólk fái notið sín á eigin forsendum án tillits til kynferðis. Halda skal sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í öllu starfi innan skólans sé þess kostur. Markvisst skal unnið að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans. Kynbundin mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist og skal vinna á virkan hátt gegn slíkri mismunun. Kynbundið ofbeldi eða áreitni er ekki liðin. Með jafnréttisstefnu skólans er unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum. Jafnréttisstefnu MK er fylgt fram með jafnréttisáætlun.

Þessi jafnréttisáætlun er kynnt almenningi á heimasíðu Menntaskólans í Kópavogi.

 

 2 JAFNRÉTTISÁÆTLUN

Jafnréttisáætlun MK er verkfæri til þess að hrinda stefnunni í framkvæmd með markvissum hætti. Jafnréttisáætluninni er skipt í tvennt og tekur annar hlutinn til vinnustaðarins, þ.e. starfsfólks skólans og reksturs hans, en hinn hlutinn til nemenda, náms og kennslu, þ.e. skólastarfsins. Áætlunin er liður í því að jafna stöðu og virðingu kvenna og karla innan skólans og minna starfsfólk, stjórnendur og nemendur á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis.

Jafnréttisnefnd MK bera ábyrgð á að gera jafnréttisáætlun á grundvelli jafnréttisstefnu skólans.

Jafnréttisáætlun nær til allrar starfsemi skólans. Stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á framgangi jafnréttismála. Gæðastjóri er fulltrúi stjórnenda sem ber ábyrgð á innleiðingu á jafnlaunakerfinu (IST-085:2012). Stjórnendur skuldbinda sig til þess að fylgja lögum sem varða jafnan rétt kynja til launa fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Þeir sjá um að halda uppi stöðugum umbótum sem varða jöfnun á kynbundnum launamun fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf innan hvers stéttarfélags. Ef kynjabundin ójöfnuður launa kemur upp ber að bregðast við því skv. umbótaferlum skólans og fylgja verkferli „Úrbætur áhættugreining“ . Að jafnaði skal þess gætt að óútskýrður kynbundinn launamunur sé ekki meira en 3%. Yfirstjórn og gæðastjóri í hennar umboði skulu: 1. hafa gætur á að jafnréttisáætlun sé fylgt; 2. óska eftir því að yfirstjórn ræði reglulega um jafnréttismál og leggja fram tillögur um sértækar aðgerðir í samræmi við markmið jafnréttisáætlunar; 3. afla tölfræðilegra upplýsinga um þætti sem varða áætlunina og 4. gera tillögur að endurskoðun hennar.

Áætlunina skal endurskoða á þriggja ára fresti og meta með hliðsjón af jafnréttisstefnunni og þeim árangri sem náðst hefur samkvæmt settum mælikvörðum.

.

2.2 VINNUSTAÐURINN

Þeir þættir sem litið er til eru

 • Ráðningar. Hafa skal bæði kynin í huga þegar störf eru auglýst og leitast við að halda hlutfalli kynjanna eins jöfnu og frekast er unnt. Gæta skal jafnréttissjónarmiða til jafns á við önnur sjónarmið við ráðningar í skólanum.
 • Ráðningarkjör. Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað og skulu viðmið við ákvörðun launa vera skýr og öllum ljós. Við ákvörðun launa er unnið skv. jafnlaunastaðli ÍST-85:2012 sem er grundvöllur fyrir vottunarkerfi að því er varðar launajafnrétti kynja í skólanum.  
 • Starfsaðstæður. Innan skólans skal leitast við að gera öllum óháð kyni kleift að samræma sem best starfsskyldur sínar og fjölskylduábyrgð s.s. vegna óska um töku fæðingar- og eða foreldraorlofs, eftir því sem starfstími og skipulag kennslu leyfir.
 • Endurmenntun, símenntun og starfsþjálfun. Allt starfsfólk óháð kyni á að hafa jafna möguleika til að sækja sér endurmenntun, símenntun og starfsþjálfun við hæfi.
 • Starfsframi, verkefni og ábyrgð. Starfsfólk óháð kyni skal hafa jafna möguleika á starfsframa innan skólans. Gæta skal jafnréttissjónarmiða við skiptingu verkefna og deilingu ábyrgðar meðal starfsfólks. Við skipan í nefndir og ráð skal gæta þess að kynjahlutfall sé sem jafnast. Starfsaðstæður skulu taka mið af kynjasjónamiðum og stefnt er að jöfnum áhrifum karla og kvenna í skólanum.
 • Einelti og kynferðisleg áreitni. Allt starfsfólk og nemendur eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki einelti, kynferðislegri né kynbundinni áreitni. Í verklagsreglu VKL-404 Úrbætur/áhættugreining og á verkefnablaði GAT-008 er lýsing á verklagi við úrvinnslu mála. .

Telji starfsmaður að jafnrétti sé brotið eða farið á svig við reglur skólans skal hann leita til skólameistara og/eða trúnaðarmanns sem finna málinu farveg.

 

2.3 SKÓLASTARFIÐ

Í öllu skólastarfi, námi, kennslu og skólanámskrá skal gæta jafnréttissjónarmiða. Jafnframt skal ýtt undir gagnrýna umfjöllun um hefðbundna kynjaskipingu og kynhlutverk í námi eftir því sem tilefni gefst til.

