Moodle - MKnet

Inna - upplýsingakerfi skóla

Póstur kennara

STE-001 Saga skólans

Tvö bindi hafa verið gefin út af sögu skólans:

Saga Menntaskólans í Kópavogi 1973-1983, útg. MK 1997 
Saga Menntaskólans í Kópavogi 1983-1993, útg. MK 1995

Fortíð – nútíð - framtíð

Menntaskólinn í Kópavogi var settur í fyrsta sinn 22. september 1973 af Ingólfi A. Þorkelssyni, skólameistara. Í fyrstu fór starfsemi skólans fram í viðbyggingu við Kópavogsskóla og voru nemendur alls 125 talsins í sex bekkjardeildum en kennt var eftir bekkjarkerfi. Árið 1982 var kennslukerfinu breytt og tekið upp svokallað kjarnakerfi sem var millileið milli bekkjakerfis og áfangakerfis og MK varð því menntaskóli með fjölbrautarsniði. Menntaskólinn í Kópavogi var til húsa í Kópavogsskóla fyrstu tíu árin en árið 1983 var starfsemi hans flutt í Víghólaskóla, það húsnæði er enn notað og merkt sem A- álma, N- álma og S- álma. Á vordögum 1991 hófust byggingaframkvæmdir við skólann og var fyrsti hluti tekinn í notkun haustið 1993 og þremur árum síðar, 1996 var risið glæsilegt verknámshús fyrir hótel- og matvælagreinar. Árið 2002 var tekin sú ákvörðun að rífa N-álmu skólans og byggja í hennar stað nýtt tveggja hæða bóknámshús auk sérbúinnar kennsluaðstöðu fyrir sérdeild skólans. Á 30 ára afmæli skólans 2003 var ný norðurálma tekin í notkun. 
Haustið 1995 var kennslukerfinu breytt í núverandi horf eða hreint áfangakerfi og ári seinna hófst kennsla í verknámsdeildum skólans. Árið 2000 setti skólinn sér stefnu um fartölvuvæðingur og að upplýsingatækni væri notuð í allri kennslu.Þá var í desember 2003 undirritaður fyrsti skólasamningurinn milli menntamálaráðuneytis og Menntaskólans í Kópavogi um starfsemi MK og árangur skólans á grundvelli fjárveitinga til skólans á fjárlögum. 
Ingólfur A. Þorkelsson lét af störfum sem skólameistari árið 1993 og við af honum tók núverandi skólameistari, Margrét Friðriksdóttir.

Margt hefur breyst í málefnum skólans á þeim rúmu 40 árum sem liðin eru frá því að hann hóf göngu sína. Í stað þeirra 125 sem hófu nám í MK eru nú um 1200 nemendur sem stunda nám á þremur sviðum. Flestir nemendur skólans stunda nám til stúdentsprófs, um 850. Um 250 nemendur eru á matvælasviði og um 180 í ferðamálanámi. Menntaskólinn í Kópavogi hefur alla tíð borið gæfu til þess að tapa ekki sjónar á mannauðnum og alltaf hefur starfað við skólann hæfileikaríkt fólk sem sinnir störfum sínum af áhuga og eldmóði.

Á 40 ára afmæli sínu opnaði skólinn upplýsingatækniver þar sem sameinað var hið klassíska bókasafn við tölvu, hugbúnaðar og upplýsingaþjónustu; en skólinn hefur alltaf lagt áherslu á að vera í fararbroddi framhaldsskóla við not á nýrri tækni við nám. Þá hefur Menntaskólinn í Kópavogi lagt metnað sinn í að auka vitund nemenda sinna um jafnréttis- og umhverfismál og í þeim tilgangi helgað eina viku á hverju skólaári jafnréttismálum og aðra umhverfismálum þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp og þessum mikilvægu málaflokkum gefið sérstakt vægi.

Stjórnendur stefna að því að í Menntaskólanum í Kópavogi verði áfram boðið, jöfnum höndum, metnaðarfullt bóknám og verknám og bæta enn við sérhæfingu skólans á þeim sviðum. Einnig að auka námsframboð í takt við þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma.

Uppfært föstudagur, 17 nóvember 2017 12:32

Go to top