Moodle - MKnet

Inna - upplýsingakerfi skóla

Póstur kennara

  • Umsóknir (word skjal)
  • Senda póst This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Nám í leiðsöguskólanum

Nám í Leiðsöguskólanum 2017-2018

Nám í Leiðsöguskólanum er víðfemt og fjölbreytt. Fjallað er um jarðfræði Íslands, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi og íslenskt samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur eru fræddir um helstu ferðamannastaði á Íslandi, ferðamannaleiðir, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni. Fyrirlesarar, kennarar og leiðbeinendur eru allir sérfróðir um einstaka málaflokka. Þeir sem útskrifast sem leiðsögumenn frá Leiðsöguskólanum fá félagsaðild að fagdeild Félags leiðsögumanna þ.e. fulla aðild að félaginu, Nánari upplýsingar hér.

Inntökuskilyrði

Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21 árs við upphaf námsins. Þeir skulu hafa stúdentspróf eða sambærilegt nám, ásamt því að hafa mjög gott vald á einu erlendu tungumáli, auk íslensku. Nemendur þurfa að standast munnlegt inntökupróf í því tungumáli sem þeir hyggjast leiðsegja á.

Umsóknir fyrir næsta skólaár þurfa að berast skólanum í síðasta lagi 23. maí.

Skólagjöld

Skólagjöld veturinn 2017-2018 eru 230.000 kr. fyrir hvora önn, samtals 460.000 krónur. Kostnaður vegna vettvangsferða er innifalinn en nemendur greiða sjálfir fyrir mat í ferðum. Námsgögn eru ekki innifalin í skólagjöldum. Þeir nemendur sem ekki eru í fullu námi greiða 16.000 krónur fyrir hverja einingu sem þeir eru skráðir í, auk 6.000 kr innritunargjalds á önn. Inntökupróf í erlendum tungumálum kosta 10.000 krónur.

Skipulag náms

Markmið leiðsögunáms er að búa nemendur undir það að fylgja ferðamönnum um landið. Námið byggir á námskrá fyrir leiðsögunám sem gefin var út af Menntamálaráðuneytinu árið 2004. Leiðsögunám er samtals 37 einingar og skiptist í tvennt; kjarna á haustönn og kjörsvið á vorönn. Nám í kjarna er 17 einingar og er sameiginlegt fyrir alla. Nám á kjörsviði er 20 einingar og felur í sér sérhæfingu á viðkomandi sviði.

Miðað er við að þeir nemendur sem skipta náminu á 2 ár taki að lágmarki 7 einingar á önn.

Kennsla hefst 21. ágúst og útskrifast þeir nemendur sem lokið hafa bæði kjarna og kjörsviði í maí 2018.

Kennt er þrjú kvöld í viku; mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga, frá klukkan 16:40 til 20:40 eða 21:20. Á hvorri önn eru farnar 6 - 7 vettvangs- og æfingaferðir, oftast á laugardögum.

Námsmat

Námsmat byggir á skriflegum og/eða munnlegum verkefnum og prófum. Nemendur þurfa að fá a.m.k. sjö af tíu í einkunn í öllum fögum. Gert er ráð fyrir að nemendur mæti í allar vettvangs- og æfingaferðir.

Kjörsvið

Nemendum skólans standa til boða tvö kjörsvið að loknu námi í kjarna;almenn leiðsögn og gönguleiðsögn.

Almennir leiðsögumenn: Nemendur fá kennslu og þjálfun í að fara um landið með erlenda ferðamenn. Segja má að nemendur fari hringinn í kringum landið í kennslustofunni með kennurum. Æfingaferðir í rútu eru stór liður í þjálfun nemenda og fara nemendur á helstu ferðamannastaði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Náminu lýkur með 6 daga hringferð um landið þar sem nemendur skiptast á að leiðsegja.

Gönguleiðsögumenn: Nemendur fá kennslu og þjálfun í að fara með ferðamenn í lengri eða styttri gönguferðir en einnig fá þeir þjálfun í leiðsögn í rútu. Nemendur fara í sólarhrings rötunarferð, helgarnámskeið í vetrarfjallamennsku og ferðamennsku á jöklum (ath nemendur þurfa sjálfir að koma sér á námskeiðsstað) auk æfingar í að vaða straumvötn. Nemendur fara í nokkrar gönguferðir á eigin vegum. Náminu lýkur með 5 daga bakpokagönguferð um óbyggðir þar sem gist er í tjöldum. Nemendum í gönguleiðsögn er eindregið ráðlagt að taka skyndihjálparnámskeiðið Wilderness First Responder. Þeir sem hyggjast stunda nám í gönguleiðsögn þurfa að hafa mikla reynslu af gönguferðum um óbyggðir og vera í góðu líkamlegu formi.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar hvað kennt er í einstökum fögum er bent á að smella á skammstöfun fyrir áfangaheiti sem eru blá og eru fyrir aftan nafn á áfanga á heimasíðu skólans. Dæmi: Atvinnuvegir ATV101. Þar er stutt lýsing á hvað er kennt í áfanganum og markmið.

Nánari upplýsingar um námið gefur fagstjóri Leiðsöguskólans í síma 594 4025. Einnig er hægt að senda póst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Uppfært mánudagur, 08 maí 2017 11:43

Go to top