 • Í námi, félagsstarfi og framkomu fyrir hönd skólans á öllum vettvangi skal ávallt gæta þess að kynjahlutföll séu sem jöfnust.
 • Í kennslu skal unnið markvisst að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og eins skal unnið gegn neikvæðum staðalímyndum. Áhersla er lögð á að stuðla að sjálfsvirðingu og sjálfstæði beggja kynja.
 • Áhersla er á að uppfræða nemendur sérstaklega um jafnrétti kynjanna og nemendur þjálfaðir í að vinna gegn hvers kyns misrétti.
 • Lögð er áhersla á að gefa nemendum kost á að vera virkir og skapandi í starfi óháð kyni. Stefnt er að því að draga úr menningarbundnum kynhlutverkum (val á kynbundnum námsleiðum/hugmyndir um hefðbundin karla og kvennastörf) með fræðslu, starfs og námsráðgjöf.
 • Kennarar eru fyrirmyndir sem eiga að stuðla að jafnrétti í orði og í verki. Halda skal fræðslufundi og námskeið fyrir starfsfólk sem snerta jafnréttismál reglulega.

Telji nemandi að jafnrétti sé brotið eða farið á svig við reglur skólans skal leitað til skólameistara, námsráðgjafa eða starfsfólks sem finna málinu farveg.

 

2.4 Jafnréttisnefnd

Innan MK skal starfa jafnréttisnefnd, sem kosin er á skólafundi til tveggja ára í senn. Í jafnréttisnefnd skuli sitja eigi færri en þrír einstaklingar kennari, starfsmaður og nemandi og gengur annar fulltrúi kennara/starfsmanna úr nefndinni í einu. Hlutverk jafnréttisnefndar er meðal annars að fylgjast með stöðu jafnréttismála í skólanum, móta stefnu og áætlanir skólans í jafnréttismálum og fylgja eftir jafnréttisáætlun skólans. Jafnréttisnefndin skal vera ráðgefandi og setja fram 3 ára aðgerðaáætlun í jafnréttismálum fyrir Menntaskólann í Kópavogi. Þegar tímaramma aðgerðaáætlunar er lokið metur jafnréttisnefndin árangur eftir fyrirframgefnum markmiðum. Hún skrifar skýrslu sem lögð er fyrir gæðaráð skólans sem tekur ákvörðun um framhald mála í samvinnu við nefndina. Samin er ný 3 ára aðgerðaáætlun. Nefndin taki saman tölur um stöðu kynja í skólanum s.s. kynjahlutfall kennara/starfsmanna - kortleggi hvernig staðan er í skólanum og birti niðurstöður í árskýrslu skólans.

 

2.5 Aðgerðaáætlun skólaárin 2018 - 2021

 • Skólinn stendur árlega fyrir jafnréttisviku (frá mánudegi til fimmtudags) þar sem nemendum skólans er boðið upp á fyrirlestra og kynningar á málefnum tengdum jafnrétti og mannréttindum almennt. Jafnréttisvikan fer fram í byrjun marsmánaðar ár hvert. Jafnréttisnefnd skal leiða undirbúning að jafnréttisviku í samstarfi við kennara, starfsmenn og nemendur. Þá getur nefndin leitað eftir samstarfi við jafnréttisfulltrúa Kópavogsbæjar ef við á.
 • Við skólann skal reglulega boðinn áfangi í kynjafræði.
 • Jafnréttisnefnd skal ásamt félagslífsfulltrúa fund með nemendaráði í upphafi hverrar annar og standa fyrir jafnréttisfræðslu fyrir nemendaráð og nefndarmenn þar sem nemendaráðsfulltrúar setja saman aðgerðaráætlun vetrarins í jafnréttismálum.
 • Kanna skal hlutfall kynja í félagslífi innan MK, í nemendaráði og öðrum klúbbum og félögu sem tengjast félagsstarfi nemenda í skólanum. Upplýsingarnar skulu birtast í árskýrslu skólans.
 • Fram fari regluleg úttekt á stöðu launajafnréttis við skólann í samræmi við jafnlaunastaðal. Þá skal setja á stofn launanefnd sem starfsmenn geta óskað eftir að skoði launasetningu viðkomandi.
 • Fræðsluerindi fyrir kennara um jafnréttismál skal vera á dagskrá kennarafundar í jafnréttisvikunni. Skólameistari í samstarfi við jafnréttisnefnd sér um að fá hæfan fyrirlesara hverju sinni.

 

MÆLIKVARÐAR

Jafnréttisnefnd setur mælikvarða á helstu þætti stefnunnar þar sem fram komi:

 • Markmið sem sett er
 • Á hverra ábyrgð það er að ná settu marki
 • Hvaða aðgerð þarf til árangurs
 • Hvaða eftirfylgni þarf og hvaða tími er gefinn til að ná markmiði

 

Endurskoðun og samþykkt

Jafnréttisáætlun þessi er gerð í samræmi við 18. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 þar sem kveðið er á um að leggja beri áherslu á að tryggja konum og körlum jafnan rétt. Jafnframt segir að jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu og í skólastarfi almennt skuli endurskoða á þriggja ára fresti.

Jafnréttisáætlun þessi er yfirfarin og virkni hennar metin á rýnifundum stjórnenda.

Jafnréttisáætlun þessi var samþykkt af skólameistara Menntaskólans í Kópavogi þann 05.01.2018 og verður endurskoðuð fyrir 2021.  

Margrét Friðriksdóttir skólameistari

Ingibjörg Jónsdóttir fulltrúi í jafnréttisnefnd

María Hjálmtýsdóttir fulltrúi í jafnréttisnefnd  


Uppfært fimmtudagur, 11 október 2018 13:58

Go to top